Átaksverkefni um tannlækningar fyrir börn tekjulágra
Ráðist verður í átaksverkefni um tannlækningar fyrir börn tekjulágra foreldra í sumar. Þjónustan verður veitt án endurgjalds fyrir börn foreldra sem uppfylla skilyrði um tekjuviðmið. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra þessa efnis á fundi sínum í dag.
Velferðarráðuneytið leitaði til tannlæknadeildar Háskóla Íslands um að starfrækja þjónustuna, meðal annars í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst þegar deildin rak Hjálparvakt tannlækna árið 2009 í samstarfi við Tannlæknafélag Íslands. Tannlæknadeildin mun leggja til húsnæði og aðstöðu meðan kennsla liggur niðri í sumar og sér einnig um að ráða tannlækna og aðstoðarfólk. Áætlað er að umfang þjónustunnar svari til 8–10 stöðugilda tannlækna í átta vikur.
Réttur til þjónustunnar verður tengdur tekjum foreldra og fjölda barna á framfæri en þjónustan er ætluð börnum yngri en 18 ára. Nánar verður kveðið á um þjónustuna og viðmiðin í reglugerð sem sett verður á grundvelli laga um félagslega aðstoð. Miðað er við að einstaklingur eigi rétt á þessari þjónustu fyrir barn sitt hafi árstekjur hans verið lægri en 2.900.000 krónur árið 2010. Fyrir foreldra í sambúð verður miðað við að samanlagðar tekjur séu lægri en 4.600.000 krónur. Tekjuviðmiðið hækkar um 350.000 krónur á ári vegna hvers barns á framfæri fjölskyldunnar umfram eitt, hvort sem í hlut á einstætt foreldri eða foreldrar í sambúð.
Tekjuviðmið einstaklings | Tekjuviðmið foreldra í sambúð | |
|
2.900.000 |
4.600.000 |
|
3.250.000 | 4.950.000 |
|
3.600.000 | 5.300.000 |
Tryggingastofnun ríkisins mun taka á móti umsóknum foreldra um tannlæknaþjónustu og verður opnað fyrir móttöku þeirra 1. maí næstkomandi.
Þeir sem þurfa að sækja þjónustuna um langan veg geta sótt um endurgreiðslu ferðakostnaðar á sömu forsendum og vegna annarrar heilbrigðisþjónustu eins og skýrt er í reglugerð nr. 871/2004 um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir mikilvægt að ráðast í átaksverkefnið til að hjálpa foreldrum barna sem ekki ráða við að greiða fyrir þjónustu tannlækna þótt börnin þurfi nauðsynlega á henni að halda. „Mestu skiptir þó að koma almennri tannlæknaþjónustu við börn í eðlilegt horf með samningum við tannlækna. Viðræður eru hafnar milli Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna og hefur velferðarráðuneytið sett samningsmarkmið þar sem stefnt er að því að kostnaðarþátttaka hins opinbera verði allt að 75% af raunkostnaði fyrir allar almennar tannlækningar barna samhliða aukinni áherslu á ókeypis forvarnarskoðun. Ég er bjartsýnn á að þessar viðræður muni skila góðum samningi sem leiði til bættrar tannheilsu hér á landi.“