Drög kynnt að heildstæðri stefnu um menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku
Starfshópur hefur skilað mennta- og menningarmálaráðherra drögum að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Markmið vinnu þeirra var að greina stöðu þess fjölbreytta hóps í menntakerfinu, setja fram tillögur til úrbóta og hugmyndir um aðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í. Auk íslenskrar stefnumótunar rýndi hópurinn alþjóðlegar stefnur, viðmið og rannsóknir. Formaður stýrihópsins var Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands.
„Þetta er stórt og mikilvægt skref í þeirri vegferð okkar að efla alla umgjörð í menntakerfinu til að bæta aðstæður nemenda með annað móðurmál en íslensku. Ég er virkilega stolt af þessari vinnu og hún er okkur hvatning til góðra verka. Sumt getum við ráðist í strax, annað verður útfært nánar í tengslum við nýja menntastefnu en brýnast er að við vinnum þetta samfélagslega mikilvæga verkefni í nánu samstarfi. Við höfum allt að vinna í að bæta þarna úr og það mun skila okkur árangri sem í raun er ómetanlegur – betri lífsgæðum fyrir íslenskt samfélag,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í stefnudrögunum er að finna sjö tillögur og fjölda aðgerða sem nú verða teknar til nánari umfjöllunar á vettvangi ráðuneytisins.
Tillögur starfshópsins eru:
1. Fjölmenningarlegt skólastarf
Fjölmenningarlegt skólastarf, sem fagnar margbreytileika, fjölbreytni í nemendahópnum og byggir á auðlindum og styrkleikum barna og ungmenna, verði aðalsmerki skólakerfisins.
2. Samfellt nám
Samfella milli leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundaheimila verði sett í öndvegi til að tryggja að byggt verði á markvissan hátt á fyrri reynslu og þekkingu barnanna frá einu skólastigi yfir á annað. Unnið verði markvisst að því að styrkja leikskólastigið, auka þátttöku barna af erlendum uppruna í starfi frístundaheimila og fjölga tækifærum nemenda af erlendum uppruna til að stunda og ljúka námi í framhaldsskólum.
3. Íslenska sem annað mál
Börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli. Sérstaklega þarf að styðja börn, sem eru fædd hér á landi eða koma ung til landsins, að þau fái strax í leikskóla málörvun í íslensku og fylgst sé með að þau taki reglulegum framförum.
4. Foreldrar og fjöltyngi
Litið verði á menningu og móðurmál barnanna sem auðlind sem kemur börnunum og samfélaginu til góða. Foreldrar eru mikilvægir samstarfsaðilar sem búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu barnanna.
5. Umsækjendur um alþjóðlega vernd
Lögð verði áhersla á að börnum og ungmennum, sem eru í leit að alþjóðlegri vernd, verði tryggð menntun og skólaganga eins fljótt og unnt er í samræmi við aldur þeirra og þroska. Miðað verði við að ekki líði lengri tími en fjórar vikur frá því að barn sækir um alþjóðlega vernd þar til það hefur fengið skólaúrræði.
6. Menntun kennara
Tryggt verði að kennsla barna og ungmenna af erlendum uppruna verði hluti af grunnmenntun allra kennara og tómstunda- og félagsmálafræðinga. Jafnframt að kennarar, skólastjórnendur og starfsfólk frístundaheimila sæki símenntun og starfsþróun um fjölmenningu og kennslu barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
7. Menntarannsóknir
Komið verði á fót markvissu átaki til að efla menntarannsóknir sem leið til að stuðla að gæðum í skólakerfinu.
Stefnudrögin má lesa hér
Starfshópinn skipuðu auk formanns:
Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands
Dagbjört Ásbjörnsdóttir frá Reykjavíkurborg
Einar Hrafn Árnason frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema
Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir frá Fræðslusviði Reykjanesbæjar
Hrafnhildur Kvaran frá félagsmálaráðuneyti (tók við af Jónu Guðnýju Eyjólfsdóttur)
Renata Emilsson Peskova frá Móðurmáli – samtökum um tvítyngi,
Sigríður Ólafsdóttir frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Þórður Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Þorbjörg Halldórsdóttir frá Menntamálastofnun (tók við af Huldu Karen Daníelsdóttur).