Alþjóðaheilbrigðisdagurinn – gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis
Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er í dag, 7. apríl. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til aðgerða gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og býður þjóðum heims að taka þátt í sameiginlegu átaki í þessu skyni.
Þann 7. apríl hvert ár heldur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stofndag sinn hátíðlegan með því að vekja athygli á tilteknu þýðingarmiklu heilbrigðismáli. Með þessu móti er þjóðum heims boðið að taka sameiginlega þátt í að vekja athygli á máli sem eflir heilsu okkar. Að þessu sinni hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin til aðgerða gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Stofnunin bendir á þann mikla árangur sem náðst hefur með tilkomu ýmissa nýrra lyfja á liðnum áratugum. Með þeim varð unnt að meðhöndla sjúkdóma sem fyrir fáum árum eða áratugum voru banvænir, eins og til dæmis HIV/AIDS. Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis getur stefnt í hættu virkni margra lyfja fyrir komandi kynslóðir. Markvissar aðgerðir til að sporna við þessu vandamáli eru því nauðsynlegar til þess að við stöndum ekki í sömu sporum og við gerðum fyrir daga sýklalyfja.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun í átaki sínu beina sjónum sérstaklega að smitsjúkdómunum HIV/AIDS, berklum og malaríu. Berklar eru sá smitsjúkdómur sem dregur flesta til dauða á eftir alnæmi og er talið að um þriðjungur jarðarbúa beri smit. Berklar sem eru ónæmir fyrir hefðbundnum berklalyfjum, svokallaðir fjölónæmir berklar, eru vaxandi vandamál en meðferð þeirra er erfiðari, tekur lengri tíma, er kostnaðarsamari og árangur af meðferðinni mun lakari en við berklum sem ekki eru fjölónæmir. Malaría er algengur sjúkdómur í heittempruðum löndum og hitabeltislöndum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að árlega smitist um 300 milljónir manna af malaríu og dragi um milljón manns til dauða. Ónæmi sjúkdómsins gegn lyfjum sem hafa reynst hvað árangursríkust er ört vaxandi vandamál.
Ein skýring á útbreiðslu ónæmisins er mikil notkun sýklalyfja. Íslendingar hafa líkt og margar aðrar þjóðir gripið til aðgerða að undanförnu til að sporna við vandanum og náð töluverðum árangri. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Guðbjart Hannesson velferðarráðherra í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins. Þar er bent á að unnt sé að bólusetja gegn mörgum bakteríu- og veirusýkingum sem leiðir til fækkunar sjúkdómstilvika og minnkandi notkunar sýklalyfja. Þá sé þess vænst að bólusetning ungbarna gegn sýkingum af völdum pneumókokka sem nú er að hefjast hér á landi muni draga úr notkun sýklalyfja og þar með líkum á útbreiðslu fjölónæmra sýkla.
Velferðarráðherra bendir á að til þess að ná árangri í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi þurfi allir að taka þátt; stjórnvöld, almenningur, sjúklingar, læknar sem ávísa sýklalyfjum og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, svo sem lyfjafræðingar og lyfjaframleiðendur.