Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 327/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 327/2021

Fimmtudaginn 14. október 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. júní 2021, kærði B, fh. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 23. júní 2021, um að synja umsókn hans um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks með umsókn, dags. 12. maí 2021. Með bréfi þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 4. júní 2021, var umsókn hans synjað með vísan til 12. gr. reglna nr. 650/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Ákvörðunin var staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þann 23. júní 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2021. Með bréfi, dags. 1. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 7. júlí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júlí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 24. ágúst 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2021. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 27. september 2021 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. október 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að Reykjavíkurborg mismuni fólki á grundvelli fötlunar hvað varði ferðaþjónustu. Þeim sem ekki geti notað almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar sé neitað um örorkukort til að nota í ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi telji hina kærðu ákvörðun ólögmæta og óréttláta. Óumdeilt sé að kærandi þurfi akstursþjónustu vegna fötlunar sinnar og að hann sé enn jafn fatlaður nú og þegar hann hafi verið í námi. Óréttlátt sé að skilyrða niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar á akstursþjónustu hans við þann tíma sem hann stundi nám. Slíkt stangist á við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt þeim lögum skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varði málefni þess. Ákvörðunartaka skuli byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða sé þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þá beri að hafa í huga markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem sé að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess.

Að öllu framangreindu virtu verði að telja að kærandi eigi rétt á þeirri þjónustu sem sótt sé um og engin hlutlæg, málefnaleg rök mæli gegn því að hann njóti þeirra réttinda. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og úrskurða að Reykjavíkurborg skuli veita kæranda tímabilskort að nýju.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára einhleypur, fatlaður karlmaður sem búi hjá móður sinni sem sé talsmaður hans. Móðir kæranda hafi sótt um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir hans hönd þann 12. maí 2021. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi þann 4. júní 2021, sbr. 12. gr. reglna nr. [645]/2020 um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Í framangreindu ákvæði sé kveðið á um gjald og þjónustusvæði en hvergi sé gert ráð fyrir því tímabilskorti sem umsókn kæranda hafi lotið að. Ákvörðun þjónustumiðstöðvar um synjun umsóknar hafi því verið staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með bréfi þann 23. júní 2021.

Um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk gildi framangreindar reglur, auk gjaldskrár nr. 1468/2020 um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Reglur þessar og gjaldskrá séu settar samkvæmt 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, auk laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Einnig sé stuðst við leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Reglurnar hafi tekið gildi hinn 1. júlí 2020 en hafi verið birtar í B-deild stjórnartíðinda þann 29. júní 2020. Gjaldskráin hafi verið birt í B-deild stjórnartíðinda þann 4. janúar 2021.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Samkvæmt því ákvæði skuli fatlað fólk eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi og á þeim tíma sem það velji gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Að öðru leyti sé sveitarfélögum falin útfærsla á þjónustunni. Lögin veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna. Ekki sé unnt að ráða af framangreindu lagaákvæði, nema að litlu leyti, hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé til ferðaþjónustu fatlaðs fólks þar eð hann ráðist aðallega af reglum sveitarfélagsins en þó innan marka laganna.

Ákvæði 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga feli þannig ekki í sér að skyldur sveitarfélaga séu svo afdráttarlausar að einstaklingar eigi skilyrðislausan og tafarlausan rétt til tiltekinnar þjónustu án skilyrða sem sveitarfélög setji eða að þeir eigi rétt á því að geta keypt tímabilskort ef sveitarfélag hafi ákveðið að gjaldtakan skuli vera með öðrum hætti.

Í 3. málsl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé mælt fyrir um heimild sveitarfélaga til að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir setji. Svohljóðandi sé 1. gr. gjaldskrár nr. 1468/2020 um akstursþjónustu fatlaðs fólks um upphæð gjalds fyrir akstur:

„Fargjald fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks, þ.e. fyrir fasta ferð eða tilfallandi ferð, skal miðast við hálft almennt gjald hjá Strætó bs. samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Fargjald fyrir tilfallandi ferðir sem eru pantaðar samdægurs miðað við fullt gjald hjá Strætó bs. samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Fargjald fyrir aðra farþega er það sama og fyrir notanda, hvort sem erum er að ræða fasta ferð eða tilfallandi ferð.“

Hvorki sé gert ráð fyrir tímabilskortum í ofangreindri gjaldskrá né heldur í 12. gr. reglna nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, sem sé svohljóðandi:

„Fargjöld notenda fyrir akstursþjónustu, þ.e. fyrir fasta ferð, tilfallandi ferð og aðra farþega, taka mið af almenningssamgöngum og eru ákvörðuð í gjaldskrá hvers sveitarfélags.

Fargjald fyrir tilfallandi ferðir sem pantaðar eru samdægurs er hærra en fyrir fastar ferðir.

Fargjald fyrir aðra farþega er það sama og fyrir notandann, hvort sem um er að ræða fasta ferð eða tilfallandi ferð.“

Um sé að ræða þjónustu sem sveitarfélag njóti svigrúms við ákvörðun um með hvaða hætti hún sé veitt og hvernig gjaldtöku sé háttað. Gjaldtakan sé ákveðin í 12. gr. reglna nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu og gjaldskrá nr. 1468/2020 um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk, en þar sé ekki mælt fyrir um gjaldtöku með þeim hætti sem kærandi hafi sótt um, það er tímabilskort. Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar á umsókn kæranda.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum né gjaldskrá, sbr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, eða öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er vísað til þess að jafnræðisreglan komi fram í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár. Þegar reynt hafi á jafnræðisregluna, þ.e. hvort aðilum hafi verið mismunað, sé gjarnan bæði vísað til 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrár. Þau ákvæði hafi verið túlkuð í samræmi við 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi verið innleiddur í lög með lögum nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er innleiddur var í íslenskan rétt með lögum nr. 10/1979.

Þegar stjórnvald hafi byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum leiði jafnræðisreglan til þess að þegar sambærilegt mál komi aftur til úrlausnar hjá stjórnvöldum á grundvelli sama ákvæðis beri almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða. Reglan sé talin þjóna þeim hagsmunum að sambærileg niðurstaða verði í sambærilegum málum og að samræmi sé í stjórnsýslunni í heild. Ef ekki sé um sambærileg tilvik að ræða geti stjórnvald tekið stjórnvaldsákvörðun á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, að því tilskildu að þau sjónarmið séu í samræmi við jafnræðisregluna og aðrar reglur stjórnsýsluréttar.  Eigi þetta einkum við þegar svigrúm sé til mats.  Jafnræðisreglan feli einnig í sér bann við því að mismuna mönnum á grundvelli tiltekinna sjónarmiða. Reglan feli í sér bann við því að byggja stjórnvaldsákvarðanir á tilteknum sjónarmiðum um kynferði, kynþátt, litarhátt, þjóðerni trúarbrögð, á stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum við töku stjórnvaldsákvörðunar. Ef ákvörðun sé tekin á grundvelli þeirra atriða sem talin séu upp í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé hún reist á ómálefnalegum grunni en svo sé ekki hér.

Málsatvik sem kærandi vísi til séu ekki sambærileg, enda hafi hann áður verið námsmaður en sé það ekki lengur. Sú ákvörðun að heimila tímabilskort hafi verið byggð á því að um námsmenn væri að ræða sem sé málefnalegt og lögmætt sjónarmið sem réttlæti mismunandi meðferð mála. Heimilt sé að veita námsmönnum afslátt af þeim sökum samkvæmt frjálsu mati Reykjavíkurborgar. Engum hafi verið veitt tímabilskort vegna þeirrar akstursþjónustu sem hér um ræði. Kærandi sitji því við sama borð og aðrir í hans stöðu.

Um sé að ræða þjónustu sem sveitarfélag njóti svigrúms við ákvörðun um með hvaða hætti hún sé veitt og hvernig gjaldtöku skuli háttað, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 40/1991 skuli fatlað fólk eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi og á þeim tíma sem það velji gegn viðráðanlegu gjaldi. Hér sé um ræða réttindi sem eigi sér samsvörun í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Að öðru leyti sé sveitarfélögum falin útfærsla á þjónustunni. Lögin veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna. Ekki sé unnt að ráða af framangreindu lagaákvæði, nema að litlu leyti, hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé til ferðaþjónustu fatlaðs fólks þar eð hann ráðist aðallega af reglum sveitarfélagsins í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt þess, en þó innan marka laganna.

Ákvæði 29. gr. laga nr. 40/1991 feli þannig ekki í sér að skyldur sveitarfélaga séu svo afdráttarlausar að einstaklingar eigi skilyrðislausan og tafarlausan rétt til tiltekinnar þjónustu án skilyrða sem sveitarfélög setja eða að þeir eigi rétt á því að geta keypt tímabilskort ef sveitarfélag hafi ákveðið að gjaldtakan skuli vera með öðrum hætti, svo lengi sem gjaldtakan eigi sér stoð í lögum. Kærandi njóti ferðaþjónustu fatlaðra en eigi ekki rétt á tímabilskorti þar sem ekki sé mælt fyrir um gjaldtökuna með öðrum hætti.

Gjaldtakan sé lögbundin og eigi sér fullnægjandi stoð í 29. gr. laga nr. 40/1991, sbr. 12. gr. reglna nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og gjaldskrá nr. 1468/2020 um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Hvergi sé mælt fyrir um gjaldtöku með þeim hætti sem kærandi hafi sótt um, þ.e. tímabilskort og því hafi honum verið synjað. 

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar á umsókn kæranda. Þá sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum né gjaldskrá, sbr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, eða öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 23. júní 2021, um að synja umsókn kæranda um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks á grundvelli 12. gr. reglna nr. 650/2020 um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Í 1. mgr. segir:

„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“

Í 3. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem meðal annars skuli kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Í 2. málsl. 3. mgr. segir að sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er í 3. málsl. 3. mgr. ákvæðisins mælt fyrir um heimild sveitarfélaga til að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er útfærslan á akstursþjónustu fatlaðs fólks að meginstefnu til lögð í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk segir meðal annars:

„Með vísan til áðurnefndrar 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna miðar framkvæmd akstursþjónustu að því markmiði að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja félagslega stöðu þess, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Lagaákvæðið er útfært í reglum hvers sveitarfélags og er gengið út frá því að aðstæður séu metnar hverju sinni með einstaklingsmiðuðum hætti. Þar ber að meta markmið einstaklingsins, meðal annars hvað varðar atvinnu, nám og tómstundir, og hvaða þarfir hann hafi til þess að fara ferða sinna sem geri honum kleift að ná þeim markmiðum. Tilgangur þessa mats er alltaf að jafna aðstöðumun þeirra sem vegna fötlunar njóta ekki ferðafrelsis til jafns við aðra, meðal annars með tilliti til aðgengis að almenningssamgöngum.“

Um fyrirkomulag segir í reglunum að viðmið um ferðafjölda skulu taka mið af þörfum hvers og eins og skuli frumkvæði að því að bjóða akstursþjónustu miða við hæfi á grundvelli mats sem félagsþjónusta sveitarfélags framkvæmir og skuli þá horft til þess fyrirkomulags sem hefur reynst best fyrir notendur.

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu og með gjaldskrá nr. 1468/2020 um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í reglum nr. 645/2020 er tekið fram að þær myndi sameiginlegan grunn en sveitarfélögum sé heimilt að setja sértækar reglur, gangi þær ekki gegn sameiginlegu reglunum. Í 12. gr. reglnanna er kveðið á um gjald og þjónustusvæði. Þar segir meðal annars:

„Fargjöld notenda fyrir akstursþjónustu, þ.e. fyrir fasta ferð, tilfallandi ferð og aðra farþega, taka mið af almenningssamgöngum og eru ákvörðuð í gjaldskrá hvers sveitarfélags.

Fargjald fyrir tilfallandi ferðir sem pantaðar eru samdægurs er hærra en fyrir fastar ferðir.

Fargjald fyrir aðra farþega er það sama og fyrir notandann, hvort sem um er að ræða fasta ferð eða tilfallandi ferð.“

Í 1. gr. gjaldskrár nr. 1468/2020 er kveðið á um upphæð gjalds. Þar segir:

„Fargjald fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks, þ.e. fyrir fasta ferð eða tilfallandi ferð, skal miðast við hálft almennt gjald hjá Strætó bs. samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Fargjald fyrir tilfallandi ferðir sem eru pantaðar samdægurs miðast við fullt gjald hjá Strætó bs. samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Fargjald fyrir aðra farþega er það sama og fyrir notanda, hvort sem erum er að ræða fasta ferð eða tilfallandi ferð.“

Fyrir liggur að kærandi sótti um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks, þ.e. kort sem myndi gilda yfir ákveðið langt tímabil og væri hagstæðara, en hann hafði áður fengið slíkt kort þegar hann var námsmaður. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væri gert ráð fyrir slíku korti í reglum nr. 645/2020. Líkt og að framan greinir er sveitarfélögum falið að útfæra nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk í reglum og gjaldskrám þar um. Ljóst er að gjaldskrá Reykjavíkurborgar gerir ekki ráð fyrir tímabilskortum eða einhvers konar magnafslætti.

Kærandi hefur vísað til þess að sú framkvæmd Reykjavíkurborgar feli í sér mismunun og sé í andstöðu við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og ákvæði 29. gr. laga nr. 40/1991. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að fatlaðir nemendur í framhalds- og háskólum njóti ákveðinna sérkjara á við um alla í sömu stöðu, það er alla fatlaða námsmenn í framhalds- og háskólum. Því er ekki fallist á að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna segir meðal annars að framkvæmd akstursþjónustu miði að því markmiði að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja félagslega stöðu þess, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Þá kveður 29. gr. laga nr. 40/1991 á um að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Þá segir einnig að markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Akstursþjónusta er sérhæfð þjónusta sem veitt er fötluðu fólki sem ekki getur nýtt sér almenningsfarartæki og er aksturstími sambærilegur þeim aksturstíma sem Strætó bs. veitir að frátöldum næturakstri Strætó bs. Þá hefur takmarkaður ferðafjöldi á hvern einstakling verið afnuminn.

Fyrir liggur að sveitarfélögum er falið ákveðið mat á útfærslu akstursþjónustu og gjaldfærslu hennar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er útfærsla Reykjavíkurborgar hvorki í andstöðu við ákvæði 29. gr. laga nr. 40/1991 né samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 23. júní 2021, um að synja umsókn A, um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta