Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur úthlutað styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árið 2010. Alls bárust 60 umsóknir til sjóðsins og voru veittir styrkir til 23 verkefna, samtals um 11.230.000 kr.
Þróunarsjóður innflytjendamála var stofnaður í mars 2007 í þeim tilgangi að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda. Markmiðið er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að koma til móts við þá. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn í janúar 2008 en gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram árlega.
Þróunarsjóður innflytjendamála er starfræktur í velferðaráðuneytinu. Innflytjendaráð fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til velferðarráðherra um úthlutanir úr honum. Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á verkefni og rannsóknir sem:
- vinna gegn fordómum og auka fjölmenningarlega færni,
- vinna að félagslegri virkni meðal innflytjenda
- stuðla að bættri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði.
Styrkir voru veitir til eftirtalinna verkefna og rannsókna:
- Kristín Loftsdóttir hlaut styrk til rannsóknarinnar Kynþáttafordómar á Íslandi. Í rannsókninni verður skoðað hvernig kynþáttafordómar birtast í íslensku samfélagi og hver sé upplifun fólks af afrískum uppruna í tengslum við fordóma. Rannsóknin mun varpa skýrara ljósi á eðli fordóma á Íslandi sem telja má að geti haft ákveðið forvarnargildi en jafnframt er rannsóknin innlegg til málefnalegra umræðna um fordóma og virðingu í fjölmenningarlegu samfélagi. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 500.000 kr.
- Samtök um Kvennaathvarf hlutu styrk til rannsóknar á aðstæðum erlendra kvenna eftir dvöl þeirra í Kvennaathvarfinu. Mun hærra hlutfall erlendra kvenna en íslenskra sem leita til Kvennaathvarfsins snýr aftur heim til ofbeldismannsins. Markmiðið með rannsókninni er að komast að því hvað sé erlendum konum til hindrunar að komast úr ofbeldissamböndum. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 490.000 kr.
- Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlutu styrk til verkefnisins Taktu þátt – grasrótarsamtök innflytjenda. Verkefninu, sem er tvíþætt, er ætlað að virkja þátttöku innflytjenda í samfélaginu á mismunandi sviðum. Annars vegar er um að ræða átta vikna námskeið þar sem þátttakendur kynna félögin sem þau koma frá, mynda tengslanet og kynna sér leiðir til að þróa og fjármagna verkefni sem stuðla að aukinni þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi. Hins vegar verður staðið fyrir vinnuhelgi þar sem áhersla verður lögð á framkomu og sjálfsstyrkingu, hópefli og myndun tengslanets. Verkefnið styrk hlaut að fjárhæð 350.000 kr.
- Leikskólasvið og Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar hlutu styrk til verkefnisins Fjölskyldusamvera/Fjölskyldumorgnar. Verkefnið felst í því að sex leikskólar bjóði upp á samveru fyrir fjölskyldur af ólíkum uppruna með börn á leikskólaaldri einn laugardag í mánuði. Tilgangur verkefnisins er að gefa fjölskyldum með sama tungumál tækifæri á því að hittast og styrkja þannig félagslega virkni og draga úr einangrun. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 350.000 kr.
- Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlutu styrk til verkefnisins Rainbow Choir – International Women's Choir. Markmið verkefnisins er að stofna kór sem samanstendur bæði af íslenskum og erlendum konum. Með því að vinna saman í félagsstarfi er lagður grundvöllur að frekari samskiptum kvenna með fjölbreyttan bakgrunn. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 150.000 kr.
- Múltikúlti ehf. hlaut styrk til verkefnisins Múrbrjótur. Um er að ræða sex vikna námskeið fyrir innflytjendur þar sem unnið er að ferilskrá, þjálfun í atvinnuleit og -viðtölum með það að markmiði að gera þátttakendur betur í stakk búna til að sækja um störf við hæfi. Á námskeiðinu verður íslenskur vinnumarkaður og stéttarfélög kynnt og jafnframt lögð áhersla á sjálfsstyrkingu. Hluti af námskeiðinu verður virk atvinnuleit en námskeiðið er ekki eingöngu fyrir einstaklinga sem eru atvinnulausir heldur einnig fyrir einstaklinga sem eru að leita sér að öðru starfi þar sem menntun þeirra nýtist frekar eða tengist áhugasviði þeirra. Fylgst verður með þátttakendum að loknu námskeiði. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 580.000 kr.
- Borgarbókasafn Reykjavíkur hlaut styrk til verkefnisins Söguhringur kvenna. Markmið Söguhringsins er ná til breiðs hóps kvenna af erlendum og íslenskum uppruna þar sem konur fá tækifæri til að segja frá sjálfri sér, listsköpun sinni og menningarbakgrunni. Auk þess fer hluti verkefnisins í listræna sköpun á forsendum þátttakenda. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 200.000 kr.
- Frístundamiðstöðin Kampur/ÍTR hlaut styrk til verkefnisins Stuðningur við félagslega virkni meðal 10–12 ára innflytjendabarna í Reykjavík. Meginmarkmið verkefnisins er að stuðla að aukinni þátttöku innflytjendabarna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Afla þarf gagna um hag þeirra og þróa úrræði sem mæta þörfum þeirra. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 250.000 kr.
- Anna Guðrún Júlíusdóttir hlaut styrk til verkefnisins Tungumálatorgið ÍSA. Upplýsingavefur fyrir kennara sem kenna íslensku sem annað mál. Markmið verkefnisins er að þróa faglegt starf innan Tungumálatorgsins í íslensku sem öðru tungumáli sem mun nýtast breiðum nemendahópi. Byggja á upp upplýsingatorg fyrir kennara sem kenna íslensku sem annað mál innan Tungumálatorgsins og verður byggt á vönduðum upplýsingum sem studdar eru með nýjustu rannsóknum á heimsvísu. Markmiðið er að bæta námsárangur nemenda í íslensku og að færa kunnáttu sérfræðinga og fræðimanna út í skólana, auk þess að safna upplýsingum frá kennurum um hvað virkar og hvað virkar ekki. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.
- Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlutu styrk til verkefnisins Taktu þátt. Um er að ræða ráðgjöf fyrir konur af erlendum uppruna. Boðið verður upp á þessa ráðgjöf utan hefðbundins skrifstofutíma. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 400.000 kr.
- Íþróttafélagið Stál-úlfur hlaut styrk til verkefnisins Þátttaka og efling íþróttafólks af erlendum uppruna. Tilgangur félagsins er margþættur, meðal annars að búa til vettvang fyrir íþróttaáhugamenn af erlendum uppruna, hvetja til heilbrigðra lífshátta, efla sjálfsmynd og aðstoða innflytjendur að aðlagast íslensku samfélagi með því að stuðla að virkum og skemmtilegum samskiptum í gegnum íþróttir. Tilgangurinn er að kynna félagið betur meðal innflytjenda og skapa vettvang fyrir starfsemi þess. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 200.000 kr.
- Fjölskyldustofa Akraneskaupstaðar hlaut styrk til verkefnisins Félagsleg virkni ungmenna. Markmið þessa verkefnis er að auka þátttöku 16–20 ára ungmenna í félags-, íþrótta- og tómstundastarfi á Akranesi. Samstarfsaðilar munu skipuleggja skýr vinnubrögð og verklag félags-, íþrótta- og tómstundafélaga til að halda utan um þátttöku ungmenna af erlendum uppruna í slíku starfi. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 kr.
- Helga Ólafs hlaut styrk til verkefnisins Gagnabanki um innflytjendur fyrir blaða- og fréttamenn og námskeið fyrir innflytjendur um íslenska fjölmiðla. Búa á til gagnabanka um innflytjendur fyrir blaða- og fréttamenn til að brúa bilið milli þessa hópa. Í bankanum verða hagnýtar upplýsingar um innflytjendur á Íslandi, listi yfir menningarfélög, talsmenn og einstaklinga sem eru tilbúnir að koma fram í fjölmiðlum. Jafnframt verður haldið námskeið þar sem þátttakendur fá kynningu á íslenskum fjölmiðlamarkaði, þjálfun við skrif og æfingar fyrir framan upptökuvélar svo dæmi séu tekin. Um er að ræða fjögurra vikna námskeið auk gagnbanka. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 700.000 kr.
- Mímir-símenntun hlaut styrk til verkefnisins Mótun vefs fyrir íslenskukennara fullorðinna innflytjenda á Tungumálatorginu. Búið er að leggja grunn að vefnum Tungumálatorg en umrætt verkefni snýst um að halda áfram að setja efni á vefinn sem mun síðan þróast áfram í höndum íslenskukennara víða um land. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 kr.
- Fjölmenningarsetrið hlaut styrk útgáfu á Samskiptabók í meðgönguvernd. Um er að ræða myndræna samskiptabók sem ætluð er að auðvelda verðandi mæðrum og foreldrum af erlendum uppruna og starfsfólki í meðgönguvernd að hafa samskipti. Um er að ræða þróunarverkefni og er ætlunin að útfæra efnið á vefnum þannig að hægt sé að prenta út einstaka kafla, vinna orðalista og þýðingar á mismunandi tungumálum og að hluti verði gefinn út á hljóðsnældum eða/og geisladiskum. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 650.000 kr.
- Móðurmál – félag um móðurmálskennslu hlaut styrk til verkefnisins Móðurmál er máttur. Markmiðið með verkefninu er að aukinn sýnileiki og þekking á tvítyngi efli á jákvæðan hátt sjálfsmynd tvítyngdra barna og stuðli að bættri líðan þeirra í skóla og utan hans. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 300.000 kr.
- Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hlaut styrk í verkefnið Enter. Unnið er með innflytjendum á aldrinum 9–12 ára og er markmiðið að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem samfélagsfræðsla með málörvun sem börn og sjálfboðaliðar geta haft gagn og gaman af. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 200.000 kr.
- Menntasvið Reykjavíkurborgar hlaut styrk í verkefnið Matstæki í íslensku sem öðru máli. Markmiðið er að hanna og þróa matstæki sem greinir íslenskukunnáttu grunnskólanemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku. Með matstækinu er hægt að greina raunverulega stöðu í íslensku máli sem er forsenda fyrir einstaklingsáætlun í íslenskunámi og í markvissri kennslu. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.
- Samskiptastöð heyrnalausra og heyrnaskerta hlaut styrk í verkefnið Kennsla íslensks táknmáls fyrir heyrnarlausa innflytjendur. Um er að ræða byrjendanámskeið í íslensku fyrir heyrnarlausa innflytjendur en kennt verður að lesa og skrifa á íslensku. Kenndar verða málfræðireglur með útskýringum, æfingum og samanburði við táknmál. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 600.000 kr.
- Jóhann Björnsson hlaut styrk til verkefnisins Eru allir öðruvísi? Um er að ræða að bók sem á að geta nýst bæði börnum og fullorðnum þar sem blandað er saman stuttum textum, heimspekilegum spurningum og teikningum. Með bókinni á að efla umhugsunarvirkni þeirra sem hlut eiga að máli í þeim tilgangi að þannig sé leiðin til fjölmenningarlegrar færni árangursrík og er það gert með því að setja fram gagnrýnar spurningar sem lesendur takast á við. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 600.000 kr.
- Loftur Atli Eiríksson hlaut styrk til verkefnisins Margbreytileikafræðsla fyrir starfsfólk á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga. Markmiðið er að auka skilning og framkalla viðhorf hliðholl margbreytileika og fjölmenningu meðal starfsmanna ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með námskeiðum fyrir starfsmenn á opinberum vinnustöðum. Námskeiðin eru án endurgjalds og standa yfir í um 90 mínútur. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 300.000 kr.
- Jafnréttishúsið hlaut styrk til verkefnisins Bann við búrkum og moskur, hvað er nú það? Í ljósi þeirra umræðna sem eru í samfélaginu annars vegar um byggingu á mosku og hins vegar um bann við búrkum er sótt um að bjóða grunnskólum að kostnaðarlausu námskeið þar sem rætt yrði við nemendur um þessi mál á upplýstan hátt. Á námskeiðunum yrði rætt um sögu og menningu araba og múslima, fólksflutning til Evrópu og aðlögun, búrkur og stöðu kvenna innan íslam, rök með og á móti um búrkur og heiðursglæpi. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 310.000 kr.
- Edda Jónsdóttir hlaut styrk til verkefnisins Heillandi arfleið, útvarpsþáttaröð um framlag fólks af erlendum uppruna til menningarlífs á Íslandi. Markmiðið með þáttaröðinni er að skapa vettvang til að fjalla um hið mikilvæga framlag innflytjenda til menningarlífs á Íslandi núna og í sögulegu ljósi. Með þáttunum er vonast til að hægt sé að stuðla að aukinni vitund fólks um fjölmenningarlegt samfélag sem hýsir einstaklinga af mismunandi uppruna. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 600.000 kr.