Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 176/2011

Miðvikudaginn 23. maí 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 176/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Garðabæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 25. ágúst 2011 um fjárhagsaðstoð í maímánuði 2011.

Kærandi krefst þess að ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar verði endurskoðuð og henni breytt.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 10. maí 2011 og var umsóknin vegna maímánaðar ársins 2011. Á fundi fjölskyldusviðs Garðabæjar, 31. maí 2011, var beiðni kæranda um fjárhagsaðstoð synjað, þar sem tekjur kæranda voru yfir viðmiðunarmörkum reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ, sem samþykktar voru í bæjarstjórn Garðabæjar 18. janúar 2007. Kærandi skaut synjuninni til fjölskylduráðs með, bréfi dags. 23. júní 2011. Erindinu var synjað á fundi fjölskylduráðs 25. ágúst 2011 vegna tekjustöðu kæranda og eiginmanns hennar, þ.e. kærendur höfðu tekjur yfir viðmiðunarmörkum reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð.

Í fjölskyldu kæranda er auk hennar eiginmaður og tvö börn. Hún var námsmaður frá árinu 2010 í Háskólanum í Reykjavík og fékk lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Sumarið 2011 fékk kærandi ekki gæslu fyrir yngra barn sitt og gat því ekki unnið á þeim tíma og var tekjulaus. Samkvæmt skattframtali kæranda og eiginmanns hennar voru skuldir þeirra vegna íbúðarhúsnæðis í árslok 2010 að fjárhæð 22.893.297 kr. Aðrar skuldir námu á sama tíma 9.698.082 kr.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveðst hafa byrjað í meistaranámi í reikningshaldi og endurskoðun við Háskólann í Reykjavík haustið 2010 og þá fengið námslán. Þegar skóla lauk vorið 2011 hafi hún ekki haft vistun fyrir yngra barn sitt og hafi hún því ekki haft möguleika á því að leita sér að vinnu og ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta. Hún hafi því verið tekjulaus yfir sumarið og hafi það sett stórt strik í heimilisbókhaldið. Eina úrlausn hennar hafi verið að leita til Félagsþjónustu Garðabæjar sem hún hafi gert. Þó svo hún hafi aftur fengið námslán þá hafi þau ekki dugað til þess að greiða reikninga hvers mánaðar hvað þá að greiða upp þá reikninga sem hún hafi ekki getað greitt sumarið 2011.

Kærandi kveðst hafa fengið tvær neitanir á þeim grundvelli að tekjur þeirra hjóna væru yfir viðmiðunarmörkum en samkvæmt viðtali við fulltrúa Félagsþjónustunnar í Garðabæ séu viðmiðunartekjur tæplega 250.000 kr. Útborgaðar tekjur eiginmanns hennar þá þrjá mánuði sem þau hafi þurft á aðstoð að halda hafi verið um 260.000 kr. á mánuði og þegar þau hafi verið búin að greiða af húsnæðinu, leikskólagjöld, síma, afborganir af bíl, tryggingar og fleira, hafi ekkert verið eftir til að kaupa mat og bleiur eða aðrar nauðþurftir.

 

III. Málsástæður kærða.

Í greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 29. nóvember 2011, kemur fram að til skýringar sé hjálagt blað í ljósriti með útreikningum á tekjum kæranda og eiginmanns hennar. Tekið er fram að „kvarði x 4“ þýði þá fjárhæð sem fjögurra manna fjölskylda sé reiknuð til framfærslu á mánuði samkvæmt reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Útreikningurinn sýni að í maímánuði 2011 hafi hjónin verið yfir kvarða 285.072 kr. og í júní sama ár hafi tekjur þeirra verið 105.072 kr. yfir framangreindum kvarða. Erindi þeirra hafi því verið synjað og hafi þau fengið sent bréf þar að lútandi og þeim bent á málskotsleiðina til fjölskylduráðs.

Fram kemur að meginrök fyrir synjuninni séu að kærandi og eiginmaður hennar hafi haft tekjur yfir viðmiðunarmörkum reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Í bréfi kæranda til fjölskylduráðs komi fram að fjölskylda hennar gæti ekki lifað af tekjum heimilisins vegna skuldastöðu. Í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð, 3. mgr. 1. gr., komi fram að fjárhagsaðstoð til einstaklinga sé eingöngu veitt til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda.

Í lok greinargerðarinnar er tekið fram að ráðgjafi hafi rætt við kæranda um ráðgjöf og úrræði vegna skulda. Hafi kærandi tjáð ráðgjafa að banki hjónanna væri með öll þeirra mál til skoðunar og að þau hefðu ekki greitt af lánum í marga mánuði. Hafi ráðgjafi rætt um 110% leiðina og umboðsmann skuldara og hafi kærandi þekkt til þeirra úrræða.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Garðabæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir maímánuð 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og félagsþjónustu enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Garðabær hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, frá 18. janúar 2007. Í 2. gr. reglnanna er að finna almenna tilvísun til fyrrgreindrar 19. gr. laga nr. 40/1991. Í 5. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar möguleika á annarri aðstoð en fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð skuli einungis beitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, svo og í tengslum við úrræði annarra stofnana samfélagsins. Kærendur eiga við skuldavanda að glíma og fram kemur í bréfi fjölskyldusviðs Garðabæjar, dags. 29. nóvember 2011, að ráðgjafi ræddi við kæranda um ráðgjöf og önnur úrræði vegna skulda þeirra.

Þá hafa verið settar almennar reglur um fjárhagsaðstoð, þar sem meðal annars eru settir svokallaðir viðmiðunarkvarðar sem gilda um veitta fjárhagsaðstoð og skilyrði hennar. Eru slíkar reglur settar með heimild í lögum nr. 40/1991. Í 3. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ kemur þannig fram að fjárhagsaðstoð sé eingöngu ætluð til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda, auk þess sem samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kæranda og eiginmanns hennar í maí 2011 alls 285.072 kr. yfir viðmiðunarkvarða Garðabæjar. Í júní 2011 voru tekjur þeirra 105.072 kr. yfir kvarða. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar frá 25. ágúst 2011, í máli A, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta