Hoppa yfir valmynd
20. desember 2012 Forsætisráðuneytið

A-465/2012. Úrskurður frá 20. desember 2012.


ÚRSKURÐUR

 

Hinn 20. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-465/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2012, kærði [A] hrl., f.h. Tryggingamiðstöðvarinnar, þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 5. október, að synja beiðni, dags. 30. ágúst, um aðgang að gögnum í 13 töluliðum sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.

 

Fyrir úrskurðarnefndinni gerir kærandi eftirfarandi kröfu:

 

Aðallega að úrskurðarnefnd um upplýsingamál felli hina kærðu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins úr gildi og heimili kæranda aðgang að gögnum sem hann hefur tilgreint í 13 töluliðum í beiðni sinni til Fjármálaeftirlitsins, dags. 30. ágúst 2012.

 

Til vara að úrskurðarnefnd um upplýsingamál felli hina kærðu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins úr gildi og heimili aðgang að eins miklum hluta þeirra gagna sem krafist er aðgangs að í beiðni, dags. 30. ágúst 2012, og nefndin telji rétt á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Í kærunni kemur fram að gagnaöflun tengist máli sem höfðað hafi verið á hendur kæranda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna stjórnendatryggingar sem í gildi hafi verið frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Þá kemur fram að kærandi vinni að öflun gagna sem hann hyggist leggja fram í dómsmálum sem hann eigi aðild að og lúti að tryggingum sem Glitnir telji sig hafa keypt hjá kæranda. Í beiðninni kemur fram að um sé að ræða viðbótarbeiðni við beiðni sem kærandi hafi sent Fjármálaeftirlitinu þann 1. júní 2012, en frá því að umrædd beiðni hafi verið send hafi nokkur atriði er varði rekstur Glitnis komið til vitundar kæranda, meðal annars vegna ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur starfsmanni Glitnis banka hf., dags. 11. maí 2012, fyrir innherjasvik. Því hafi með kærunni verið gerð krafa um frekari gögn frá stofnuninni.

 

Í beiðninni er óskað eftir gögnum samkvæmt eftirfarandi 13 töluliðum:

 

1.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 4. mars 2008, um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf. í erlendri mynt, erfiðleika bankans við að bæta þá stöðu og upplýsingar um þá óvissu sem ríkti í langtímafjármögnun bankans.

2.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 10. og 11. mars 2008, þar sem fram koma upplýsingar um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf.

3.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 12. mars 2008, um að fjármögnunarþörf Glitnis banka hf. til eins mánaðar hefði aukist um rúmlega 1600 milljónir evra, lánsskuldbindingar hefðu aukist og handbært fé bankans hefði dregist saman um 515 milljónir.

4.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 14. mars 2008, um útstreymi fjármagns frá útibúi Glitnis banka hf. í London og upplýsingar um að búist væri við því að Glitnir gæti ekki framlengt þau lán bankans sem voru að koma á gjalddaga og að bankinn ætti í erfiðleikum með að útvega gjaldeyri til að standa við skuldbindingar sínar.

5.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 26. og 27. mars 2008, um slæma gjaldeyrisstöðu Glitnis banka hf.

6.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 31. mars 2008, um að innistæður í útibúi Glitnis banka hf. í London hefðu dregist saman um 440 milljónir sterlingspunda frá janúar 2008 og búast mætti við því að innistæðurnar drægjust saman enn frekar, eða mögulega um 350 milljónir sterlingspunda. Einnig komu fram upplýsingar um að stærstur hluti þeirra trygginga sem bankinn hygðist nota í endurhverfum viðskiptum við Englandsbanka væri ekki lengur nothæfar í viðskiptum.

7.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 26. og 27. ágúst 2008, um áhyggjur forstjóra Glitnis banka hf., [B], af gjaldeyrisstöðu bankans.

8.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 2. og 4. september 2008, um mikið útflæði erlends gjaldeyris frá Glitni banka hf. og erfiðleika bankans við að framlengja endurhverf viðskipti á sama tíma og tveir stórir gjalddagar vegna lánsskuldbindinga bankans nálguðust.

9.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 11. september 2008, um að Straumur fjárfestingarbanki hf. hefði fært öll reikningsviðskipti sín frá Glitni banka hf. til erlendra banka.

10.  Tölvupóstsamskipti starfsmanna Glitnis banka hf., dags. 15. september 2008, um erfiðleika Glitnis banka hf. við að fjármagna sig eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans, Lehman Brothers Holding Inc., sama dag. Í póstinum kom fram að Glitnir banki hf. gæti átt von á að þurfa að greiða 70 milljónir evra til breska fjármálafyrirtækisins Barclays PLC vegna yfirvofandi veðkalls. Jafnframt að Glitnir banki hf. þyrfti að greiða 13 milljónir evra vegna veðkalla í endurhverfum samningsviðskiptum og 12 milljónir evra til sænska fjárfestingarbankans Carnegie þar sem bankinn tæki ekki lengur hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sem tryggingu.

11.  Fundargerðir, minnisblöð, tölvupóstar og önnur þau gögn þar sem fram koma upplýsingar um það sem fram fór á fundi fjárstýringar og áhættustýringar Glitnis banka hf., dags. 8. mars 2008. Á fundinum kom fram að aðgengi bankans að óskuldbindandi peningamarkaðslánalínum hefði versnað umtalsvert. Á fundinum komu einnig fram upplýsingar um að innistæður í útibúi bankans hefðu dregist saman um 400 milljónir evra og að bankinn væri mjög háður fjármögnun með endurhverfum viðskiptum.

12.  Minnisblað frá 15. mars 2008 um að lausafjárstaða Glitnis banka hf. hefði versnað töluvert frá því í febrúar 2008 og að lánalína hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Citigroup, að fjárhæð 435 milljónir evra, stæði bankanum ekki lengur til boða. Í minnisblaðinu komu einnig fram upplýsingar um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf. dagana á undan.

13.  Drög að fundargerð efnahagsnefndar Glitnis banka hf., dags. 26. mars 2008, þar sem fram komu upplýsingar um slæma lausafjárstöðu Glitnis banka hf. og að eigið fé bankans myndi ekki standa undir fjárþörf bankans samkvæmt innri markmiðum bankans.

 

Í beiðninni er þess óskað, telji Fjármálaeftirlitið beiðnina óljósa eða lýsingu skjala ófullnægjandi, að Fjármálaeftirlitið sendi kæranda leiðbeiningar um hvernig það telji rétt að auðkenna viðkomandi skjöl og/eða mál þannig að stofnunin geti áttað sig á því við hvaða skjöl sé átt, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

 

Með bréfi, dags. 6. október 2012, hafnaði Fjármálaeftirlitið framangreindri beiðni kæranda. Um lið 1, 6, 7 og 8 í upplýsingabeiðninni sagði stofnunin að umbeðin gögn hafi ekki fundist við leit í skjalaskráningarkerfi Fjármálaeftirlitsins. Um lið 2, 3, 4, 5, 9, 10, 11, 12, og 13 kom fram að gögnin hefðu fundist við leit og að um aðgang að gögnum færi samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996. Kemur fram að gögn þau sem um ræði séu öll tilgreind í ákæru embættis sérstaks saksóknara, dags. 11. maí 2012, og varði því saksókn í opinberu máli, sbr. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá var vísað til úrskurða úrskurðarnefndar nr. A-49/1997 og A-79/1999.

 

Í kæru er vísað til 3. og 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Vísað er til þess að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998. Jafnframt er vísað til 2. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002.

 

Ítrekað er í kæru að Glitnir sé í slitameðferð og því hafi bankinn ekki hagsmuni af því að fyrri viðskipti fari leynt. Þá hafi Rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar fjallað um flest, ef ekki öll þau mál, sem óskað sé gagna og upplýsinga um. Hafi ríkt þagnarskylda um einhver þessara atriða á einhverju tímamarki, geri hún það ekki lengur af þessum sökum.

 

Að því er varðar þau gögn sem ekki hafi fundist við leit segir í kæru að kærandi telji þá röksemd stjórnvaldsins fara þvert gegn efni og tilgangi upplýsingalaga. Kærandi sætti sig við að hann geti ekki fengið aðgang að gögnum sem ekki séu til hjá viðkomandi stjórnvaldi en hann telji að ekki sé á því byggt af hálfu Fjármálaeftirlitsins að gögnin séu ekki til. Nauðsynlegt sé að kæra þennan hluta ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Vísað er til almennra athugasemda við frumvarp til upplýsingalaga nr. 50/1996, breytingarlaga nr. 161/2006 sem hafi verið ætlað að auka möguleika fyrirtækja og einstaklinga á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.

 

Segir svo að kærandi telji að ef fallist yrði á afstöðu Fjármálaeftirlitsins væri verið að viðurkenna að stjórnvöldum væri almennt unnt að neita aðgangi að gögnum í öllum málum með tilvísun til þess að ekki hafi tekist að finna skjölin við leit í skjalaskráningarkerfi viðkomandi stjórnvalds. Í hverju tilviki fyrir sig færi möguleiki aðila á að fá aðgang að gögnum eftir því hversu vel skjalaskráningarkerfi viðkomandi stjórnvalds væri gert, en ekki hvort umbeðin gögn væru í raun og veru til hjá stjórnvaldinu. Kærandi telji höfnun á þeim grundvelli ekki lögmæta.

 

Hvað varði það að umbeðin gögn tengist saksókn í opinberu máli byggir kærandi á því að túlkun Fjármálaeftirlitsins á 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sé röng, enda sé í ákvæðinu aðeins fjallað um gildissvið upplýsingalaga gagnvart öðrum lögum, en ekki sé verið að undanskilja rétt almennings til að fá aðgang að þeim gögnum sem mögulega nýtist við tiltekna rannsókn eða saksókn. Með því að taka fram að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn sé sérstaklega verið að undanþiggja að upplýsingalögin nái til þeirra aðila sem starfi eftir lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þannig komi lögin í veg fyrir að almenningur geti snúið sér að lögreglu og óskað eftir gögnum frá henni. Fjármálaeftirlitið sé hins vegar ekki þeirra á meðal. Þvert á móti falli Fjármálaeftirlitið undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996. Ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga beri að túlka þröngt. Það eitt að lögregla hafi fengið afrit af þeim til afnota við tiltekna lögreglurannsókn geri það ekki að verkum að tiltekin gögn verði sjálfkrafa undanþegin upplýsingarétti. Beiðni kæranda lúti ekki að rannsókn sakamáls eða saksókn. Þriðji aðili, Fjármálaeftirlitið í þessu tilviki, geti ekki vísað til 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga eingöngu vegna þess að umbeðin gögn hafi ratað inn í tiltekna rannsókn sakamáls.

 

Málsmeðferð

Kæran var send Fjármálaeftirlitinu til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember. Svar barst með bréfi, dags. 20. nóvember.

 

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins segir að stofnunin geri þá kröfu að máli kæranda, að því er varði gögn sem tilgreind eru í liðum 1, 6, 7, og 8 verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá segir að öll gögn og upplýsingar sem berist Fjármálaeftirlitinu séu skráð í skjalaskráningarkerfi stofnunarinnar, óháð því á hvaða formi þau séu eða hvernig þau berist stofnuninni. Meðferð og vistun gagna og upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu sé í fullu samræmi við ákvæði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þau gögn sem tilgreind hafi verið í lið 1, 6, 7, og 8 í beiðni kæranda hafi ekki komið upp við leit Fjármálaeftirlitsins í skjalaskráningarkerfi stofnunarinnar. Gögnin liggi því ekki fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu.

 

Að því er varði önnur gögn krefjist Fjármálaeftirlitið aðallega frávísunar en til vara að aðgangi kæranda að gögnunum verði synjað á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

Varðandi kröfu um frávísun er vísað til 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Byggt er á því að ekki skipti máli hvort rannsókn standi yfir eða henni sé lokið. Sama eigi við um meðferð sakamáls hjá handhöfum ákæruvalds, að rannsókn lokinni. Ekki skipti máli hvort mál sé þar enn til meðferðar, það hafi verið fellt niður eða ákæra ekki verið gefin út. Um leið og sakamál hafi verið þingfest fyrir héraðsdómi sé ekki unnt að krefjast aðgangs að gögnum þess máls á grundvelli upplýsingalaga, þar sem dómstólar og starfsemi þeirra falli utan gildissviðs laganna, sbr. gagnályktun frá 1. mgr. 1. gr. þeirra. Vísað er til úrskurða úrskurðarnefndar í upplýsingamálum nr. A-123/2001 (sbr. einnig A-124/2001, A-124/2001 og A-125/2001), A-137/2001, A-144/2002 og A-443/2012. Með orðalagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga „rannsókn sakamáls og saksókn“ sé ekki eingöngu átt við gögn og upplýsingar í vörslu þeirra stjórnvalda sem falli undir lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þvert á móti hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðað að ákvæðið taki til gagna og upplýsinga í vörslum annarra stjórnvalda en greini í fyrrgreindum lögum, sbr. t.d. mál nr. A-123/2001, A-124/2001 og A125/2001, enda sé um að ræða skjöl og önnur gögn sem séu eða muni að öllum líkindum koma til skoðunar við rannsókn sakamáls.

 

Gögn samkvæmt liðum 2, 3, 4, 5, 9, 10, 11, 12 og 13 séu öll tilgreind í ákæru sérstaks saksóknara, dags. 11. maí 2012, sem þingfest hafi verið 4. júní sl. Þau séu sönnunargögn í málinu og komi því til skoðunar við ákvörðun dómara um sekt eða sýknu hins ákærða. Með hliðsjón af því telji Fjármálaeftirlitið að aðgangur að gögnunum falli utan gildissviðs upplýsingalaga.

 

Þá byggir Fjármálaeftirlitið á því að afhending umræddra gagna sé óheimil vegna 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt ákvæðinu séu stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins bundnir þagnarskyldu. Þeir megi ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komist að í starfi sínu og leynt eigi að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildi um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfi fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan haldist þótt látið sé af starfi og óheimilt sé að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar séu þagnarskyldu. Ákvæðið sé sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfest það, sbr. m.a. mál A-422/2012. Hafi Fjármálaeftirlitið undir höndum upplýsingar um viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila sem falli undir hið sérstaka þagnarskylduákvæði, verði réttur til aðgangs að þeim ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga. Umrædd gögn hafi að geyma upplýsingar er varði viðskipti og rekstur eftirlitsskylds aðila sem falli undir hið sérstaka þagnarskylduákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998. Kærandi geti því ekki byggt rétt til aðgangs að gögnunum á ákvæðum upplýsingalaga. Þá mótmæli Fjármálaeftirlitið því að 4. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 eigi við um umbeðnar upplýsingar. Ákvæðið sé undantekning frá meginreglunni um hina sérstöku þagnarskyldu sem hvíli á starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 1. mgr. og beri að skýra hana með þrengjandi hætti.

 

Þá er byggt á því að Glitnir hf. sé í slitameðferð á grundvelli XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins á meðan á henni standi, sbr. 101. gr. a. sömu laga og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998. Þar sem Glitnir hf. sé hvorki gjaldþrota né hafi félaginu verið slitið geti 4. mgr. 13. gr. ekki átt við.

 

Að lokum segir að ljóst sé að þær upplýsingar sem afhentar hafi verið rannsóknarnefnd Alþingis veiti Fjármálaeftirlitinu ekki heimild til að láta þær af hendi til hvers sem þess óski og víki því ekki hinni sérstöku þagnarskyldu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins, ákvæði um bankaleynd og takmörkunum sem upplýsingalög geri ráð fyrir, úr vegi. Þá er vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. A-387/2011, A-398/2011 og A-419/2012.

 

Umsögn Fjármálaeftirlitsins var send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 23. nóvember. Með bréfi, dags. 5. desember, bárust athugasemdir kæranda.

 

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi sé ósammála túlkun Fjármálaeftirlitsins á niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Kærandi bendir á að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-398/2011 og A-443/2012 hafi nefndin fallið frá fyrri lögskýringu sinni á ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá segir að ef skýring Fjármálaeftirlitsins væri rétt myndi það leiða til þess að gögn hjá stjórnvöldum, hvers eðlis sem þau væru, yrðu óaðgengileg við það eitt að lögregla fengi afrit þeirra afhent við rannsókn máls. Sá hafi ekki verið tilgangur löggjafans. Skýra verði undantekningu 1. mgr. 2. gr. laganna þröngt, enda feli hún í sér takmörkun á meginreglunni um aðgang að gögnum. Tilgangur ákvæðisins hafi einungis verið sá að undanþiggja rannsókn sakamáls sem slíka undan lögunum, þannig að ekki væri unnt að krefjast aðgangs að gögnum frá viðkomandi rannsakendum. Hafi löggjafinn ætlað að takmarka aðgang að gögnum sem lögregla hafi hugsanlega fengið afrit af við rannsókn sakamáls, hefði ákvæðið verið orðað með öðrum hætti.

 

Í athugasemdum kæranda er vísað til 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og skýringa við ákvæði í frumvarpi til laganna og 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skýringa við ákvæðið í frumvarpi til þeirra laga. Þá er vísað til laga nr. 92/1989 um framkvæmdavald ríkisins og athugasemda við frumvarpið sem og annarra laga sem sett voru vegna aðskilnaðar löggjafar- og framkvæmdavalds, s.s. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Segir svo að ljóst sé að upplýsingalög nr. 50/1996 nái ekki til þeirra starfa sýslumanna og sýslunarmanna sem kveðið sé á um í framangreindum lögum, sem og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fjármálaeftirlitið starfi ekki eftir framangreindum lögum né hafi með höndum störf sem teljist til dómstarfa fram til 1. júlí 1992. Gögn sem Fjármálaeftirlitið hafi undir höndum geti ekki verið undanþegin upplýsingalögum vegna þess eins að þau séu mögulega til skoðunar hjá þeim sem starfi eftir lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála né heldur öðrum þeim lögum sem vísað sé til í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.

 

Að lokum hafnar kærandi því að Glitnir falli ekki undir 4. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, enda fari slit nú fram samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

 

Úrskurðarnefndinni bárust með tölvupósti þann 17. desember frekari athugasemdir Fjármálaeftirlitsins.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Synjun Fjármálaeftirlitsins byggist annars vegar á því að umbeðin gögn finnist ekki við leit í málakskrárkerfi stofnunarinnar og séu því ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni en hins vegar að gögnin falli undir niðurlagsákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en ella að þau lúti ákvæðum laga um sérstaka þagnarskyldu.

 

2.

Í 22. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er kveðið á um það að stjórnvöldum sé skylt að skrá mál, sem komi til meðferðar hjá þeim, á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg. Það er sérstakt álitaefni, sem leysa ber úr hverju sinni m.t.t. atvika máls og aðstæðna, hvaða gögn það eru sem tengjast máli með það skýrum hætti að þau teljist til gagna máls í skilningi 3. og 10. gr. upplýsingalaga og beri að varðveita sem gögn í því máli í málaskrá, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Skráning gagnanna í málaskrá sem slíka er ekki ráðandi um það hvort þau falli undir upplýsingarétt samkvæmt upplýsingalögum. Hafi stjórnvald fyrir mistök eða af öðrum ástæðum ekki sinnt því að vista tiltekin málsgögn í málaskrá, heldur aðeins fært þau í bókhald eða vistað í tölvupósti, kemur það í sjálfu sér ekki í veg fyrir að almenningur eigi rétt á aðgangi að þeim gögnum skv. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Niðurstaða um upplýsingarétt almennings veltur á því hvort umrætt gagn sé fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi og hvort það teljist vera hluti málsgagna efni sínu samkvæmt, sbr. 3. og 1. mgr. 22. gr. sömu laga, hvort sem vistun þess hefur verið hagað með réttum hætti að lögum eða ekki, og að lokum hvort einhverjar aðrar ástæður standi því í vegi að gögnin verði afhent. Vísast hér einnig til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál númer A-397/2011 og A-412/2012.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að ekki verði annað ráðið af svari Fjármálaeftirlitsins um að gögn finnist ekki í skjalasafni en að gögnin séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og hafi ekki verið það. Með hliðsjón af atvikum málsins telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki ástæðu til þess að draga þá fullyrðingu Fjármálaeftirlitsins í efa. Verður ekki sjálfkrafa á því byggt að öll þau gögn sem tilgreind eru í ákæru embættis sérstaks saksóknara, dags. 11. maí 2012, liggi fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu, þrátt fyrir að stofnunin hafi sent embættinu þá kæru sem liggur til grundvallar ákæru þess. Ber þannig, með vísan til skýringa Fjármálaeftirlitsins, að fallast á að gögn sem tilgreind eru í liðum 1, 6, 7, og 8, teljist ekki fyrirliggjandi hjá því. Af þessum sökum ber að vísa frá þeim þætti kærunnar er lýtur að þessum gögnum. 

 

3.

Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að lögin gildi m.a. ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn.

 

Í málinu liggur fyrir ákæra sérstaks saksóknara, dags. 11. maí 2012, á hendur fyrrum starfsmanni Glitnis banka hf., vegna meintra innherjasvika. Í ákærunni eru talin upp gögn í 13 töluliðum sem svara efnislega til upptalningar í beiðni kæranda um aðgang að gögnum til Fjármálaeftirlitsins, dags. 30. ágúst 2012. Verður ekki annað séð en að kærandi hafi byggt beiðni um gögn á framangreindri ákæru, með vísan til orðalags beiðninnar.

 

Fjármálaeftirlitið hefur afhent úrskurðarnefnd gögn sem fyrirliggjandi eru hjá embættinu og falla undir liði 2, 3, 4, 5, 9, 10, 11, 12 og 13 í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Fjármálaeftirlitið hefur staðhæft að öll þau gögn sem afhent hafi verið nefndinni og falli undir beiðni kæranda hafi verið afhent sérstökum saksóknara í tengslum við kæru Fjármálaeftirlitsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur jafnframt undir höndum sérstakan lista yfir þau gögn sem Fjármálaeftirlitið afhenti embætti sérstaks saksóknara vegna kæru stofnunarinnar. Kærandi hefur hins vegar byggt á því að gögn sem Fjármálaeftirlitið hafi undir höndum geti ekki verið undanþegin upplýsingalögum vegna þess eins að þau séu mögulega til skoðunar hjá þeim sem starfi eftir lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála né heldur öðrum þeim lögum sem vísað sé til í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.

 

Í lögum nr. 135/2008 er fjallað um embætti sérstaks saksóknara. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að sérstakur saksóknari hafi stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála og fari með stjórn lögreglu sem starfi við embætti hans. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans séu ákærendur samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Í 6. gr. laganna segir að um starfsemi embættisins gildi að öðru leyti ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð sakamála að því leyti sem lögin kveði ekki á um annað.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum sínum byggt á því að í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að lögin gildi ekki um „rannsókn eða saksókn í opinberu máli“, felist að ekki sé unnt að krefjast aðgangs að gögnum varðandi rannsókn eða saksókn á grundvelli laganna. Er þá við það miðað að fyrir liggi upplýsingar um hvaða gögn það eru sem sá er annast yfirstandandi rannsókn eða saksókn hefur undir höndum og teljast hluti viðkomandi sakamáls.

 

Í máli þessu liggur fyrir að þau gögn sem kærandi hefur óskað aðgangs að og fyrirliggjandi eru hjá Fjármálaeftirlitinu eru gögn í sama máli og sérstakur saksóknari höfðaði fyrir héraðsdómi Reykjaness með ákæru útgefinni þann 11. maí 2012. Málið er enn til meðferðar hjá dómstólnum. Því er ljóst að gögnin liggja til grundvallar saksókn máls. Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að þau gögn sem falla undir liði 2, 3, 4, 5, 9, 10, 11, 12 og 13 og Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að liggi fyrir hjá stofnuninni séu til sérstakrar skoðunar í saksókn í opinberu mál, sbr. niðurlag 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og falli því utan gildissviðs upplýsingalaga.

Samkvæmt framansögðu verður synjun Fjármálaeftirlitsins um aðgang kæranda að gögnum þessum ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru [A] hrl., f.h. Tryggingamiðstöðvarinnar, dags. 2. nóvember 2012, á hendur Fjármálaeftirlitinu, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að því er varðar gögn nr. 1, 6, 7, og 8. Staðfest er synjun Fjármálaeftirlitsins á afhendingu gagna nr. 2, 3, 4, 5, 9, 10, 11 og 12, sbr. beiðni kæranda um aðgang að gögnum dags. 30. ágúst 2012.

 

 

 

 

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta