Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013

Ríkisstjórnarfundur  haldinn á Selfossi og fundur ríkisstjórnarinnar með fulltrúum allra sveitarfélaga á Suðurlandi 25. janúar 2013

Ríkisstjórnin á Selfossi
Ríkisstjórnin á Selfossi

Ríkisstjórnin á SelfossiNýtt gosminjasafn í Vestmannaeyjum

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á Selfossi í dag að veita 10 milljónum króna til styrktar nýju gosminjasafni í Vestmannaeyjum sem hafinn er undirbúningur að, en þann 23. janúar sl. voru 40 ár liðin frá því gos hófst í Heimaey.

Gert er ráð fyrir því að eitt af húsunum sem verið hafa undir ösku og hrauni í 40 ár verði grafið upp og nýtt sem lykilþáttur í safninu. Þá verði sett þar upp sýning þar sem eldgossins verður í minnst og jarðsögu og mótun Suðurlands gerð skil. Auk þess er ráðgert að í safninu verði  fræðsla um náttúruvá á borð við eldgos og jarðskjálfta.

Þekkingarsetur á Höfn

Í dag var skrifað undir samning mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Sveitarfélagið Hornafjörð og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um verkefni á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar.

Verkefnið er fjármagnað með 15 m.kr. framlagi af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnar Íslands. Það byggir á tillögum starfshóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra og eru meginmarkmið þess þríþætt:

  • að komið verði á fót sjálfseignarstofnun um samstarf og hugmyndafræði Nýheima undir heitinu Þekkingarsetur Nýheima.
  • að unnið verði að samþættingu fræðslu og menntunar á Suðurlandi, einkum símenntunar, framhaldsfræðslu og aðgengi að námi á háskólastigi.
  • að efldar verði skapandi greinar í Sveitarfélaginu Hornafirði m.a. með uppbyggingu Vöruhússins á Höfn.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri Hornarfjarðar og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri Samtök sunnlenskra sveitarfélaga undirrituðu samninginn.

Verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands

Í dag var jafnframt undirritaður samningur um hönnunarsamkeppni vegna stækkunar á verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði boðnar út í september á þessu ári.

Um er að ræða 1.630 m2 viðbyggingu við núverandi verknámsaðstöðu skólans sem er 1.230 m2 og því um að ræða meira en tvöföldun á núverandi húsnæði. Er þetta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu starfsmenntunar. Áætlaður kostnaður er um 650 m.kr. sem skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarfélög á svæðinu 40%.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra skrifuðu undir samninginn fyrir hönd ríkisins. Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri skrifaði undir fyrir hönd Árborgar, Valtýr Valtýrsson oddviti fyrir hönd Héraðsnefndar Árnesinga og Ísólfur Gylfi Pálmason sveitastjóri fyrir hönd Héraðsnefndar Rangæinga og Héraðsnefndar Vestur Skaftfellinga.

Endurbætur á eldri hluta sjúkrahússins á Selfossi

Með umfangsmiklum breytingum á eldri hluta sjúkrahússins verður húsakostur færður til nútímalegs horfs sem auðveldar rekstur stofnunarinnar og bætir til muna aðstæður skjólastæðinga hennar og starfsfólks. Eftir breytingar verður húsakostur um 5.800 m2  en eldri hlutinn er nú um 3.000 m2. Gert er ráð fyrir að hefjast handa við fyrsta hluta framkvæmdanna á þessu ári, en heildarkostnaður er áætlaður um 1.360 m. kr. Áætlað er að hefja 1. áfanga af fjórum og líkur honum í byrjun næsta árs. Áætlaður kostnaður er 350 til 370 m.kr.

Endurnýjun þjónustusamnings við Sveitarfélagið Hornafjörð

Sveitarfélagið hefur á grunni þjónustusamnings við ríkið sinnt heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og hefur samþætt þjónustuna við önnur svið velferðar- og félagsmála sem það veitir. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er mjög góð og hefur styrkt þjónustu við íbúa í byggðarlaginu.

Þjónustusamningurinn hefur ekki verið endurnýjaður frá árinu 2006. Í dag undirrituðu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri á Höfn þjónustusamning sem þar með hefur verið endurnýjaður. Ríkisstjórnin leggur fram nýtt fjármagn, rúmar 10 m.kr. og fær að auki fjármagn til að greiða fyrir endurnýjun samningsins.

Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, undirritaði í dag samning við Framkvæmdasýslu ríkisins um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri.

Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri er fyrsta framkvæmdin af þessari stærðargráðu sem ráðuneytið stendur fyrir á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir 290 m.kr. framlagi til byggingarinnar næstu þrjú árin, eða samtals 870 m.kr. króna.

Þekkingarsetrið mun hýsa gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er önnur gestastofan af þeim fjórum sem fyrirhugað er að byggja fyrir þjóðgarðinn. Gestastofurnar gegna mikilvægu hlutverki fyrir gesti þjóðgarðsins og veita ferðamönnum upplýsingar. Þá er gert ráð fyrir að í þekkingarsetrinu  verði einnig til húsa skrifstofa Skaftárhrepps og Erró-setur auk starfsemi á vegum Háskóla Íslands.  

Kirkjubæjarklaustur er á svonefndu köldu svæði og hefur í því ljósi verið ákveðið að þekkingarsetrið vinni að frumkvöðlaverkefni á sviði orkunotkunar og umhverfismála á slíkum svæðum. Ætlunin er að teymi sérfræðinga leiti lausna til að draga úr orkukostnaði og umhverfisáhrifum byggingarinnar með ólíkum aðferðum. Með ráðuneytinu og Vatnajökulsþjóðgarði starfa nú þegar Framkvæmdasýsla ríkisins, Arkís arkitektar, Orkusetur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Varmalausnir ehf.

Þá undirritaði ráðherra Nordic Built sáttmálann, sem tryggja á að bygging og rekstur þekkingasetursins verði á sjálfbærum grunni. Í því skyni verður byggingarferlið allt umhverfisvottað af viðurkenndum vottunaraðila.

Ný Vestmannaeyjaferja

Ríkistjórnin áréttaði á fundinum á Selfossi í dag að haldið yrði áfram undirbúningi vegna útboðs og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og að fengnum jákvæðum niðurstöðum undirbúningsins  yrði ráðist í næsta áfanga sem er að bjóða út hönnun og síðan bjóða smíði hennar út. Samkvæmt áætlunum yrði ný Vestmannaeyjaferja tekin í notkun árið 2015.

Unnið hefur verið að þessu verkefni undir forræði innanríkisráðuneytisins samkvæmt samgönguáætlun og framkvæmdaáætlun. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga, þarfagreiningu og kröfulýsingu fyrir nýja ferju ljúki í byrjun næsta mánaðar.

Gert er ráð fyrir að lögð verði til smíði á um 60 fólksbíla ferju, rúmlega 60 m langri og 15 m breiðri og með djúpristu 2,8 m en Herjólfur ristir 4,3 m. Gert er ráð fyrir svokallaðri tvinn (hybrid) tækni. Miðað er við siglingar í Landeyjahöfn allt árið með ásættanlegum frátöfum yfir háveturinn.

Með því að hætt verður siglingum til Þorlákshafnar og með hybrid tækninni mun sparast umtalsverður olíukostnaður. Með nýrri tækni og skipulagi má mögulega lækka árlegan rekstrarkostnað um 230 m. kr. miðað við núverandi stöðu. Ekki hefur hér verið tekið tillit til annarra veigamikilla og jákvæðra atriða svo sem aukins öryggis, bættrar þjónustu, minni mengunar og framtíðarmöguleikum á að nýta landrafmagn. Þá er eftir að taka tillit til sparnaðar við dýpkun en með nýrri grunnristari ferju lækkar dýpkunarþörfin frá 300-500 þúsund rúmmetrum niður í 150-200 þúsund rúmmetra á ári. Það gefur árlegan sparnað upp á um 150 m.kr. til viðbótar þeim 230 m. kr. sem framan er talið.

Markaðsátak fyrir íslenskan saltfisk

Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt á fundi sínum á Selfossi að veita 20 m.kr. af ráðstöfunarfé ráðherranefndar um atvinnumál í markaðsátak fyrir íslenskan saltfisk árið 2013. Framlagið miðast við að jafnhátt eða hærra framlag renni til átaksins frá öðrum  samningsaðilum eða fyrirtækjum í greininni sem kunna að ganga til liðs við verkefnið.

Að undanförnu hefur sala á íslenskum saltfiski erlendis dregist saman vegna efnahagsástands á helstu  mörkuðum og harðnandi samkeppni, einkum frá Noregi. Útfluttar saltfiskafurðir nema um 13% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Samtök saltfiskframleiðenda, Íslandsstofa og Matís hafa frá árinu 2010 unnið náið saman um vöruþróun og markaðsstarf fyrir íslenskan saltfisk. Þessir aðilar hafa leitað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um samstarf við stjórnvöld um sérstakt kynningarátak til að efla samkeppnisstöðu saltfisksins erlendis, sérstaklega á Spáni og í Portúgal. Það er talið sérlega brýnt að ráðast í átak núna til að hafa áhrif á sölu fyrir páskana 2013 en það er eitt mikilvægasta sölutímabilið fyrir saltfisk.

Unnin hafa verið drög að samkomulagi um átakið með fyrirvara um fjármögnun, þar sem hliðsjón hefur verið höfð af ferðaþjónustuátakinu Ísland - allt árið.

Fjárfestingarsamningur um hátæknifiskvinnslu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundinum tillögu að nýjum fjárfestingarsamningi á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga (99/2010).

Nánar tiltekið snýr verkefnið að byggingu og rekstri hátæknifiskvinnslu í Sandgerði, þar sem fiskur verður unninn og seldur á erlenda markaði. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður um 5.000 tonn. Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð 609 m.kr. og gert er ráð fyrir 41 starfsmanni við rekstur vinnslunnar.

Fyrir liggur arðsemisútreikningur frá Íslandsstofu sem sýnir að framangreind nýfjárfesting er þjóðhagslega mikilvæg út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og gjaldeyrissparnaði, jafnt til lengri sem skemmri tíma.

Nánar er fjallað um einstök mál, sem hér eru rakin,  á vef viðkomandi ráðuneyta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta