Hoppa yfir valmynd
30. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um að aflétta fjárnám

CATO Lögmenn ehf.
Þórir Skarphéðinsson
Katrínartúni 2
105 Reykjavík


Reykjavík 30. október 2015
Tilv.: FJR15060085/16.2.3


Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru [X], kt. […], vegna ákvörðunar Tollstjóra frá 24. apríl 2015.

Þann 30. júní 2015 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [X], kt. […]. Kærð er ákvörðun Tollstjóra frá 24. apríl 2015 um að hafna beiðni [X] um að aflétta fjárnámi af bifreið með skráningarnúmerið [Y] með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir og málsástæður:
Málsatvik eru þau að [X] keypti bifreiðina [Y] af [A] í skiptum fyrir tvær aðrar bifreiðar þann 7. apríl 2014 en kærandi, [X], hafði milligöngu um viðskiptin sem bílasali. Hvorki kaupandi né seljandi sáu sér fært að greiða sölulaun til kæranda við frágang viðskipta þann 7. apríl 2014. Formlegum frágangi viðskiptanna var því frestað þar til sölulaun yrðu að fullu greidd, sem var föstudaginn 11. apríl 2014. Kærandi tilkynnti svo eigendaskiptin til Samgöngustofu mánudaginn 14. apríl 2014 í samræmi við samkomulag aðila. Í millitíðinni hafði Tollstjóri hins vegar gert fjárnám í bifreiðinni þann 8. apríl 2014, eða daginn eftir að kaupsamningur og afsal voru undirrituð. Fjárnáminu var svo þinglýst þann 10. apríl 2014.

Í mars 2015 barst kaupanda uppboðstilkynning á bifreiðinni vegna fjárnáms Tollstjóra. Framkvæmdastjóri kæranda leitaði í kjölfarið til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og gerði grein fyrir málavöxtu. Eftir skoðun málsins hjá embættinu var tekin sú ákvörðun að afturkalla uppboðsbeiðnina m.a. með vísan til þeirra sjónarmiða að sá aðili sem hefur öðlast afsal fyrir lausafé er sannanlega talinn vera eigandi þess. Þann 20. mars s.á. var svo haft samband við Tollstjóra með beiðni um afnám fjárnámsins á bifreiðinni. Þann 24. apríl hafnaði Tollstjóri kröfu kæranda um afléttingu fjárnámsins.

Umsögn Tollstjóra:
Þann 2. júlí 2015 barst ráðuneytinu umsögn Tollstjóra, þar sem ítrekuð er afstaða embættisins um að rétt hefði verið að hafna beiðni kæranda um að aflétta fjárnámi af bifreiðinni. Vísað er til þeirra sjónarmiða sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun. Skráning eignarhalds á bifreið í ökutækjaskrá sé ígildi þinglýstrar eignarheimildar sbr. 3. mgr. 47. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. lög nr. 63/1988 og fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 13/1984, 568/2013 og 531/2013. Í fyrstgreinda dóminum segir m.a.: „Fallast ber á það með héraðsdómi, að skýra eigi ákvæði 43. gr. [nú 47. gr.] og 2. málsgr. 29. gr., sbr. 46. gr. [þinglýsingalaga] svo, að eignarréttur áfrýjanda, sem ekki var skráður í ökutækjaskrá, verði að þoka fyrir þinglýstum dómveðum samkvæmt hinum áfrýjuðu fjárnámsgerðum.“ Því þurfi sá sem eignast bifreið að láta skrá eignarheimild sína í ökutækjaskrá til þess að tryggja rétt sinn gagnvart grandlausum þriðja manni. Tollstjóri telur því að eignarréttur kaupandans, sem ekki var skráður í ökutækjaskrá, verði að þoka fyrir fjárnámi Tollstjóra í bifreiðinni.

Þá kemur fram að Tollstjóri hefði ekki getað gripið til annarra vægari úrræða til að ná fram því lögmæta markmiði að innheimta vangoldna skatta. Engum öðrum eignum hefði verið til að dreifa hjá skuldara sem taka hefði mátt fjárnám í fyrir fullnustu kröfunnar. Þá hefði ekki verið mætt í fjárnámið og því voru engin mótmæli höfð uppi við það tækifæri.

Tollstjóri upplýsir að lokum í umsögn sinni að mistök hafi orðið þess valdandi að nauðungarsölubeiðni var ekki send innan árs frá því að fjárnám var gert í bifreiðinni. Það sé því fallið niður með vísan til 60. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.

Kæranda var tilkynnt um þessar málalyktir með tölvupósti dags. 14. október 2015 og beðinn um að lýsa afstöðu sinni um hvort hann héldi kæru sinni til streitu. Umboðsmaður kæranda svaraði í tölvupósti dags. 15. október 2015 að hann óskaði þess að fá úrskurð í kæru sinni.

Forsendur og niðurstöður:
Við mat á því hvort kærandi hafi ennþá lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í stjórnsýslukæru sinni verður litið til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem búa að baki kæruúrræðinu, í samræmi við álit Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7075/2012. Þar hafði innanríkisráðuneytið vísað frá kæru Félagsins A vegna kyrrsetningar flugvélar í eigu félagsins. Frávísunin byggðist á því að félagið hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um lögmæti ákvörðunarinnar þar sem kyrrsetningunni hefði verið létt af svifflugunni. Í álitinu kemur fram að ef fortakslaust yrði lagt til grundvallar að stjórnvaldsákvarðanir sem hefðu liðið undir lok fengju ekki úrlausn æðra stjórnvalds í kærumáli, væri það úrræði sem borgurunum er tryggt með stjórnsýslukæru harla þýðingarlítið í þeim tilvikum.

Í tilviki þessu getur tollstjóraembættið ekki gert fjárnám aftur í bifreið kæranda á grundvelli skuldar seljanda bifreiðarinnar við ríkissjóð, enda bifreiðin ekki lengur í eigu seljanda. Hins vegar hefur úrskurður í málinu mögulega þýðingu fyrir kæranda sem og fyrir lægra sett stjórnvald. Af þeim sökum er málið tekið til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, má gera fjárnám í peningum eða í fasteign, lausafé, kröfu gerðarþola á hendur öðrum eða annarri eign eða réttindum, sem hafa fjárhagslegt gildi og unnt er að tilgreina nægilega. Fjárnám verður aðeins gert í réttindum, sem fengin eru, þegar gerðin fer fram. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sömu laga skulu mótmæli við gerðarbeiðni um aðför ekki stöðva gerðina, nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta að sjálfsdáðum eða sýslumaður telur mótmælin af öðrum sökum valda því, að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefst að verði fullnægt, eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti sem hann krefst.

Í VII. kafla þinglýsingarlaga nr. 37/1989 er fjallað um þinglýsingu lausafjár almennt. Í 3. mgr. 47. gr. laganna segir að sé þinglýst skjali sem varðar skrásetta bifreið þurfi ekki að þinglýsa eignarheimild, heldur skuli eignarheimild sú, sem er greind í bifreiðaskrá, talin nægur grundvöllur undir þinglýsingu skjala frá þeim er þar eru skráðir eigendur. Ákvæðið kom inn með lögum nr. 63/1988, sbr. 7. gr. þess. Í athugasemdum við frumvarpið til laganna segir: „Rétt þykir að halda því ákvæði um þinglýsingu skjala er varða skráðar bifreiðir að eigi þurfi að þinglýsa eignarheimild heldur skuli sú eignarheimild, sem fram kemur í bifreiðaskrá, talin nægur grundvöllur undir þinglýsingu skjals.“

Í 4. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 751/2003, kemur fram að beiðnir og tilkynningar til Umferðarstofu sem varði skráningu ökutækja og umsýslu vegna ökutækjaskrár, skuli vera í því formi sem Umferðarstofa ákveður og á þeim eyðublöðum sem Umferðarstofa lætur í té, eftir atvikum með undirskrift eða rafrænni staðfestingu, sbr. verklagsreglur Umferðarstofu. Á slíku eyðublaði, sem fyllt skal út við tilkynningu um eigendaskipti á ökutæki, kemur fram að tilkynningunni skuli framvísa hjá Samgöngustofu innan sjö daga frá því að eigendaskipti áttu sér stað. Ekkert er því til fyrirstöðu að skila inn tilkynningu um eigendaskipti samdægurs, annað hvort rafrænt á heimasvæði hjá Samgöngustofu eða með skilum á fyrrgreindu eyðublaði. Hins vegar lýsir kærandi örðugleikum við slíkt verklag þar sem öll viðskiptaskjöl séu á pappír. Af samtali starfsmanns ráðuneytisins við starfsmann Ökutækjaskrár má hins vegar ráða að tekið sé við tilkynningum um eigendaskipti á ökutækjum jafnvel þótt langt sé liðið fram yfir frestinn.

Skráning eigendaskipta í ökutækjaskrá felur í sér opinbera skráningu ökutækja til þess m.a. að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni og eru þau ígildi þinglýsingar sbr. ofangreint. Að þessu leyti eru eignarheimildir bifreiða frábrugðnar öðru lausafé, sbr. röksemdir embættis sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, um að sá aðili sem hafi öðlast afsal fyrir lausafé sé sannanlega talinn eigandi þess. Slíkt gildir vissulega um bifreiðir en hitt kemur til aukreitis, að vilji eigandi bifreiðar öðlast réttarvernd gagnvart þriðja manni þurfi hann að skrá eignarheimild sína í ökutækjaskrá. Skráning í ökutækjaskrá er þannig nauðsynleg tryggingarráðstöfun til að koma í veg fyrir að betri réttur fáist með fullnustugerð, sbr. 47. og 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 13/1984, nr. 568/2013 og 531/2013.

Í máli þessu var fjárnám gert í bifreið daginn eftir að kaupsamningur hafði verið undirritaður og afsal gefið út en áður en að sölulaun höfðu verið greidd vegna viðskiptanna og eigendaskiptin skráð í ökutækjaskrá. Var formlegum frágangi viðskiptanna því frestað þar til sölulaun væru að fullu greidd. Það gerðist svo viku síðar að eigendaskiptin voru skráð hjá Samgöngustofu. Í millitíðinni hafði hins vegar fjárnámi verið þinglýst á bifreiðina en það kom ekki fram á veðbókarvottorði sem fylgdi með skjölunum við skráningu í ökutækjaskrá, enda var veðbókarvottorðið dags. 7. apríl 2014. Aðilum hefði verið í lófa lagið að tilkynna eigendaskiptin fyrr en raun bar vitni og koma þannig í veg fyrir að fjárnámi yrði þinglýst á bifreiðina. Kærandi hefur þó lýst því að ómögulegt sé fyrir hann að senda tilkynningu um eigendaskipti rafrænt til Samgöngustofu þar sem pappírar séu allir í blaðaformi. Með vísan til réttaröryggissjónarmiða er mikilvægt að ferli eigendaskiptatilkynninga sé einfaldað hjá Samgöngustofu og boðið sé upp á rafrænar tilkynningar. Verður athugasemd um slíkt komið áleiðis til Samgöngustofu.

Hvað varðar meðalhófssjónarmið verður ekki fallist á með kæranda að fjárnámsgerð Tollstjóra þann 8. apríl 2014 hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 sbr. framangreindar röksemdir Tollstjóra. Fjárnámið var liður í innheimtuaðgerðum Tollstjóra vegna vangoldinna skatta seljanda bifreiðarinnar og á þeirri stundu mátti ekki sjá annað en að hann væri skráður eigandi ökutækisins.

Úrskurðarorð:
Ákvörðun Tollstjórans í Reykjavík þann 24. apríl 2015, um að hafna beiðni kæranda um að aflétta fjárnámi af bifreiðinni [Y], er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta