Innanríkisráðherra fundar með fjölmenningarráði Reykjavíkur
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag á móti fulltrúum í fjölmenningarráði Reykjavíkurborgar. Fjölmenningarráði er ætlað að vera ráðgefandi fyrir mannréttindaráð og aðrar stofnanir Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda. Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, sem stýrir þingnefnd um heildarendurskoðun útlendingalaga sat einnig fundinn.
Með fundinum í dag vildi innanríkisráðherra heyra sjónarmið fulltrúa í fjölmenningarráði varðandi málefni útlendinga en sem kunnugt er stendur nú yfir endurskoðun á verklagi og regluverki er varðar málsmeðferð útlendinga. Ákveðið var á fundinum að ráðherra ætti reglulega fundi með fjölmenningarráðinu þar sem mikilvægt væri að fá sjónarmið þeirra inn í þá vinnu sem er framundan í ráðuneytinu varðandi breytingar á útlendingalögum og meðferð hælismála.
Vinna hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma í innanríkisráðuneytinu við að auka gæði og einfalda til muna móttöku og meðferð hælisleitenda til þess að gera ferlið mannúðlegra og sinna þeim betur sem á vernd þurfa að halda. Sú vinna tekur mið af framkvæmd í þeim löndum þar sem talið er að góður árangur hafi náðst. Þar eru Norðurlöndin framarlega en Noregur stendur einna fremst.
Að auki hefur ráðherra mælt á Alþingi fyrir frumvarpi um hraðari málsmeðferð, sérstaka áfrýjunarnefnd og umbætur til að tryggja að hægt sé að svara umsóknum um alþjóðlega vernd fyrr en nú er gert og þannig forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa helst á vernd að halda.
Á myndinni eru frá hægri Óttarr Proppé þingmaður, fulltrúar fjölmenningarráðs, þau Harald Schaller, Jessica Abby Vanderveen og Juan Camilo Roman Estrada, auk Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.