Hoppa yfir valmynd
22. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2010

Miðvikudaginn 22. desember 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. nóvember 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. nóvember 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. ágúst 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. nóvember 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. nóvember 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið í fullu námi haustið 2009. Kærandi kveðst hafa verið skráð í 30 eininga nám haustið 2009 og tekið próf í 30 einingum en einungis náð 12 einingum sökum mikils prófkvíða. Kærandi greinir frá því að í B-deild E-háskóla, þar sem hún stundi nám, séu sjúkra- og upptökupróf haustannar haldin í lok vorannar. Vorið 2010 hafi hún því tekið aftur próf í 12 einingum. Hún hafi náð öðru prófinu, þ.e. 6 einingum, en ekki getað lokið hinu prófinu, sem séu 6 einingar, vegna veikinda á meðgöngu. Kærandi kveðst hafa skilað læknisvottorði til skólans og það hafi verið samþykkt. Hún hafi einnig sent umrætt vottorð til Fæðingarorlofssjóðs. Þar hafi vottorðið ekki verið tekið gilt og hún hafi þurft að senda vottorð vegna námsárangurs og/eða ástundunar náms. Eftir að henni hafi verið synjað aftur hjá Fæðingarorlofssjóði hafi hún haft samband við sjóðinn og hafi henni þá verið sagt að vottorðið myndi ekki duga yfir áramót, þ.e. vottorðið dugi ekki því hún hafi setið áfangann haustið 2009 en verið veik í prófinu vorið 2010.

Þá greinir kærandi frá því að í síðasta bréfi sem henni hafi borist frá Fæðingarorlofssjóði komi fram að gögnin sem hún hafi lagt fram beri ekki með sér staðfestingu á því að hún uppfylli framangreind skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna þar sem veikindi loki ekki á sjúkrapróf. Kærandi bendir á að hún hafi verið veik í sjúkraprófinu og það séu ekki haldin tvö sjúkrapróf. Þennan áfanga sem hafi verið veik í, sem heiti T, geti hún næst tekið haustið 2011. Hún hafi setið allan áfangann haustið 2009 og gert öll verkefni og fengið einkunn fyrir þau.

Hún hafi fallið í áfanganum X haustið 2009 en náð honum um vorið 2010.

Kærandi vísar til þess að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) standi að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk enda þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námárangur og/eða ástundun ef hún hefur ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Kærandi kveðst hafa stundað nám sitt þrátt fyrir mikla verki. Þennan dag sem sjúkraprófið var haldið þá hafi hún rétt komist fram úr rúminu en varla getað gengið vegna verkja.

Kærandi bendir á að sér hafi verið sagt í símtali við Fæðingarorlofssjóð að vottorðið gilti ekki milli ára. Þá bendir kærandi á að sjúkrapróf í E-háskóla á haustönn hafi aldrei verið haldin í desember. Þau hafi verið haldin í janúar allt þar til skólaárið 2009–2010 en þá hafi þau verið haldin í lok vorannar. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 30. ágúst 2010 beri þess merki að gögnin sem hún hafi lagt fram hafi ekki verið skoðuð. Henni hafi verið synjað á þeim grundvelli að hún hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði um að hafa verið skráð í fullt nám 2009 sem hún hafi verið og sjáist af gögnum málsins.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 29. júní 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 10. september 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 25. júní 2010, og yfirlit frá E-háskóla, dags. 29. júní 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að 5. ágúst 2010 hafi kæranda verið sent bréf þar sem henni hafi verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna þar sem hún uppfyllti ekki almenna skilyrðið um fullt nám. Þann 11. ágúst 2010 hafi borist bréf frá kæranda, dags. 10. ágúst 2010, ásamt læknisvottorði vegna fjarvista úr skóla og afriti af tölvupósti milli kæranda og deildarstjóra B-deildar E-háskóla frá 31. maí 2010. Kæranda hafi verið sent nýtt bréf þann 13. ágúst 2010 þar sem henni hafi verið bent á að á haustönn 2009 hafi hún einungis verið skráð í 12 ECTS einingar samkvæmt yfirliti frá E-háskóla, dags. 29. júní 2010, og að rétt læknisvottorð yrði að berast svo unnt yrði að leggja mat á veikindi hennar. Í framhaldinu hafi borist læknisvottorð, dags. 16. ágúst 2010 og nýtt yfirlit frá E-háskóla, dags. 16. ágúst 2010.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. ágúst 2010, hafi kæranda verið bent á að umsókn hennar hafi verið synjað þann 5. ágúst sl. þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2009 og að framlögð gögn sem borist hafi beri ekki með sér staðfestingu á að hún uppfylli framangreint skilyrði. Framlögð gögn myndu því ekki breyta fyrri ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. september 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins og sýnt viðunandi námsárangur, að horfa til tímabilsins frá Y. september 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá E-háskóla, dags. 16. ágúst 2010, komi fram að kærandi var skráð í 30 ECTS einingar á haustönn 2009. Hún hafi lokið 12 ECTS einingum en fallið í 18 ECTS einingum. Á vorönn 2010 hafi kærandi upphaflega verið skráð í 36 ECTS einingar. Hún hafi lokið 24 ECTS einingum og sagt sig úr 12 ECTS einingum. Kærandi hafi svo tekið upp námskeiðið X sem sé skráð á yfirlitinu þann 21. júní 2010 og sé 6 ECTS einingar og tilheyri haustönn 2009. Kærandi hafi því staðist 18 ECTS einingar á haustönn 2009 og 24 ECTS einingar á vorönn 2010. Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að kærandi hafi skilað læknisvottorði vegna upptökuprófs á faginu T sem tilheyrði haustönn 2009 og hún hafi átt að þreyta þann 19. maí 2010.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggi fyrir um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis staðist 18 ECTS einingar sem tilheyra haustönn 2009.

Í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versni á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að í kæru komi meðal annars fram að hún hafi einungis staðist 12 ECTS einingar á haustönn 2009 sökum mikils prófkvíða. Í læknisvottorði, dags. 16. ágúst 2010, komi fram að kærandi hafi verið skoðuð í apríl 2010 en sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart 15. febrúar 2010. Læknisvottorðið geti af þeirri ástæðu einungis tekið til meðgöngutengdra veikinda í skilningi 13. mgr. 19. gr. ffl. sem hafa orðið eftir 15. febrúar 2010. Þegar af þeirri ástæðu geti undanþágan ekki tekið til haustannar 2009 enda verði heldur ekki séð að heilsufarsástæður í skilningi 13. mgr. 19. gr. ffl. hafi haft áhrif á námsárangur og/eða ástundun kæranda á þeirri önn.

Loks greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að það að kærandi hafi ekki getað tekið upp prófið þann 19. maí 2010 vegna heilsufarsástæðna í skilningi 13. mgr. 19. gr. ffl. geti ekki veitt henni undanþágu frá námsárangri og/eða ástundun haustannar 2009 enda sé enga heimild að finna fyrir slíku í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 5. ágúst 2010, og að gögn sem hafi borist síðar frá kæranda hafi ekki gefið tilefni til að breyta þeirri ákvörðun. Kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og hafi verið afgreidd sem slík, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 16. september 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 5. ágúst 2010, sbr. einnig bréf dags. 30. ágúst 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda hinn Y. september 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. september 2009 fram að fæðingu barnsins.

Samkvæmt yfirliti frá E-háskóla, dags. 31. ágúst 2010, var kærandi skráð í 30 ECTS eininga nám við skólann á haustönn 2009 en af þeim lauk hún 12 ECTS einingum en féll í 18 ECTS einingum. Kærandi var síðan í fullu námi á vorönn 2010 og var auk þess skráð í tvö upptökupróf sem fara skyldu fram að vori 2010, í námskeiðum sem tilheyrðu haustönn 2009. Af gögnum málsins má ráða að kærandi náði upptökuprófi í öðru faginu, X, og lauk með því 6 ECTS einingum. Kærandi telst því hafa lokið 18 ECTS einingum á haustönn 2009. Hún lauk hins vegar ekki hinu upptökuprófinu, í faginu T, og skilaði læknisvottorði vegna þess, sbr. vottorð dags. 19. maí 2010.

Fullt nám við E-háskóla er 30 ECTS einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 ECTS einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. í tilviki kæranda er frá Y. september 2009 til Y. september 2010, sem fyrr segir. Þar sem kærandi lauk einungis 18 ECTS einingum á haustönn 2009 og því ekki fullu námi þá önn er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Kemur þá til skoðunar ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008. Í því ákvæði kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð F læknis, dags. 19. maí 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki getað sótt skólann þann dag, þegar umrætt upptökupróf var haldið. Auk þess hefur hún lagt fram læknisvottorð G, sérfræðings í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, dags. 16. ágúst 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki verið fær um að taka próf vegna meðgöngutengdra veikinda á þeim tíma sem umrætt próf var þreytt. Þá segir í vottorðinu að sjúklingur hafi verið skoðaður í apríl 2010 og staðreynt að um greindan sjúkdóm væri að ræða en sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart 15. febrúar 2010. Þá liggur fyrir að kærandi var skráð í fullt nám á haustönn 2009.

Að mati nefndarinnar er ljóst að hefði kærandi teflt fram læknisvottorði vegna veikinda þegar prófað var úr umræddu 6 eininga fagi, T, á haustönn 2009, hefði ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. um undanþágu frá skilyrði laganna um fullt nám tekið til tilviks hennar og hún þannig átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur hins vegar að skera úr um það hvort staðfest veikindi hennar að vori 2010, þegar upptökupróf úr umræddu námskeiði haustannar var á dagskrá, skili henni sama rétti. Í ákvæði tilvitnaðrar 13. mgr. 19. gr. ffl. er eingöngu mælt fyrir um það að ef móðir uppfyllir ekki skilyrði laganna um viðunandi námsárangur og/eða ástundun sé engu að síður heimilt að greiða henni fæðingarstyrk sem námsmanni ef hún hefur ekki getað stundað námið að fullu vegna heilsufarsástæðna. Þrátt fyrir að ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. verði að skýra þröngt verður að mati nefndarinnar að játa kæranda sama rétt og öðrum til þess að ná upp fullu námi á haustönn, þrátt fyrir að upptökuprófin séu á dagskrá næstu önn á eftir. Heilsufarsástæður hennar, sem að mati nefndarinnar uppfylla skilyrði 13. mgr. 19. gr. ffl., valda því síðan að hún getur ekki lokið umræddu upptökuprófi á vorönn 2010 og nær af þeim orsökum ekki fullu námi á haustönn 2009. Verður ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. því talið ná til tilviks kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er felld úr gildi.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta