Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2010

Fimmtudaginn 27. janúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. desember 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. desember 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfum, dags. 7. og 24. september 2010, um að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Með bréfi, dags. 6. desember 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 14. desember 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. desember 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um fæðingarstyrk sem námsmanni. Hún hafi verið námsmaður í fullu námi í B-fræði við E-háskóla. Hún greinir frá því að hún hafi verið skráð í 30 ECTS einingar á haustönn 2009, þar af hafi hún staðist 8 ECTS einingar en fallið í 22. Kærandi kveðst hafa farið í upptökupróf og staðist þau bæði, alls 16 ECTS einingar. Samtals hafi hún því lokið 24 ECTS einingum á haustönn.

Þá greinir kærandi frá því að hún hafi verið skráð í 30 ECTS einingar á vorönn 2010, þar af hafi hún staðist 8 ECTS einingar en fallið í 14. Kærandi kveðst jafnframt hafa skilað vottorði vegna 8 ECTS eininga. Kærandi greinir frá því að hún hafi skráð sig í þrjú upptökupróf, alls 20 ECTS einingar. Kærandi kveðst þar af hafa staðist 6 ECTS einingar og skilað vottorði vegna 8 ECTS eininga. Þá hafi hún skráð sig úr 6 ECTS einingum. Samtals hafi hún lokið 14 ECTS einingum á vorönn.

Kærandi greinir jafnframt frá því að hún hafi átt erfitt með að stunda nám frá 4. til 16. viku meðgöngu sökum hamlandi ógleði og uppkasta. Nánar tiltekið hafi hún ekki getað stundað nám frá 1. janúar til 31. mars 2010 vegna ógleði, uppkasta og mikils slappleika. Kærandi telur að þetta hafi haft áhrif á námsgetu hennar á vorönn 2010, þar sem hún hafi verið veik frá janúar til apríl og lokaprófin hafi verið í maí.

Kærandi vill geta þess að áður en hún varð ófrísk, haustið 2009, hafi hún fengið slæma flensu og lungnabólgu í kjölfarið. Þau veikindi hafi staðið yfir í mánuð og hamlað námsgetu hennar þá önn.

Kærandi upplýsir að í E-háskóla sé ekki mætingarskylda og því hafi hún ekki getað skilað inn upplýsingum um mætingu fyrir þann tíma sem hún hafi verið veikust. Hins vegar sé staðfest af E-háskóla að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í 13. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, þar sem fram kemur meðal annars að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skuli leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Kærandi kveðst hafa skilað vottorði frá sérfræðilækni um veikindi sín og staðfestingu frá skóla um fullt nám.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 30. júlí 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 15. september 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð frá E-háskóla, dags. 22. júlí og 9. september 2010, ásamt tölvupósti frá þjónustuborði E-háskóla, dags. 23. september 2010, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 24. júní 2010, læknisvottorð, dags. 26. júlí og 16. ágúst 2010, bréf frá BYR, dags. 16. ágúst 2010 og bréf frá S4S ehf., dags. 16. ágúst 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kæranda hafi með bréfi, dags. 7. september 2010, verið synjað um undanþágu frá skilyrðinu um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms skv. 13. mgr. 19. gr. ffl. þar sem ekki hafi verið séð að móðir hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Þá vísar Fæðingarorlofssjóður til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. september 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. september 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að samkvæmt vottorði frá E-háskóla, dags. 9. september 2010, og tölvupósti frá þjónustuborði E-háskóla, dags. 23. september 2010, hafi kærandi verið skráð stúdent við skólann háskólaárið 2009–2010. Á haustmisseri 2009 hafi kærandi verið skráð í 30 ECTS einingar, staðist 8 ECTS einingar en fallið í 22 ECTS einingum. Hún hafi farið í tvö upptökupróf og staðist þau bæði alls 16 ECTS einingar. Samtals hafi kærandi því lokið 24 ECTS einingum á haustmisseri 2009. Á vormisseri 2010 hafi kærandi verið skráð í 30 ECTS einingar, staðist 8 ECTS einingar, fallið í 14 ECTS einingum og skilaði vottorði vegna 8 ECTS eininga. Kærandi hafi skráð sig í þrjú upptökupróf alls 20 ECTS einingar, staðist 6 ECTS einingar, skilaði vottorði vegna 8 ECTS eininga og sagt sig úr 6 ECTS einingum. Samtals hafi kærandi því lokið 14 ECTS einingum á vormisseri 2010.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis lokið 14 ECTS einingum á vormisseri 2010.

Í ffl. sé að finna sérstakt heimildarákvæði fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Fæðingarorlofssjóður bendir á að í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Jafnframt bendir Fæðingarorlofssjóður á að í læknisvottorði, dags. 26. júlí 2010, séu sjúkdómsgreiningar skráðar sem virosis, lungnabólga og uppköst á meðgöngu. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu segi að kærandi hafi fengið svínaflensu líklegast í október og hafi verið mikið frá. Þá komi fram að eftir áramót hafi kærandi verið frá vegna slæmrar meðgönguógleði. Um niðurstöðu skoðunar og sjúkrasögu og áhrif á námsárangur og/eða ástundun náms segi að kærandi hafi ekki getað stundað nám vegna flensu í kjölfar lungnabólgu. Síðar hamlandi ógleði í tengslum við meðgöngu. Fram komu í vottorðinu að sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart í október 2009 og eftir áramót janúar og febrúar.

Þá bendir Fæðingarorlofssjóður á að í læknisvottorði, dags. 16. ágúst 2010, sé sjúkdómsgreining skráð sem ógleði og uppköst á meðgöngu. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu segi orðrétt: „Hamlandi ógleði og uppköst frá 4. – 16. viku meðgöngu. Frá 01.01.2010 – 31.03.2010. Átti erfitt með að stunda nám af þessum sökum þennan tíma. Þess má einnig geta að haustið 2009 áður en varð ófrísk fékk hún slæma flensu og lungnabólgu í kjölfarið og stóðu þau veikindi yfir í 1 mánuð og það hamlaði einnig hennar námsgetu á þeirri önn.“ Í niðurstöðu skoðunar segi að reglulegt mæðraeftirlit staðfesti þessi veikindi.

Enn fremur greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að í símtali við lækni kæranda þann 3. september 2010 hafi komið fram að ekki væri hægt að staðfesta nein veikindi hjá kæranda eftir 31. mars 2010.

Loks greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að í tölvupósti frá þjónustuborði E-háskóla, dags. 23. september 2010, komi fram að í E-háskóla sé mæting frjáls þannig að ekki sé unnt að staðfesta hvort ástundun kæranda hafi verið með þeim hætti tímabilið 1. janúar–31. mars 2010 að það kunni að hafa haft áhrif á námsárangur á vormisseri 2010. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu E-háskóla sé prófatímabil vormisseris 25. apríl–10. maí.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að ekki verði annað séð en kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Ekki verði heldur séð að heilsufarsástæður kæranda á meðgöngu skv. 13. mgr. 19. gr. ffl., tímabilið 1. janúar–31. mars 2010, hafi verið þess eðlis eða með þeim hætti að hún hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu og þannig ekki uppfyllt skilyrði um fullnægjandi námsárangur og/eða ástundun.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfum, dags. 7. og 24. september 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda hinn Y. september 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. september 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt yfirliti frá E-háskóla, dags. 9. september 2010, var kærandi skráð í 30 ECTS eininga nám á haustönn 2009 og vorönn 2010. Í yfirlitinu kemur fram að kærandi lauk 24 ECTS einingum á haustönn 2009, en samtals lauk hún 14 ECTS einingum á vorönn 2010.

Fullt nám við E-háskóla er 30 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þar sem kærandi lauk ekki fullu námi á vorönn 2010 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni. Samkvæmt ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar að hún hafi ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna, ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Kærandi hefur lagt fram tvö læknisvottorð. Í vottorði C, dags. 26. júlí 2010, kemur fram að kærandi hafi fengið svínaflensu líklegast í október og verið frá í mánuð. Eftir áramót hafi hún verið frá vegna slæmrar meðgönguógleði. Um niðurstöðu skoðunar og sjúkrasögu og áhrif á námsárangur og/eða ástundun náms kemur fram að hún hafi ekki getað stundað nám vegna flensu í kjölfar lungnabólgu og síðan hamlandi ógleði í tengslum við meðgöngu. Þá kemur fram að sjúklingur hafi verið skoðaður í október 2009, bæði á slysadeild og heilsugæslu og eftir áramót hjá meðgöngueftirliti á D-heilsugæslunni. Sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart í október 2009 og eftir áramót í janúar og febrúar.

Í vottorði E heimilislæknis, dags. 16. ágúst 2010, kemur fram að sjúkdómur móður sé ógleði og uppköst á meðgöngu. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu kemur fram að um sé að ræða hamlandi ógleði og uppköst frá 4. til 16. viku meðgöngu, þ.e. 1. janúar–31. mars 2010. Kærandi hafi átt erfitt með að stunda nám af þessum sökum þennan tíma. Enn fremur kemur fram að haustið 2009 áður en kærandi varð ófrísk hafi hún fengið slæma flensu og lungnabólgu í kjölfarið og þau veikindi hafi staðið yfir í einn mánuð og það hafi hamlað námsgetu hennar þá önn. Í reit um niðurstöðu skoðunar og sjúkrasögu og áhrif á námsárangur og/eða ástundun segir að reglulegt mæðraeftirlit staðfesti þessi veikindi.

Samkvæmt því sem að framan greinir gerir undanþáguregla 13. mgr. 19. gr. ffl. þá kröfu að staðfest sé með læknisvottorðum að kærandi hafi verið haldin sjúkdómi vegna meðgöngu sem hafi valdið óvinnufærni og hún því ekki getað stundað fullt nám í skilningi ffl. Í framangreindum vottorðum eru staðfest veikindi hjá kæranda frá miðjum janúar fram til loka mars 2010. Ekki eru staðfest veikindi eftir þann tíma en próftímabil hófst 25. apríl 2010. Kærandi lauk 8 ECTS einingum á vorönn 2010 auk þess sem hún stóðst 6 ECTS einingar með upptökuprófum þá um vorið. Kærandi hefur ekki, þrátt fyrir eftirgrennslan nefndarinnar, lagt fram fullnægjandi vottorð fyrir þeim fögum sem uppá vantar að mati nefndarinnar, sem staðfestir að kærandi hafi ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna sem falla undir undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. Verður því ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta