Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

A-457/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

ÚRSKURÐUR


Hinn 15. nóvember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-457/2012.

Kæruefni og málsatvik


Með bréfi, dags. 18. október 2012, kærði [A] afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni hennar um aðgang að nánar tilgreindum gögnum er vörðuðu skipun í embætti skólameistara við Fjölbrautaskólann við Ármúla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti þann 17. febrúar 2012 laust til umsóknar embætti skólameistara við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Umsóknarfrestur rann út þriðjudaginn 20. mars. Sjö umsóknir bárust um stöðuna og var kærandi einn umsækjenda. Þann 15. maí var tilkynnt á heimasíðu ráðuneytisins að [B] hefði verið skipaður í framangreint embætti til fimm ára.

Í kæru málsins er lýst málsatvikum og samskiptum kæranda við ráðuneytið, en henni var fyrst tilkynnt um skipun [B] í embættið með bréfi dags. 17. ágúst. Var þar bent á rétt kæranda til að óska eftir rökstuðningi vegna skipunarinnar sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fór fram á rökstuðning þann 26. ágúst. Því erindi svaraði ráðuneytið með bréfi 4. september. Í kjölfarið, með bréfi dags. 11. september, fór kærandi fram á aðgang að þeim gögnum sem ráðuneytið byggði rökstuðning sinn á.

Með bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 20. september, kemur fram að ráðuneytið telji skilyrði til að afhenda kæranda umsögn skólanefndar skólans. Segir svo orðrétt: „Önnur gögn verða ekki afhent þar sem þau eru ekki fyrir hendi eða óheimilt er vegna trúnaðarupplýsinga sem þar koma fram um mat á öðrum umsækjendum um embættið.“ Með bréfinu fylgdi umsögn skólanefndar.

Með bréfi kæranda, dags. 20. september, er krafan um aðgang að gögnum ítrekuð. Kemur fram í bréfinu að byggt sé á 15. gr. stjórnsýslulaga, að teknu tilliti til undantekninga 16. gr. og 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kærunni kemur fram að framangreindu bréfi hafi ekki verið svarað og að með vísan til 14. og 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sé sú málsmeðferð kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Málsmeðferð


Kæran var send mennta- og menningarmálaráðuneytinu til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. október.  

Með bréfi, dags. 9. nóvember, barst svar mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þar segir að ráðuneytið telji að upplýsingar þær sem kærandi óski eftir skuli veittar á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og falli því utan gildissviðs upplýsingalaga skv. 2. mgr. 2. gr. laganna nr. 50/1996.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða


Ákvörðun um skipun í embætti skólameistara skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, er stjórnvaldsákvörðun. Kærandi var einn umsækjenda um framangreinda stöðu og telst því aðili stjórnsýslumáls vegna umræddrar skipunar. Um rétt hennar til aðgangs að umbeðnum upplýsingum fer því eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í upphafi 1. mgr. 15. gr. þeirra laga segir að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993

Með vísan til framangreinds telst málið því ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og ber því að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð


Vísað er frá kæru [A], dags. 18. október 2012, á hendur mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þar sem farið er fram á gögn er varða skipun í embætti skólameistara við Fjölbrautaskólann við Ármúla, þann 15. maí 2012.





Trausti Fannar Valsson
formaður





                           Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta