Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2013

Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur IV

Faxi í Tungufljóti

Foss í klakaböndum16. Rammaáætlun samþykkt:  Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svonefnd rammaáætlun, hefur verið samþykkt á Alþingi með umtalsverðum meirihluta atkvæða.

Samkvæmt áætluninni er tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati  enda sé þar tekið tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja. Ennfremur sé tekið tillit til hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Rammaáætlunin markar tímamót í náttúruverndarmálum ekki síst fyrir það  að hún felur í sér leikreglur um nýtingu og verndun landsvæða sem valdið hefur pólitískum deilum um áratuga skeið.  Í meðförum faghópa, verkefnisstjórnar og loks þingsins voru aðeins 6 kostir fluttir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk meðan beðið verður niðurstöðu frekari rannsókna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er rík áhersla lögð á að ljúka gerð rammaáætlunarinnar og hefur málið nú verið til lykta leitt á Alþingi.

17. Aðgangur að upplýsingum rýmkaður: Ný upplýsingalög tóku gildi um síðastliðin áramót. Gildissvið þeirra hefur verið víkkað og ná þau nú til allra fyrirtækja sem eru að meirihluta í opinberri eigu eins og t.d.  Landsvirkjun og orkuveita Reykjavíkur. Takmarkanir á upplýsingagjöf snerta einkum atriði sem varða samkeppnismál. Aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings eru að mestu leyti óbreyttar frá því sem var en sá tími sem líða þarf áður en vissir flokkar gagna verða opinberir, m.a. fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar og tengd gögn auk allra vinnugagna stjórnvalda, hefur verið styttur verulega, þ.e. úr 30 árum í 8 ár.

Í nýju lögunum hefur verið dregið úr kröfum um framsetningu á beiðnum um aðgang að gögnum með það að markmiði að almenningi verði gert auðveldara en nú er að óska upplýsinga.

Þá hefur verið leitt í lög að stjórnvöld skuli gera málaskrár, lista yfir gögn mála og gögnin sjálf opinber með rafrænum hætti. Með reglugerð skal ráðherra mæla nánar fyrir um birtingu upplýsinga með það fyrir augum að tryggja samræmi og skilvirkni og þar með bætt aðgengi almennings að þeim upplýsingum sem um ræðir. Mælt er fyrir um að ráðherra skuli hafa forgöngu um mörkun upplýsingastefnu til fimm ára í senn. Þar skal m.a. haft að leiðarljósi að mæta þörfum lýðræðissamfélagsins fyrir vandaðar og áreiðanlegar opinberar upplýsingar.

18. Bættur hagur námsmanna og aukin tækifæri: Í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar  hefur grunnframfærsla námslána hækkað um 10,7% umfram verðlag. Það á við um skólaárin 2008-2009 til ársins 2012- 2013. Til samanburðar hækkaði grunnframfærslan um 3,9% umfram verðlag átta árin þar á undan eða frá skólaárinu 200-2001. Fjögur af þessum átta skólaárum hélt grunnframfærslan ekki í við verðlag.

Ríkisstjórnin samþykkti árið 2011 fjárheimildir fyrir Íbúðalánasjóð sem tryggðu fjármögnun framkvæmda við stúdentagarða í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Heildarkostnaður er áætlaður um 4 milljarðar króna og mun Íbúðalánasjóður veita lán fyrir 90% kostnaðarins. Framkvæmdir standa nú yfir við 280 íbúða byggingu fyrir um 320 námsmenn.

Haustið 2011 hófst þriggja ára átak á vegum ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni „Nám er vinnandi vegur“. Byggir það m.a. á reynslu Norðurlandanna sem hefur sýnt að afleiðingar atvinnuleysis eru alvarlegastar hjá þeim sem hafa litla menntun. Markmið átaksins var að mæta ólíkum þörfum hópa sem hingað til hafa ekki fundið sig innan skólakerfisins, fjölga þeim sem ljúka framhaldsskóla- eða stúdentsprófi og efla möguleika þeirra til að sækja sér meira nám eða finna sér störf við hæfi.

Átakið hefur gengið samkvæmt áætlun og hefur framhaldsskólanemendum fjölgað um 1.500 milli ára auk þess sem yfir 1.000 atvinnuleitendur hófu nám í skólum landsins haustið 2011. Framlög til menntakerfisins eru aukin um 7 milljarða króna á þremur árum vegna átaksins.

Samfara þessu hefur verið unnið að aðgerðum til þess að sporna gegn brottfalli úr framhaldsskólum í samstarfi við OECD, íslenska og norska sérfræðinga og á grundvelli nýrrar menntastefnu. Þá hefur einnig verið unnið að því að  tryggja tækifæri fólks á vinnumarkaði til þess að snúa aftur í nám.

19. Umdeild forréttindi afnumin: Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG var að afnema umdeild lög sem sett voru í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 2003 um eftirlaun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna. Þau voru afnumin með lögum í apríl árið 2009. Með nýju lögunum voru sérréttindi forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara afnumin og njóta þeir nú  sömu lífeyriskjara og aðrir opinberir starfsmenn.

Lögin frá 2003 veittu alþingismönnum, ráðherrum og dómurum rýmri lífeyrisréttindi en almenningi m.a  til að hverfa frá störfum áður en þeir næðu tilskildum eftirlaunaaldri. Í krafti þessara sömu laga gátu þeir einnig haldið fullum lífeyrisréttindum þó svo að þeir gegndu samtímis öðrum stöfum fyrir hið opinbera eða að tekjur þeirra væru reiknaðar til frádráttar á lífeyrisgreiðslum.

Núgildandi lög felldu öll sérákvæði um kjör alþingismanna, ráðherra, forseta landsins og maka sem og hæstaréttardómara úr gildi, en þó ekki afturvirkt. Árið 2007 áttu 633 einstaklingar réttindi samkvæmt lögunum frá 2003 og fól það í sér að eftirlaunaskuldbinding ríkissjóðs vegna áðurnefndra laga nam þá um 12 milljörðum króna.
Áhrifa nýju laganna gætir ekki hratt, en þegar til langs tíma er litið munu lögin á komandi áratugum létta þungum útgjaldabagga af ríkissjóði.

20. Heildarlöggjöf um fjölmiðla: Heildarlöggjöf um fjölmiðla hefur verið samþykkt í fyrsta sinn hér á landi. Hún hefur m.a. það verkefni með höndum að stuðla að tjáningarfrelsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun. Með lögunun er komið til móts við helstu ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi lagaumhverfi fjölmiðla. Kveða lögin m.a. á um sjálfstæði ritstjórna og gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum auk þess sem sjálfstæð eftirlitsstofnun, Fjölmiðlanefnd, var sett á fót 2011 á grundvelli laganna til að annast faglegt eftirlit með fjölmiðlum og tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni. Fjölmiðlanefndin leysti af hólmi útvarpsréttarnefnd sem annaðist áður málefni sjónvarps og hljóðvarps.

Á meðfylgjandi slóð má nálgast upplýsingar um stöðu allra þeirra 222 verkefna sem tilgreind eru í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. 181 verkefni er afgreitt eða afgreitt að mestu, 40 eru í vinnslu eða afgreidd að hluta og eitt verkefni hefur verið hætt við. Unnt er að skoða verkefnin eftir málaflokkum.

Greinargerð um 15 önnur verk ríkisstjórnarinnar er að finna hér: (11 - 15), (6 - 10) og (1 - 5)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta