Hoppa yfir valmynd
20. desember 2012 Forsætisráðuneytið

A-461/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 20. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-461/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Þann 6. júní 2012, kærði [A], hdl., f.h. [B] ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, synjun Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 29. maí, um aðgang að gagni sem tilgreint er sem „Skýrsla vinnuhóps, dags. febrúar 2012.“

 

Í kæru málsins kemur fram að það skjal sem um ræðir hafi fylgt greinargerð Ríkiskaupa til kærunefndar útboðsmála, dags. 27. mars, vegna kæru [B] ehf., í tilefni af ákvörðun Ríkiskaupa og Landspítala um val á tilboði í útboði nr. 15068 – Vökva- og sprautudælur, tengikvíar, rekstrarvörur og skráningarkerfi.

 

Kærandi var einn af þeim sem lagði fram tilboð í tilefni af umræddu útboði en samningur var ekki gerður við hann í kjölfar þess. Fyrir liggur að kærandi hefur gert athugasemdir við það, og m.a. kært framkvæmd útboðsins til kærunefndar útboðsmála á grundvelli laga um opinber innkaup nr. 84/2007. 

 

Samkvæmt gögnum málsins byggist hin kærða ákvörðun á því annars vegar að um vinnuskjal sé að ræða, sbr. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hins vegar byggist ákvörðunin á því að efni skýrslunnar feli í sér upplýsingar um viðkvæm einkamálefni í skilningi niðurlags 5. gr. sömu laga. 

 

Málsmeðferð

Kæran var send Landspítala háskólasjúkrahúsi með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2012. Kærði svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júní, en með bréfinu fylgdi m.a. umbeðin skýrsla faghóps, merkt sem trúnaðarmál.

 

Í athugasemdum Landspítala eru málavextir raktir á þá leið að 11. maí hafi kærandi óskað aðgangs að upplýsingum er vörðuðu útboð nr. 15068. Spítalinn hafi hafnað beiðninni að hluta þann 29. maí, þ.e. því hafi verið hafnað að afhenda skýrslu faghóps. Sú ákvörðun hafi byggst á undantekningarreglum upplýsingalaga að teknu tilliti til annarra laga og hagsmuna allra viðkomandi. Landspítalinn hafi talið sér óheimilt að veita kæranda upplýsingar um viðskiptaleyndarmál, viðkvæmar rekstrarupplýsingar eða aðrar upplýsingar sem líklegar væru til að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja eða annarra lögaðila.

 

Í athugsemdunum segir svo orðrétt: „Við framkvæmd útboðs nr. 15068 var það afstaða allra bjóðenda, þar á meðal kæranda (sjá fylgiskjal 1), fyrir útboð að öll gögn er vörðuðu tilboð þeirra væru trúnaðargögn. Breytir þar engu þótt þau trúnaðargögn hafi verið tekin úr tilboðum og borin saman til að auðvelda úrvinnslu tilboða sem oft geta verið hundruð blaðsíðna hvert. Kærði vill auk þess benda á að kærandi hefur sótt rétt sinn fyrir kærunefnd útboðsmála sem hefur öll umbeðin gögn þar á meðal skýrslu faghóps. Nefndin hefur þegar hafnað stöðvunarkröfu kæranda, sbr. ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli 5/2012.“

 

 

Í athugasemdum Landspítalans segir ennfremur svo: „Við mat á því hvort aðgangur skuli takmarkaður að einhverju eða öllu leyti skýrir kærði ákvæði upplýsingalaga í samræmi við ákvæði annarra laga eins og 1. gr. samkeppnislaga sem hefur það að markmiði að efla samkeppni og 1. mgr. 17. gr. laga um opinber innkaup þar sem segir að kaupanda sé óheimilt að láta af hendi trúnaðarupplýsingar, þ.e. atriða í tilboði sem leynt skulu fara en mat bjóðenda þar á meðal kæranda í útboði nr. 15068 var að öll tilboðsgögn væru trúnaðargögn (sjá fylgiskjal nr. 1). Að lokum verður ekki hjá því komist að telja hagsmuni almennings, m.t.t. tilgangs upplýsingalaga, af því að fá aðgang að skýrslu faghóps takmarkaða. Breytir hér engu hvort um er að ræða aðila máls eður ei. Aðilum máls er frjálst að leita til kærunefndar útboðsmála sem stendur vörð um réttindi þeirra en nefndin hefur aðgang að öllum gögnum á grundvelli 5. mgr. 95. gr. laga um opinber innkaup hvort sem þau eru bundin trúnaði eður ei. Það úrræði kæranda að geta leitað til kærunefndar útboðsmála veitir honum virkan möguleika á að gæta hagsmuna sinna á fullnægjandi hátt. Í ljósi úrræða kæranda verður að meta hagsmuni annarra bjóðenda af leynd yfir trúnaðargögnum meiri en hagsmuni kæranda af því að komast yfir trúnaðarupplýsingar. Það er mat kærða að opinberun skýrslu faghóps sé til þess eins fallin að valda bjóðendum og þeim fyrirtækjum sem standa þeim að baki tjóni verði aðgangur veittur. Með hliðsjón af því sem að framan var lýst verður að hafna kröfu kæranda um aðgang að skýrslu faghóps.“

 

Með tölvupósti, dags. 18. júní sl., óskaði [C] lögmannsstofa f.h. [D] ehf. eftir því að fá afrit af kæru og fylgigögnum málsins þar sem félagið vildi koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar. Beiðnin var samþykkt með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 18. júní, með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. gr. og 13. gr, sbr. 4. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og 1. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga.

 

Athugasemdir [E] hdl. fyrir hönd [D] ehf. bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál 22. júní. Þar kemur fram að [D] ehf. krefjist þess að kröfu kæranda verði hafnað. Því til stuðning er vísað til eftirfarandi málsástæðna:

 

„1. Umbjóðandi minn hefur hagsmuni af því að [B] ehf. og aðrir utanaðkomandi aðilar fái ekki aðgang að umræddri skýrslu þar sem hún fjallar um mikilvæga viðskiptahagsmuni félagsins. Samkvæmt grein 2.3 í útboðsskilmálum útboðsins átti umræddur vinnuhópur að fjalla um bjóðendur í útboðinu, tilboð þeirra og hvort tilboðin uppfylltu kröfur útboðsins. Auk þess átti vinnuhópurinn að gefa tilboðum bjóðenda einkunn.

 

Bjóðendur í útboðinu fengu ekki aðgang að umræddri skýrslu þar sem sérstaklega var kveðið á um í útboðsskilmálum að tilboð bjóðenda væru bundin trúnaði, sbr. tilboðsblað 2 [...]. Þar segir orðrétt:

 

„I, the undersigned, as specified in §1.13, request that all information in tender documents delivered by this Tenderer to the State Trading Centre in this Tender No. 15068 are designated to be confidential matter and not to be disclosed to other Tenderers or any other third party in accordance with the Icelandic Act on Public tendering, Art. 6 in EEC Directive 2004/18/EC, the Icelandic act on Public Administration and the Icelandic Information Act.“

 

Umbjóðandi minn hefur því ekki upplýsingar um hvað kemur fram í umræddri skýrslu. Eðli máls samkvæmt getur umsögn vinnuhópsins verið neikvæð eða jákvæð og færa má rök fyrir því að umbjóðandi minn hafi hagsmuni af því að skýrslan verði gerð opinber ef umsögn vinnuhópsins er jákvæð. Umbjóðandi minn hefur hins vegar ekki skoðað umrædda skýrslu og sættir sig því ekki við að hún verði gerð opinber án þess að honum hafi verið veitt tækifæri til að gera athugasemdir við efni hennar. Einkum í ljósi þess að ekki er hægt að útiloka að skýrslan verði með einhverjum hætti nýtt til markaðssetningar af hálfu [B] ehf. eða annarra aðila. Að framangreindu virtu og með vísan til 3. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr. laga um upplýsingalög nr. 50/1996, ber að hafna kröfu [B] ehf.

 

2. Þátttaka umbjóðanda míns í umræddu útboði byggðist á þeirri forsendu að tilboð hans væri háð trúnaði, sbr. áðurnefnt tilboðsblað nr. 2. Hagsmuni umbjóðanda míns í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996 ber að meta með hliðsjón af þessari forsendu, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingar í máli nr. A-28/1997.“

 

Með bréfi, 25. júní, kynnti úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda framangreindar umsagnir kærða og [D] ehf. og gaf honum kost á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af þeim.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar synjun Landspítala á beiðni kæranda um aðgang að skýrslu vinnuhóps sem nefnist „Skýrsla um tilboð í vökva- og sprautudælur, tengikvíar, skráningarkerfi og rekstrarvöru samkvæmt útboði Ríkiskaupa nr. 15068 fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús.“

 

Skýrslan er dagsett í febrúar 2012 og er merkt sem trúnaðarmál og vinnuskjal til eigin afnota. Í inngangi skýrslunnar kemur fram að tilboð í vökva- og sprautudælur ásamt tengikvíum, skráningarkerfi og rekstrarvöru til sex ára hafi verið opnuð hjá Ríkiskaupum þann 15. september 2011 í útboðinu. Útboðslýsing hafi verið unnin á heilbrigðis- og upplýsingadeild LSH með aðstoð vinnuhóps ásamt fulltrúum frá innkaupadeild. Í inngangi skýrslunnar kemur fram að í vinnuhópnum hafi átt sæti 18 fulltrúar mismunandi deilda Landspítala Háskólasjúkrahúss.

 

Í lokaorðum skýrslunnar er komist að niðurstöðu um að tilboð [D] hafi verið hagstæðast og að mælt sé með því að gengið verði til samninga við það fyrirtæki jafnframt því sem gerður verði rammasamningur til sex ára um kaup á rekstrarvörum með  möguleika á framlengingu um tvö ár, mest tvisvar sinnum.

 

Skýrslan varð til áður en gengið var til samninga um það verkefni sem útboðið náði til. Kærandi var þátttakandi í umræddu útboði og um hann er fjallað í umræddri skýrslu.

 

Kærandi hefur kært útboðið til kærunefndar útboðsmála á grundvelli laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Fyrir liggur að hið umbeðna skjal hefur verið afhent þeirri kærunefnd. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laga nr. 84/2007 fer um málsmeðferð nefndarinnar eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að því leyti sem öðru vísi er ekki fyrir mælt í lögum um opinber innkaup. Af þessu leiðir að um rétt kæranda til aðgangs að umræddu skjali fyrir þeirri nefnd fer eftir 15. gr. stjórnsýslulaga.

 

Í 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur gögnin í sínum vörslum. Þrátt fyrir að ákvörðun Landspítalans um það hvaða tilboði skyldi tekið í umræddu máli teljist ekki stjórnvaldsákvörðun er málið nú til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Úrskurður hennar telst ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

 

Samkvæmt framangreindu bar kæranda að beina erindi sínu um aðgang að umræddu gagni til kærunefndar útboðsmála. Það hefur ekki verið gert og er því óhjákvæmilegt annað en að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

Kæru [B] ehf. á hendur Landspítala háskólasjúkrahúsi er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta