Hoppa yfir valmynd
30. mars 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins

Undirritað var í morgun samkomulag heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, Landlæknisembættisins, Lyfjastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins um rekstur lyfjagagnagrunns. Þetta þýðir að Landlæknisembættið ber ábyrgð á lyfjagagnagrunninum, en TR verður falið að reka, hýsa og halda lyfjagagnagrunninum við. Gagnagrunnurinn er rekinn í fullu samræmi við lög um Persónuvernd nr. 77/2000 og reglur Persónuverndar nr. 299 frá 20. mars 2001.

 

Samkvæmt 27. grein lyfjalaga nr. 93/1994 eins og þeim var breytt með lögum nr. 89/2003 starfrækir Landlæknisembættið lyfjagagnagrunn um afgreiðslu lyfja. Er þetta gert í þeim tilgangi að hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf, að fylgjast með þróun lyfjanotkunar og til þess að hafa eftirlit með ávana- og fíknilyfjum. Landlæknisembættið ber samkvæmt samkomulaginu ábyrgð á dulkóðun persónuauðkenna í lyfjagagnagrunninum, en Lyfjastofnun og Tryggingastofnun ríkisins geta sótt um aðgang að gagnagrunninum að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í lyfjalögum.

 

Samkomulagið sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, og Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituðu í morgun er niðurstaða nefndar sem sá um að undirbúa starfrækslu gagnagrunnsins. Henni var sömuleiðis falið að greiða úr álitamálum sem upp kynnu að koma, vinna að tæknilegri útfærslu, gera drög að samningi milli aðila, semja verklagsreglum og leggja til nauðsynlegar breytingar. Með samkomulaginu sem nú er orðið að veruleika hefur stýrihópurinn lokið störfum. Í honum sátu þau: Einar Magnússon, Inga J. Arnardóttir, Guðmundur Pétursson, Matthías Halldórsson og Sólveig Guðmundsdóttir. Með stýrihópnum starfaði undirnefnd að samningsgerðinni sem í áttu sæti: Benedikt Benediktsson, Hermann Ólason og Sigríður Haraldsdóttir.

 

Undirritun samkomulags um lyfjagagnagrunn



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta