Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 96/2016 Úrskurður 18. nóvember 2016

Mál nr. 96/2016                     Millinafn:       Vídó

 


Hinn 18. nóvember  2016 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 96/2016 en erindið barst nefndinni 28. október:

Sótt er um millinafnið Vídó.

Meginreglur um millinöfn er að finna í 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þar er að finna þau skilyrði sem millinöfn þurfa að uppfylla til þess að mögulegt sé að samþykkja nýtt millinafn og færa það á mannanafnaskrá. Öll eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt:

Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.

Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karl eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.

Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. (Undirstrikanir eru nefndarinnar.)

 

Millinafnið Vídó er ekki dregið af íslenskum orðstofni og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli. Millinafnið Vídó uppfyllir því ekki almenn skilyrði mannanafnalaga um millinöfn.

Hins vegar er í 3. mgr. 6. gr. mannanafnalaga mælt fyrir um eftirfarandi: Millinafn, sem víkur frá ákvæðum 2. mgr., er heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.

Samkvæmt orðanna hljóðan telur ákvæði þetta upp með tæmandi hætti hvaða nöfn koma til greina á þessum lagagrundvelli. Þrátt fyrir ótvíræðan skýrleika lagaákvæðisins þarf túlkun mannanafnanefndar á efnislegu inntaki þess að taka mið af fyrirliggjandi dómafordæmum um beitingu einstakra ákvæða mannanafnalaga, þ.m.t. með tilliti til þess hvort einstök ákvæði laganna samrýmast grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, sem og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Við úrlausn þessa máls þarf því óhjákvæmilega að líta til óáfrýjaðs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014 (millinafnið Gests) en þar var talið að eins og atvikum máls væri háttað, ætti að horfa framhjá texta 3. mgr. 6. gr. mannanafnalaga þar eð ákvæðið bryti í bága við áðurnefnd ákvæði um friðhelgi einkalífs í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þessu leiðir að mannanafnanefnd þarf í sínum störfum að beita sömu túlkunarreglum og dómstólar gera en líta verður svo á að þegar íslenska ríkið áfrýji ekki niðurstöðum héraðsdóms í málum af þessu tagi, þá sé beiting lagareglna í óáfrýjuðum héraðsdómum, sú sem nefndin ber að fara eftir.

Þegar litið er til fyrirliggjandi gagna málsins er ljóst að umsóknin uppfyllir ekki skilyrði þau sem löggjafinn hefur mælt fyrir um í 3. mgr. 6. gr. mannanafnalaga. Hins vegar verður til þess að líta að beiðnin byggir á aðstæðum innan fjölskyldu úrskurðarbeiðanda og að afdrif hennar skiptir beiðanda persónulega verulegu máli sem og systkini hans. Þannig kemur fram í fyrirliggjandi gögnum að úrskurðarbeiðandi tilheyrir hópi ættingja sem vilja kenna sig við afa sinn sem hét xxx en var alla tíð þekktur sem xxx Vídó. Óumdeilt er að kona hans, börn, barnabörn og barnabörn hafa notað nafnið Vídó sem millinafn.

Með vísan til alls framanritaðs er litið svo á að þar sem fjölskyldan hafi ávallt notað nafnið Vídó sé réttlætanlegt að úrskurðarbeiðandi fái að taka upp millinafnið Vídó sbr. 3. mgr. 6. gr. mannanafnalaga, eins og ber að túlka það ákvæði í ljósi grundvallarreglna um friðhelgi einkalífs.

 

Úrskurðarorð:

Á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, er fallist á beiðni Kjartans Ólafssonar að taka upp millinafnið Vídó.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta