Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um frestun tollafgreiðslu sendinga.



[…]
[…]
[…]

Reykjavík 28. apríl 2016
Tilv.: FJR16030019/16.2.2

Efni: Úrskurður um stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar tollstjóra um frestun tollafgreiðslu sendinga með númerin [S1] og [S2].

Hinn 3. mars 2016 barst ráðuneytinu erindi með tölvupósti frá [A] (hér eftir nefndur kærandi) sem bar fyrirsögnina „Erindi meint brot tollvarða í starfi misnotkun valdheimilda meiðyrði o.fl.“. Í inngangi erindisins kemur efnislega fram að í því sé fjallað í stuttu máli um innflutning á tveimur úrum og óskað sé eftir því að ráðuneytið taki á máli tollstjóra með fagmannlegum og jákvæðum hætti.
Skilningur ráðuneytisins er að tilefni ritunar erindisins sé ákvörðun tollstjóra um stöðvun sendingar vegna gruns um brot gegn hugverkaréttindum samkvæmt ákvæði 132. gr. tollalaga, nr. 88/2005 (hér eftir nefnd tollalög), sem tilkynnt var kæranda skriflega með bréfi tollstjóra dags. 4. mars 2016. Í bréfinu kemur fram tilkynning tollstjóra um að embættið hefði ákveðið að beiðni [X], fyrir hönd [R] í Sviss, að fresta tollafgreiðslu á tveimur sendingum til kæranda, annars vegar sendingu með númerið [S1] og hins vegar [S2]. Í bréfinu kemur fram að ástæða frestunarinnar hafi verið sú að fyrir lægi grunur um að sendingarnar innihéldu vörur sem brytu gegn réttindum [R] í Sviss, sem rétthafa [R] úra. Vísað er til þess að samkvæmt ákvæði 2. mgr. 132. gr. tollalaga sé tollstjóra heimilt að fresta tollafgreiðslu varanna í allt að tíu virka daga þar sem fullnægjandi skjöl skv. 1. mgr. 132. gr. tollalaga hafi verið lögð fram af rétthafa og skilyrði frestunar séu því uppfyllt. Í framhaldinu er gerð grein fyrir því að frestunin eigi sér stað á meðan rétthafi leiti bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og í framhaldi af þeim hefur málarekstur fyrir dómstólum samkvæmt ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 132. gr. tollalaga. Í framhaldinu er bent á að tollstjóra sé heimilt að framlengja frestinn um tíu virka daga ef sérstakar aðstæður mæli með því á grundvelli ákvæðis 4. málsl. 2. mgr. 132. gr. tollalaga.
Í kjölfar þess að erindið barst hefur ráðuneytið átt samskipti við kæranda með það fyrir augum að finna erindi hans réttan farveg. Í erindinu er í fyrsta lagi óskað eftir því að tollstjóri afhendi kæranda bréf á ensku og íslensku þar sem fram komi að hann fái sendingarnar ekki afhentar að því er virðist til þess að hann geti óskað eftir því að fá aðrar gerðir úra sendar til landsins í stað þeirra sem sendingarnar innihalda. Í öðru lagi er því haldið fram að ákvarðanir tollstjóra um frestun tollafgreiðslu sendinga sem innihalda eftirlíkingar úra séu almennt séð ólögmætar og jafngildi haldlagningu. Í framhaldinu kemur fram að úrin í þeim sendingum sem tollafgreiðslu hefur verið frestað á séu ætluð til einkanota en hafi ekki verið pöntuð í viðskiptalegum tilgangi. Í þriðja lagi kemur fram að kærandi hyggist höfða mál á hendur tollstjóra fái hann úrin ekki afhent eða bætur sem nemi verðmæti úranna. Í fjórða lagi vænir kærandi nafngreinda starfsmenn tollstjóra um ólögmætt athæfi og krefst þess þeim verði vikið úr starfi.
Hinn 4. mars 2016 sendi starfsmaður ráðuneytisins kæranda tölvupóst þar sem spurt var hvort skilja mætti erindi hans sem stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar tollstjóra sem tilkynnt var skriflega með bréfi dags. 4. mars 2016. Í tölvupóstinum var jafnframt óskað eftir því að kærandi sendi ráðuneytinu afrit af skriflegum gögnum sem honum hefðu borist frá tollstjóra vegna málsins. Kærandi svaraði fyrirspurninni með tölvupósti sama dag og svari hans fylgdi afrit af bréfi tollstjóra, dags. 4. mars 2016. Af svörum kæranda að dæma verður ekki annað séð en að tilgangur erindisins hafi verið að kæra ákvörðun tollstjóra um að fresta tollafgreiðslu samkvæmt ákvæðum 132. gr. tollalaga sem tilkynnt var skriflega með bréfi dags. 4. mars 2016.

Lagagrundvöllur stjórnsýslukæru.
Ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt heimildum tollalaga eru almennt kæranlegar til ráðuneytisins á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 (hér eftir nefnd stjórnsýslulög) að því gefnu að ekki sé sérstaklega í lögum kveðið á um kæruheimild til annarra stjórnvalda. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ákvæðið tekur aðeins til svokallaðra stjórnvaldsákvarðana, þ.e. ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í hugtaksskilgreiningu stjórnvaldsákvörðunar felst að ákvörðun þarf að uppfylla tiltekin skilyrði til að teljast stjórnvaldsákvörðun. Eitt af þeim skilyrðum er að ákvörðunin þarf að binda endi á tiltekið stjórnsýslumál en ákvarðanir um meðferð slíks máls teljast ekki til stjórnvaldsákvarðana. Það einkennir málsmeðferðarákvarðanir að þær miða að því að mál verði nægilega rannsakað og undirbúið svo hægt sé að taka efnisákvörðun í málinu. Í samræmi við framangreint er kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga þrengd í 2. mgr. lagagreinarinnar þar sem sérstaklega er tekið fram að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Ákvörðun um frestun tollafgreiðslu.
Ákvörðun tollstjóra sem tilkynnt var með bréfi dags. 4. mars 2016 byggist á ákvæðum 132. gr. tollalaga. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að tollstjóra sé heimilt, að beiðni rétthafa, að fresta tollafgreiðslu vöru sem flutt er inn á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og hefur í framhaldi af þeim málarekstur fyrir dómstólum. Það er m.a. skilyrði ákvörðunar um frestun tollafgreiðslu að grunur leiki á að varan brjóti gegn hugverkaréttindum. Önnur skilyrði slíkrar ákvörðunar varða rétthafa, þ.e. að fyrir liggi skrifleg beiðni hans, hann hafi lagt fram nauðsynleg gögn og tryggingu er nægi til að bæta rétthafa, eiganda eða innflytjanda vörunnar það tjón eða þann kostnað sem óréttmæt frestun tollafgreiðslu kann að hafa í för með sér.
Samkvæmt 2. mgr. 132. gr. laganna er tollstjóra heimilt að fresta tollafgreiðslu vörunnar í allt að tíu virka daga hafi fullnægjandi gögn verið lögð fram sem heimilt er að framlengja um tíu virka daga ef sérstakar ástæður mæla með því. Hafi rétthafi eigi innan frestsins hafist handa við að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum, og tilkynnt tollyfirvöldum slíkt skriflega, er tollstjóra heimilt að tollafgreiða sendinguna. Í 4. mgr. 132. gr. tollalaga er kveðið á um að ef beiðni um bráðabirgðaaðgerð er synjað eða dómstóll hafnar því að um brot á hugverkarétti sé að ræða skuli tollstjóri afturkalla ákvörðun sína um frestun tollafgreiðslu. Ef með dómi er hins vegar kveðið á um að um brot á hugverkarétti sé að ræða og í dóminum er eigi mælt fyrir um ráðstöfun vörunnar þá er tollstjóra heimilt að farga vörunni eða ráðstafa henni á annan þann hátt sem ekki brýtur á rétti rétthafa. Hafi dóminum hins vegar verið áfrýjað skal fresta förgun eða ráðstöfun vöru þar til niðurstöður liggja fyrir.
Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 132. gr. tollalaga leiðir að tollstjóra er heimilað að fresta tollafgreiðslu vöru að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í tollafgreiðslu felst að tollstjóri heimili afhendingu vöru til nota innanlands eða til útflutnings, sbr. 18. tölul. 1. gr. tollalaga. Í 130. gr. laganna er hins vegar kveðið á um heimild tollstjóra til að stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem hún inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt. Hið sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað. Í 2. mgr. 130. gr. tollalaga er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að kæra ákvörðun um stöðvun tollafgreiðslu til ráðuneytis tollalaga sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga og að ákvörðun um að vara sé leyfisskyld sé heimilt að kæra til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðun um leyfisskyldu og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar. Í 131. gr. tollalaga er að sama skapi kveðið á um heimild tollstjóra til að stöðva tollafgreiðslu á öllum vörum innflytjanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Í þessu samhengi er rétt að ítreka að í 132. gr. tollalaga er aðeins kveðið á um frestun tollafgreiðslu að hámarki um 20 virka daga eða þar til áfrýjunardómur liggur fyrir. Ljóst er því að frestun felur ekki í sér að tollstjóri stöðvi eða synji um tollafgreiðslu. Þessum skilningi má m.a. finna stoð í því að beinlínis er gert ráð fyrir því í 4. mgr. 132. gr. tollalaga að tollstjóra sé skylt að afturkalla ákvörðun um frestun ef beiðni um bráðabirgðaaðgerð er synjað eða dómstóll hafnar því að um brot á hugverkarétti sé að ræða.
Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að ákvörðun tollstjóra um frestun tollafgreiðslu skv. 132. gr. tollalaga geti ekki talist kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur sé hún málsmeðferðarákvörðun sem ekki bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. lagagreinarinnar. Slík ákvörðun verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.
Með vísan til þess sem að framan segir er niðurstaða ráðuneytisins sú að stjórnsýslukæran uppfylli ekki það skilyrði að varða ákvörðun sem bindur enda á mál. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá ráðuneytinu.

Úrskurðarorð.
Kæru [A], dags. 3. mars 2016, vegna ákvörðunar tollstjóra um frestun tollafgreiðslu sendinga með númerin [S1] og [S2], sem tollstjóri tilkynnti skriflega með bréfi, dags. 4. mars 2016, er vísað frá ráðuneytinu.




Fyrir hönd ráðherra







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta