Mannréttindaskrifstofa Íslands fær styrk til að veita innflytjendum lögfræðiráðgjöf
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituðu í dag áframhaldandi samning vegna verkefnis sem miðar að því veita innflytjendum sérhæfða lögfræðiráðgjöf um rétt sinn innan íslenska stjórnkerfisins. Ráðgjöfin er fólki að kostnaðarlausu.
Markmið þjónustunnar er meðal annars að uppfylla ákvæði laga um málefni innflytjenda og laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt samningnum skal þjónustan veitt á landsvísu eftir því sem við verður komið og verkefnið unnið í nánu samstarfi við viðeigandi stofnanir.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur frá árinu 2012 veitt Mannréttindaskrifstofu Íslands styrk vegna ofangreinds verkefnis. Samningurinn sem undirritaður var í dag gildir til loka ársins 2024 og er að upphæð ríflega 7,5 milljónum króna.