Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 26. mars - 1. apríl

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir sjónum sínum að heilbrigði móður og barns að þessu sinni í tengslum við alþjóðaheilbrigðisdaginn þann 7. apríl næstkomandi. Aðildarlönd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru hvött til vekja athygli á deginum og hefur verið ákveðið að halda morgunverðarfund á Nordica hótel kl 8:15 - 10:00 þennan dag. Jafnframt verður lögð áhersla á kynningu í fjölmiðlum. Að undirbúningi dagsins standa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Landlæknisembættið, Miðstöð heilsuverndar barna,  Miðstöð mæðraverndar,  Lýðheilsustöð, Heilsugæslan í Reykjavík og Landspítali - háskólasjúkrahús. Dagskrá verður send út síðar og einnig auglýst í blöðum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur valið deginum einkunnarorðin "Make every mother and child count". Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu stofnunarinnar: http://www.who.int/world-health-day/2005/en/

 

Ráðstefnan ,,Heilbrigð sál í hraustum líkama”
Þann 7. apríl verður haldin ráðstefnan ,,Heilbrigð sál í hraustum líkama – áhrif hreyfingar á andlega líðan”. Að ráðstefnunni standa Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við menntamálaráðuneytið, Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð. Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á heimasíðu landlæknisembættisins: http://www.landlaeknir.is.

 

Ráðleggingar landlæknisembættisins til ferðamanna vegna fuglaflensu í Asíu
Sóttvarnarlæknir hefur birt ráðleggingar á heimasíðu landlæknisembættisins til ferðamanna vegna fulgaflensu í Asíu. Þar er vísað til upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem tilkynnti 31. mars sl. að 74 hafi sýkst og 49 þeirra látist í Suðaustur-Asíu síðan 28. janúar 2004. Flestir sem hafa sýkst eru frá Víetnam en aðrir sem hafa veikst eru frá Tælandi og Kambódíu. Talið er að allir hinna sýktu hafi haft tengsl við smitað fiðurfé og ekki er vitað til þess að smit hafi borist milli manna með virkum hætti. Ekki er mælt gegn því að fólk ferðist til neinna svæða þar sem fuglainfúensa geisar í fiðurfé í Asíu, að því er fram kemur á heimasíðu landlæknisembættisins. Þó er mælst til þess að ferðamenn forðist fuglamarkaði, búgarða og snertingu við lifandi hænsfugla og aðra fugla. Einungis ætti að neyta kjöts og eggja sem eru vel soðin eða steikt. Einnig er mælt með því að ferðamenn þvoi sér regulega um hendur og hugi að hreinlæti.
Nánar...

 

Ný staða hjúkrunarforstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Anna María Snorradóttir hefur verið ráðin hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Um er að ræða nýja stöðu við stofnunina, sem varð til við sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi 1. september sl.   Sex umsækjendur voru um stöðuna. Leitað  var álits hjúkrunarráðs á hæfni umsækjenda skv. lögum um heilbrigðisþjónustu.  Hjúkrunarforstjóri er yfirmaður hjúkrunar á heilbrigðisstofnuninni og situr  í framkvæmdastjórn stofnunarinnar. 

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
1. apríl 2005


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta