Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 198/2011

Miðvikudaginn 23. maí 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 198/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 25. október 2011 um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2011.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júní og júlí 2011 með umsókn dagsettri 8. júní 2011. Umsóknin var samþykkt fyrir júnímánuð en kærandi fékk ekki greidda fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2011. Hún sótti um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst og september 2011 í byrjun september sama ár. Hún fékk greidda fjárhagsaðstoð fyrir septembermánuð 2011 en ekki aftur í tímann fyrir ágústmánuð 2011. Kærandi kærði til velferðarráðs að henni skyldi ekki hafa verið greidd fjárhagsaðstoð fyrir 1. júlí til 31. ágúst 2011. Velferðarráð staðfesti fyrri ákvarðanir þar að lútandi.

Kærandi er einstæð móðir tveggja barna. Hún hefur glímt við átröskun og fór í meðferð við sjúkdómnum 14 ára gömul. Hún átti við fæðingarþunglyndi að stríða eftir fæðinu eldra barns síns og hún hefur verið greind með lesblindu. Hún lagði stund á nám í B og lauk þar þriggja ára námi. Henni gekk vel í námi en hætti vegna veikinda sonar síns. Samband kæranda við barnsfeður sína er ekki gott en hún fær góðan stuðning frá stórfjölskyldu sinni. Kærandi lauk við C-meðferð 2008 og í júní 2011 lauk hún D endurhæfingu.

Meðal gagna málsins er vottorð E yfirlæknis, dags. 9. nóvember 2011. Þar kemur fram að kærandi eigi við kvíða og þunglyndi að stríða og hafi verið svo lengi. Hún hafi ekki haft orku til að leita sér aðstoðar en öll orka hennar fari í að hugsa um börnin tvö. Hún hafi mætt mótlæti hjá félagsþjónustunni sem hafi frekar aukið á vanlíðan hennar en hitt og kemur fram í vottorðinu að hún hafi ekki fengið neinar bætur fyrir júlí- og ágústmánuði 2011. Fram kemur að læknirinn sé að vinna í umsókn um örorkubætur fyrir hana. Hún verði að fá aðstoð félagsþjónustunnar áfram þar til hún fái örorkubætur.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi bendir á að hún hafi verið veik í júlí og ágúst 2011 og hafi á þeim tíma verið í lægð og gengið í gegnum erfitt tímabil. Hún hafi því ekki treyst sér til þess að hafa samband við félagsráðgjafa sinn. Hún hafi látið senda bréf um stöðu sína frá D endurhæfingu sem hafi borist félagsráðgjafa hennar í byrjun júlí. Heimilislæknir hennar sé að vinna í málum hennar og fylgdi kæru hennar læknisvottorð frá honum. Samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar eigi hún rétt á fjárhagsaðstoð, ef hún fái ekki greiðslur úr öðrum kerfum og henni finnist skjóta skökku við ef það eigi að mismuna henni vegna veikinda.

Kærandi óskar skjótra svara þar sem hún hafi beðið lengi eftir niðurstöðu frá þjónustumiðstöð og frá velferðarráði. Fjárhagsaðstaða hennar sé mjög slæm og hún hafi ekki getað greitt reikninga síðastliðið sumar vegna tekjuleysis.

 

III. Málsástæður kærða.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010.

Fram kemur hjá velferðarráði að kærandi í máli þessu hafi sótt um fjárhagsaðstoð í júní og júlí 2011. Í viðtali við ráðgjafa á þjónustumiðstöð hafi kærandi veitt þær upplýsingar um að verið væri að sækja um örorkulífeyri fyrir hana hjá Tryggingastofnun og aðeins ætti eftir að skila inn læknisvottorði. Með hliðsjón af framansögðu hafi kæranda verið veitt fjárhagsaðstoð fyrir júnímánuð, en kæranda hafi einnig verið gerð grein fyrir því að upplýsa þyrfti þjónustumiðstöð um það hver staða umsóknar hennar væri í júlímánuði ef koma ætti til greiðslu fjárhagsaðstoðar í júlí. Í 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að fjárhagsaðstoð sé að öðru jöfnu greidd einn mánuð í senn og skuli ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Telja verði ljóst að kærandi hefði getað notið fjárhagsaðstoðar fyrir júlímánuð ef hún hefði upplýst þjónustumiðstöð um stöðu umsóknar sinnar hjá Tryggingastofnun og ef ljóst væri að stofnunin hefði ekki hafið greiðslu örorkulífeyris.

Það hafi verið metið nauðsynlegt að hafa upplýsingar um stöðu umsóknar hjá Tryggingastofnun til þess að ljóst væri hvort kærandi nyti greiðslna hjá Tryggingastofnun áður en greiðsla fjárhagsaðstoðar færi fram, en í 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík komi fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Engar upplýsingar hafi legið fyrir í þjónustumiðstöð í júlí 2011 um stöðu umsóknar kæranda um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun.

Þá byggir Reykjavíkurborg á að fram komi í 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að umsókn um fjárhagsaðstoð skuli fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn sé lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, innlendum og erlendum lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bönkum, sparisjóðum, lánastofnunum eða öðrum aðilum, barnabætur, mæðra- og feðralaun. Með hliðsjón af framansögðu hafi kæranda borið að upplýsa þjónustumiðstöð um stöðu umsóknar sinnar hjá Tryggingastofnun og þar með upplýsa þjónustumiðstöðu um hvort greiðslur væru væntanlegar frá Tryggingastofnun. Verði að telja að sú krafa að fara fram á að kærandi upplýsti þjónustumiðstöð um stöðu sinna mála sé í samræmi við 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem fram komi að við framkvæmd félagsþjónustunnar skuli þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Ekki sé unnt að líta svo á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga, 12. gr. laga nr. 37/1993, víki til hliðar skyldu kæranda til að axla ábyrgð á málefnum sínum, sérstaklega með hliðsjón af því að leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga hafi verið gætt og kæranda leiðbeint um hvers væri krafist til þess að til fjárhagsaðstoðar gæti komið.

Hvað varði umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir ágústmánuð 2011 þá komi fram í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn hafi verið lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá komi fram í greininni að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð er veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um hana.

Fram kemur að kærandi hafi lagt inn umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir ágústmánuð 2011 um miðjan september 2011. Kærandi hafi áður leitað til þjónustumiðstöðvar eftir fjárhagsaðstoð og hafi því mátt vera ljóst hvert henni bæri að leita til þess að sækja um fjárhagsaðstoð. Opinber félagsþjónusta megi ekki verða til þess að deyfa tilfinninguna fyrir ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og öðrum, sbr. frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það hafi verið mat velferðarráðs að ekki væru rökstuddar ástæður til að veita fjárhagsaðstoð aftur í tímann og að mati velferðarráðs hafi ekki verið réttmætt með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að veita undanþágu frá framangreindum ákvæðum með því að samþykkja greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. ágúst 2011.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir júlímánuð 2011, en hún veitti ekki fullnægjandi upplýsingar í tengslum við umsókn sína eins fram hefur komið. Enn fremur er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir ágúst 2011 en kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2011 í byrjun september 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram sú meginregla að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Reykjavíkurborg hefur sett sér sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júní og júlí 2011. Hún veitti ráðgjafa á þjónustumiðstöð þær upplýsingar, í júní 2011, að verið væri að sækja um örorkulífeyri fyrir hana hjá Tryggingastofnun ríkisins og aðeins ætti eftir að skila inn vottorði. Henni var gerð grein fyrir því á sama tíma að upplýsa þyrfti þjónustumiðstöð um það hver staða umsóknar hennar væri í júlímánuði ef koma ætti til fjárhagsaðstoðar í þeim mánuði. Kærandi fékk greidda fjárhagsaðstoð fyrir júní 2011, en engar frekari upplýsingar bárust frá henni fyrr en í byrjun september sama ár. Þjónustumiðstöð var því ekki kunnugt um það hvort kærandi nyti greiðslna frá Tryggingastofnun í júlímánuði 2011.

Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík skal jafnan kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, auk þess að kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Kærandi veitti þjónustumiðstöð engar upplýsingar í júlí 2011 um stöðu umsóknar hennar um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun. Hins vegar er til þess að líta að kærandi lagði fram umsókn um bætur fyrir júní- og júlímánuði ársins 2011, auk þess sem hún fékk greiddan styrk vegna júnímánaðar það ár. Þá kemur fram í kærunni að kærandi hafi látið senda bréf um stöðu sína frá D endurhæfingarstöð og talið það uppfylla upplýsingaþörf Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en á því byggt að skv. 1. gr. laga nr. 40/1991 skuli þess gætt að hvetja einstakling til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum og því sé ekki unnt að líta svo á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga víki til hliðar skyldu kæranda til að axla ábyrgð á málefnum sínum, einkum þar sem leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga hafi verið gætt og kæranda leiðbeint um hvers væri krafist til þess að til fjárhagsaðstoðar gæti komið. Á þessi sjónarmið er almennt fallist af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu háttar þó þannig til að kærandi taldi sig hafa upplýst Velferðarsvið Reykjavíkurborgar um stöðu sína með fyrrgreindu vottorði, sem sent var eftir að kærandi hafði þegar fengið styrk í einn mánuð. Auk þess er tekið fram í erindi kærða að telja verði ljóst að kærandi hefði getað notið fjárhagsaðstoðar fyrir júlímánuð ef viðeigandi upplýsingar hefðu borist. Í því ljósi og þar sem kærandi hafði í góðri trú sent rangar upplýsingar til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar án þess að upplýst sé að henni hafi verið leiðbeint um að rangar upplýsingar hafi verið sendar, er hin kærða ákvörðun um að hafna greiðslu bóta í júlí 2011 felld úr gildi.

Hvað varðar umsókn kæranda um styrk í ágústmánuði 2011, kemur fram í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn var lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð er veitt aftur í tímann og verður skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um hana. Af gögnum málsins má ráða að sú ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar að synja kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir ágústmánuð 2011 er byggð á fyrrgreindri reglu sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Í ljósi þess að kærandi hafði áður verið í sambandi við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og sannanlega sótt um greiðslur fyrir júní- og júlímánuði 2011, er fallist á það með Velferðarsviði Reykjavíkurborgar að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við umrædda reglu. Er því fallist á hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn. 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2011, í máli A, um synjun á greiðslu styrks í júlí 2011 er felld úr gildi. Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2011, í máli A, um synjun á greiðslu styrks í ágúst 2011 er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta