A-470/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013
ÚRSKURÐUR
Hinn 31. janúar 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-470/2013.
Kæruefni og málsatvik
Þann 29. október 2012, kærði [A], f.h. [B], til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu Fjölbrautaskólans í Breiðholti á beiðni kæranda, dags. 17. september 2012, um afrit af samningi Kennarasambands Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti (sumarskóla FB) um laun kennara í sumarskóla FB, dags. 23. mars 2012. Hafði erindinu ekki verið svarað.
Málsmeðferð
Kæran var send Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember, þar sem því var beint til kærða að svara erindi kæranda eigi síðar en 16. nóvember, sbr. 11. og 13. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Með tölvupósti skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðholti, dags. 16. nóvember, barst nefndinni erindi skólans til kæranda þar sem beiðni hans var svarað. Með tölvupóstinum fylgdi samningur Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Kennarasambands Íslands um kennslu í sumarskóla FB 2012.
Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 19. nóvember, var framangreindur tölvupóstur kærða sendur kæranda og þess óskað að nefndin yrði upplýst um það eigi síðar en 30. nóvember hvort kærandi teldi afgreiðslu kærða á beiðni hans um aðgang að gögnum fullnægjandi.
Með tölvupósti kæranda til skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðholti, dags. 19. nóvember, sem nefndin fékk sent afrit af sama dag, kom fram að kærandi óskað einnig eftir afriti af samningi sem var í gildi á árunum 2011 og 2010. Einnig að kærandi óskaði eftir afriti af samstarfssamningi/ráðningarsamningi við kennara. Kom fram að eitt eintak dygði fyrir hvert ár.
Kærandi jók við beiðni sína um gögn til kærða með tölvupósti dags. 19. nóvember 2012, en afrit þess tölvupósts barst bæði nefndinni og kærða. Með tölvupósti kæranda, dags. 30. nóvember, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, kom fram að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefði ekki svarað beiðni kæranda um gögn, dags. 19. nóvember, og var óskað „aðstoðar“ úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna þeirrar beiðni. Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 4. desember 2012, til Fjölbrautaskólans í Breiðholti, var ítrekað að stjórnvaldi beri að taka ákvörðun um hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum, svo fljótt sem verða megi. Ennfremur skuli skýra þeim, sem fari fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá beri að tilkynna skriflega synjun beiðni, sbr. 13. gr. s.l. Var því beint til Fjölbrautaskólans í Breiðholti að svara beiðni kæranda eigi síðar en 11. desember 2012.
Með bréfi Fjölbrautaskólans í Breiðholti, dags. 6. desember, kom fram að kærði teldi sér ekki unnt að verða við beiðni kæranda um afhendingu gagna þeirra sem kærandi óskaði eftir til viðbótar við upphaflega beiðni með tölvupósti þann 19. nóvember.
Kemur fram að í fyrsta lagi hafi ekki verið gerðir sérstakir kjarasamningar við kennara sumarskólans árið 2010 og 2011. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að verða við beiðni um afrit af þeim. Í öðru lagi sé það mat Fjölbrautaskólans að afhending starfs- eða ráðningarsamninga við einstaka kennara sumarskólans sé óheimil samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga. Það sé mat Fjölbrautaskólans að ráðningarsamningarnir varði einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga er falli undir umrædda grein. Í þriðja lagi er bent á að rekstur sumarskólans fram að árinu 2012 hafi verið á vegum Fjölvals ses. en ekki Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Fjölval sé sjálfseignarstofnun sem fari sem slík ekki með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Upplýsingalög, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra, gildi ekki um starfsemi hennar. Þá taki 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga heldur ekki til starfsemi Fjölvals ses.
Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál til kæranda, dags. 7. desember, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi synjunar Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Athugasemdir bárust með bréfi kæranda, dags. 16. desember. Í fyrsta lagi kemur fram að ekki sé ástæða til að rengja þá fullyrðingu að ekki hafi verið gerðir sérstakir kjarasamningar við kennara Sumarskólans árin 2010 og 2011. Þá segir að engu að síður hafi án vafa verið stuðst við einhvern eldri samning þessi ár og að eðlilegt væri að afhenda þann samning sem miðað hafi verið við vegna launagreiðslna þessi ár.
Þá kemur fram að kærandi hafi ekki áhuga á að fá einstaka starfs- eða ráðningarsamninga heldur textann sem notaður hafi verið í þessum samningum. Sá texti hafi vafalítið verið svipaður eða sá sami fyrir alla eða aðeins verið notaðar nokkrar útgáfur. Bent er á að unnt sé að afhenda grunntexta eða strika út nöfn þeirra sem séu aðilar að samningunum.
Í þriðja lagi kemur fram af hálfu kæranda að sumarskólinn í FB hafi alltaf lotið stjórn stjórnenda Fjölbrautaskólans í Breiðholti og verið kynntur sem hluti af skólanum. Gögn sem stafi frá skólanum beri það með sér að hann hafi verið rekinn af Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hvergi sé þar minnst á Fjölval ses. sem eiganda eða rekstraraðila Sumarskóla FB. Á heimasíðu Fjölbrautaskólans hafi Sumarskóli FB verið kynntur sem hluti af Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þá verði ekki séð að skólinn hafi verið leystur upp. Jafnframt er bent á að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hafi ávallt séð um að afhenda gögn vegna Sumarskóla FB og gögn um nemendur séu í vörslum skólans, s.s. einkunnablöð en þau séu merkt Fjölbrautaskólanum og undirrituð af stjórnendum skólans. Rök þau að Fjölval ses. og rekstur þess félags sé aðskilinn rekstri Fjölbrautaskólans í Breiðholti og upplýsingaskyldu haldi því ekki. Í athugasemdunum er vísað til 14. gr. upplýsingalaga og þess óskað að úrskurðarnefndin hlutist til um að kærandi fái umbeðin gögn.
Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. janúar 2013, voru framangreindar athugasemdir sendar Fjölbrautaskólanum til umsagnar. Með bréfi, dags. 11. janúar, barst umsögn skólans. Þar kemur fram að skólinn staðfesti að ekki liggi fyrir hjá skólanum neinir kjarasamningar við kennara Sumarskólans vegna áranna 2010 og 2011. Þá sé ekki hægt að afhenda starfs- eða ráðningarsamninga við einstaka kennara Sumarskólans vegna fyrrgreindra ára. Engir skriflegir samningar hafi verið gerðir við kennara Sumarskólans árin 2010 og 2011, einungis munnlegir, og sé það í samræmi við fyrirkomulag sem viðhaft hafi verið vegna skólans um langt árabil.
Um kæru málsins segir einnig að hins vegar hafi verið byggt á eldri samningi sem Fjölval ses. hafi gert við Félag framhaldsskólakennara/Kennarasamband Íslands. Ekki sé unnt að fallast á að eðlilegt sé að afhenda þann samning og er vísað til þess sem fram komi í svari skólans þann 6. desember 2012 að rekstur Sumarskólans hafi verið í höndum sjálfseignarstofnunarinnar Fjölvals þar til á árinu 2012. Sjálfseignarstofnunin hafi sem slík ekki farið með stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélags og því taki ákvæði upplýsingalaga ekki til hennar, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Varðandi afhendingu á grunntextum starfs- eða ráðningarsamninga sem notaðir hafi verið eða að strikaðar verði út upplýsingar um nöfn einstaklinga sem aðilar hafi verið að samningunum er vísað til þess að allir starfs- eða ráðningarsamningar sem gerðir hafi verið við kennara Sumarskólans á fyrrgreindum tíma hafi verið munnlegir og því ekki hægt að afhenda afrit þeirra.
Varðandi andmæli er snúi að því að Fjölval ses. hafi verið rekstraraðili Sumarskólans er vísað til tilkynningar um stofnun sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri frá 29. maí 2000 þar sem tilkynnt hafi verið um stofnun Fjölvals ses. Starfsemi Sumarskólans hafi verið á vegum Fjölvals árin 2000-2011. Fjölval sé sjálfstæður lögaðili sem ekki lúti að mati kærða ákvæðum upplýsingalaga.
Með tölvupósti úrskurðarnefndar um upplýsingamál þann 15. janúar 2013 óskaði nefndin eftir upplýsingum um það hvort fyrirliggjandi væri hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti sá samningur sem vísað er til í umsögn skólans, dags. 11. janúar, sem samningur sem Fjölval ses. hafi gert við Félag framhaldsskólakennara/Kennarasamband Íslands. Með tölvupósti sama dag sendi Fjölbrautaskólinn í Breiðholti afrit umrædds samnings. Samningurinn ber heitið Samkomulag um launagreiðslur til kennara við Sumarskólann í FB sumarið 2002 á milli Félags framhaldsskólakennara/Kennarasambands Íslands annars vegar og Fjölvals ses. hinsvegar, dags. 22. júní 2002.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
1.
Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar Fjölbrautaskólinn í Breiðholti tók hinar kærðu ákvarðanir voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996. Voru þær því eðli máls samkvæmt byggðar á á efnisákvæðum þeirra laga.
Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram.
2.
Mál þetta varðaði upphaflega beiðni kæranda um afrit af samningi Kennarasambands Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti um laun kennara í sumarskóla FB, dags. 23. mars 2012. Með tölvupósti skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðhlolti, dags. 16. nóvember 2012, var kæranda afhentur sá samningur. Af því leiðir að í málinu er synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum ekki til að dreifa og ber því að vísa kærunni, að þessu leyti, frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Þar sem kærandi hefur ekki beint beiðnum um aðgang að gögnum að Fjölvali ses. tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki sérstaka afstöðu til þeirra röksemda er snúa að gildissviði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 gagnvart Fjölvali ses., sem hin kærða afgreiðsla var á byggð, eða skyldu þeirrar stofnunar til afhendingar gagna.
3.
Eins og áður segir jók kærandi við beiðni sína um gögn til kærða, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, með tölvupósti, dags. 19. nóvember 2012, en afrit þess tölvupósts barst nefndinni samhliða kærða. Líta verður svo á að með þessari beiðni hafi kærandi óskað aðgangs að samningum sem í gildi voru á árunum 2010 og 2011 milli skólans og Kennarasambands Íslands. Þá var óskað eftir starfssamningi/ráðningarsamningum við kennara.
Með tölvupósti kæranda, dags. 30. nóvember, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefði ekki svarað beiðni kæranda um gögn, dags. 19. nóvember. Leit nefndin svo á að í því erindi fælist kæra á hendur Fjölbrautaskólanum vegna afgreiðslu á fyrirliggjandi beiðni um aðgang að gögnum, sbr. þágildandi 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. einnig 11. gr. sömu laga og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afstaða kærða, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, til þessa þáttar kærumálsins kom fram í bréfi, dags. 6. desember 2012. Þar og í síðari skýringum stjórnvaldsins undir meðferð málsins hefur komið fram að ekki liggi fyrir hjá skólanum kjarasamningar við kennara Sumarskólans vegna áranna 2010 og 2011. Þá hafi engir skriflegir samningar hafi verið gerðir við kennara Sumarskólans árin 2010 og 2011, einungis munnlegir, og sé það í samræmi við fyrirkomulag sem viðhaft hafi verið vegna skólans um langt árabil.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til þess að draga í efa réttmæti þessarar staðhæfingar en jafnframt hefur komið fram í athugasemdum kæranda að ekki sé ástæða til að rengja þá fullyrðingu að ekki hafi verið gerðir sérstakir kjarasamningar við kennara Sumarskólans árin 2010 og 2011. Þá hefur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að draga í efa að aðeins hafi verið gerðir munnlegir samningar við kennara sumarskólans árin 2010 og 2011.
Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 10. gr. sömu laga, tók réttur til aðgangs að gögnum til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls eða tiltekinna mála. Stjórnvöldum var á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli beiðni um aðgang að gögnum, nema að því leyti sem leiddi af ákvæði 7. gr. laganna. Af þeirri ástæðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvaldsins á að veita aðgang að umbeðnum gögnum. Ber því að vísa þessum þætti málsins frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
4.
Í svörum Fjölbrautaskólans í Breiðholti hefur komið fram að byggt hafi verið á eldri samningi sem Fjölval ses. hafi gert við Félag framhaldsskólakennara/Kennarasamband Íslands, dags. 22. júní 2002. Fjölbrautaskólinn telji hins vegar ekki unnt að fallast á að eðlilegt sé að afhenda þann samning og er vísað til þess sem fram komi í svari skólans þann 6. desember 2012 að rekstur Sumarskólans hafi verið í höndum sjálfseignarstofnunarinnar Fjölvals þar til á árinu 2012. Af svari Fjölbrautaskólans í Breiðholti við beiðni kæranda verður ekki annað ráðið en að Fjölbrautaskólinn telji að umræddur samningur falli undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum og þá hefur komið fram að samningurinn er fyrirliggjandi hjá skólanum.
Eins og áður segir nær réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996 til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls eða tiltekinna mála, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Ljóst er að samningur sá sem Fjölbrautaskólinn telur falla undir beiðni kæranda er fyrirliggjandi hjá skólanum og ber því að taka afstöðu til aðgangs kæranda að honum á grundvelli upplýsingalaga. Af hálfu Fjölbrautaskólans hefur því verið haldið fram að samningurinn skuli ekki gerður aðgengilegur kæranda þar sem sjálfseignarstofnunin Fjölval sé aðili að honum og falli sem slíkur ekki undir ákvæði upplýsingalaga. Eins og áður segir beindi kærandi ekki beiðni um gögn að því félagi. Þarf því ekki að taka afstöðu til þess álitamáls hvort Fjölval ses. falli undir ákvæði upplýsingalaga.
Af hálfu Fjölbrautaskólans hefur ekki verið byggt á öðrum ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 er komið geti í veg fyrir aðgang kæranda að samningi þessum og þá hefur ekki verið byggt á því að samningurinn tengist ekki tilteknu máli hjá skólanum.
Í samningnum koma m.a. fram heildarlaun vegna kennslu fyrir tveggja og þriggja eininga áfanga og lífeyrisframlag. Um önnur kjör og réttindi er vísað til kjarasamnings Kennarasambands Íslands fyrir framhaldsskóla.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið efni umrædds samkomulags. Að mati nefndarinnar er ekki að finna neinar þær upplýsingar er fallið geta undir takmarkanir 4.-6. gr. upplýsingalaga en jafnframt verður ekki framhjá því litið að samkomulagið er undirritað fyrir rúmum 10 árum. Hvorki hagsmunir kærða, þ.e. Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Fjölvals ses. eða þeirra kennara sem starfað hafa við umræddan sumarskóla af því að efni samkomulagsins fari leynt geta því eins og atvikum er háttað í máli þessu ekki vegið þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi að skjalinu og ber Fjölbrautaskólanum í Breiðholti því að afhenda kæranda skjalið eins og nánar er mælt fyrir um í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð
Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru [A], f.h. [B], dags. 29. október 2012, á hendur Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um aðgang að samningi Kennarasambands Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti um laun kennara í sumarskóla FB, dags. 23. mars 2012, samningum sem í gildi voru á árunum 2010 og 2011 milli skólans og Kennarasambands Íslands og starfssamningum/ráðningarsamningum við kennara Sumarskóla FB.
Fjölbrautaskólanum í Breiðholti ber að afhenda kæranda, [A], f.h. [B], samkomulag um launagreiðslur til kennara við Sumarskólann í FB sumarið 2002 á milli Félags framhaldsskólakennara/Kennarasambands Íslands annars vegar og Fjölvals ses. hinsvegar, dags. 22. júní 2002.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson