Loftferðasamningur við Úkraínu undirritaður
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur undirritað loftferðasamning Íslands og Úkraínu. Um er að ræða fyrsta milliríkjasamninginn sem hún skrifar undir frá því hún tók við embættinu í vikubyrjun.
Undirritunin fór fram í Stokkhólmi í dag þar sem Þórdís Kolbrún sækir ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, skrifaði undir samninginn fyrir hönd úkraínskra stjórnvalda.
„Loftferðasamningar eru meðal þeirra mikilvægu viðskiptasamninga sem tryggja flutninga til og frá Íslandi, auk þess að greiða aðgang íslenskra flugrekenda að alþjóðamörkuðum,“ segir Þórdís Kolbrún. „Heimsfaraldurinn hefur sýnt hversu viðkvæmt þetta umhverfi getur verið fyrir utanaðkomandi áhrifum. Þótt við höfum þurft að laga okkur að breyttum aðstæðum horfum við vitaskuld áfram til hagsmuna flugrekenda við gerð samninga sem þessara.“
Um er að ræða fyrsta loftferðasamning Íslands og Úkraínu og tekur hann til áætlunarflugs milli ríkjanna án takmarkana á fjölda áfangastaða, flutningsmagni eða tíðni fluga. Einnig kveður samningurinn á um flug til viðkomustaða handan áfangastaða á Íslandi og Úkraínu. Heimilt hefur verið að beita samningnum frá áritun árið 2019.