Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerðir um endurgreiðslur vegna þjónustu sérgreinalækna utan samnings

Velferðarráðherra hefur sett reglugerðir sem tryggja sjúklingum endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérgreinalækna sem starfa utan samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Samningur við sérgreinalækna rann út í gær. 

Annars vegar er reglugerð sem tekur til nauðsynlegrar þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem þeir veita einstaklingum sem eru sjúkratryggðir. Hins vegar er reglugerð sem kveður á um að slysatryggingar almannatrygginga greiði kostnað vegna nauðsynlegrar læknishjálpar við fólk vegna slysa, þótt hún sé veitt af sérgreinalæknum sem starfa utan samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

 Endurgreiðslur á hlut sjúklinga í kostnaði vegna þjónustu sérgreinalækna miðast við gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Meðan sérfræðilæknar hækka ekki verðskrá sína umfram gjaldskrá stofnunarinnar verður hlutfall endurgreiðslu til sjúklinga það sama og verið hefur.  

Mikilvægt að sérgreinalæknar skili áfram rafrænum reikningum

Velferðarráðuneytið leggur áherslu á að tryggja hag sjúklinga og valda þeim sem minnstum óþægindum. Ráðuneytið hvetur því sérgreinalækna til þess að senda Sjúkratryggingum reikninga sína með rafrænum hætti eins og þeir hafa gert hingað til. Sérfræðilæknum verður greitt sérstaklega fyrir rafræn skil líkt og verið hefur. Með rafrænum skilum og sömu verðskrá og áður eiga sjúklingar ekki að þurfa að verða varir við samningsleysið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta