Hoppa yfir valmynd
5. desember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Örnám í háskólum eykur sveigjanleika og fjölbreytni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrirhugaðar breytingar á lögum um háskóla fyrir ríkisstjórn. Breytingarfrumvarpið snýr annars vegar að örnámi (e. micro-credentials), sem ekki hefur verið sérstaklega tekið fyrir í lögum um háskóla fram að þessu, og hins vegar að prófgráðum úr diplóma- og viðbótarnámi. 

Fjölbreytt fólk á vinnumarkaði fái aukin tækifæri til náms

Um 70% þeirra sem útskrifast úr háskólum landsins eru konur og er lágt hlutfall karla sem skrá sig í háskólanám og útskrifast áhyggjuefni. Ein leið til að ná til fjölbreyttari hóps og m.a. auka hlut karla í háskólanámi er að ná til þeirra sem eru þegar komin á vinnumarkað og skapa tækifæri fyrir þau til að stunda nám er er stutt, sveigjanlegt og byggt upp á einingum, samhliða vinnu. Með því að veita háskólum tæki til að hreyfa við námsframboði og auka sveigjanleika standa vonir til þess að fjölbreyttur hópur nemenda skrái sig til náms. Þannig geti háskólarnir mætt samfélagslegu hlutverki sínu enn betur, t.a.m. gagnvart fólki af erlendum uppruna og fólki með fötlun eða aðrar sérþarfir.

Viðmið um prófgráður aðlöguð evrópskum stöðlum

Framboð á styttra námi á háskólastigi er mikilvægur þáttur í að styðja við of efla starfstengt nám ásamt því að auka sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi. Í dag bjóða íslenskir háskólar upp á stuttar námsbrautir sem leiða til 30 eininga diplóma- eða viðbótargráða á meistarastigi. Þróunin innan samevrópska háskólasvæðisins (EHEA) hefur aftur á móti verið sú að diplóma- og viðbótargráður af þessum toga jafngilda almennt 60-90 einingum. Því til viðbótar er svo boðið upp á styttra nám, þ.e. örnám. 

Í frumvarpi um breytingar á lögum um háskóla er að finna áform um að yfirlit yfir viðurkenndar prófgráður og lokapróf, nú í 7. gr. laganna, verði fært alfarið í viðmið um æðri menntun og prófgráður sem ráðherra gefur út skv. heimild í lögunum. Frumvarpið er einnig liður í uppfærslu á gildandi viðmiðum um æðri menntun og prófgráðum og felast helstu breytingar í því að lágmark ECTS-eininga til diplómaprófs og viðbótarprófs á meistarastigi hækkar úr 30 einingum í 60 einingar. Þá verður örnám til ECTS-eininga kynnt og skilgreint sem hluti af grunn-, meistara- eða doktorsnámi. Loks er opnað á möguleika á veitingu svokallaðs M. Phil prófs á doktorsstigi. Háskólunum er veitt svigrúm til aðlögunar til upphafs skólaársins 2025-2026 í samræmi við óskir skólanna. 

Aukið framboð örnáms í samræmi við þarfir atvinnulífsins

Í breytingarfrumvarpi er heimild háskóla til að bjóða upp á örnám til námseininga lögfest, en örnám hefur hingað til ekki verið sérstaklega tiltekið í lögum um háskóla. Örnám felur í sér staðlaðar námseiningar og lýtur öllum gæðakröfum sem gerðar eru til náms á háskólastigið. Námið hefur vaxið hratt í Evrópu á liðnum árum, ekki síst vegna krafna atvinnulífs og einstaklinga um hæfniþróun og endurmenntun í formi styttri námsleiða. Nokkrir íslenskir háskólar bjóða nú þegar upp á örnám, t.d. Háskólinn á Bifröst þar sem gæðastjórnun og stafræn fatahönnun er kennd á þessu formi. Háskólar hér á landi eru almennt jákvæðir gagnvart örnámi og sjá það sem leið til að liðka fyrir tækifærum til háskólanáms fyrir fjölbreytta hópa og stutt háskólastofnanir við að bjóða upp á stutt en viðurkennt nám til sí- og endurmenntunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta