Vel mætt á fund á Suðurlandi
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti í dag fyrirhugaðar breytingar á skipan umdæma sýslumanna og lögreglustjóra á fundi á Hvolsvelli fyrir fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi. Vel var mætt á fundinn og fulltrúar hinna ýmsu sveitarstjórna á Suðurlandi tóku þátt í umræðum. Með ráðherra á fundinum voru formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, formaður Sýslumannafélagsins, varaformaður Lögreglustjórafélagsins og þeir embættismenn ráðuneytisins sem að málinu koma.
Innanríkisráðherra mælti á Alþingi á dögunum fyrir tveimur lagafrumvörpum sem gera annars vegar ráð fyrir fækkun og stækkun á umdæmum sýslumanna og hins vegar lögreglustjóra. Tilgangurinn með stærri rekstrareiningum sýslumannsembætta er að auka og efla þjónustu ríkisins í héraði og skapa aukin tækifæri til að færa ný verkefni til sýslumanna. Á sama hátt er tilgangurinn með breytingum á umdæmum lögreglustjóra að auka samhæfingu og samstarf innan lögreglunnar um land allt, standa vörð um grunnþjónustu lögreglunnar, efla stjórnun innan lögreglu og gera lögreglustjórum kleift að sinna alfarið lögreglustjórn.
Fundurinn á Hvolsvelli var sá fyrsti í röð funda innanríkisráðherra til að fá fram álit og ábendingar heimamanna vegna þessara breytinga.