Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Drög að breyttri reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja nr. 8/2009. Umsagnarfrestur um drögin er til 7. desember næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected] .

Breytingarnar sem lagðar eru til snerta nær eingöngu starfsemi skoðunarstöðva. Nánar um breytingarnar:

  • Með 1. gr. reglugerðarinnar er ákvæði 29. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja breytt þannig að það verður heimildarákvæði í stað skylduákvæðis. Nauðsynlegt þykir að breyta ákvæðinu þar sem engin skoðunarstofa hefur komið sér upp þeim búnaði sem ákvæðið hefur skyldað þær til að gera. Búnaðurinn sem þarf til að uppfylla skyldu ákvæðisins er kostnaðarsamur og sér engin skoðunarstofa sér fært að verða sér úti um búnaðinn. Í 22. gr. reglugerðarinnar er gerð sú krafa að skoðunarstofur skuli hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa og staðal ÍST EN ISO/IEC 17020:2004. Nú er svo komið að skoðunarstofurnar fá ekki áframhaldandi faggildingu þar sem þær uppfylla ekki skilyrði 29. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt a-lið 3. tölul. VI. kafla I. viðauka við reglugerð nr. 3821/85/EB, með áorðnum breytingum, er ekki gerð krafa um að prófun á ökurita fari fram við reglubundna aðalskoðun. Þar segir að prófunin megi fara fram samhliða reglubundinni aðalskoðun. Ákvæði 29. gr. gengur því lengra en nauðsyn ber til og er því lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að það verði heimildarákvæði í stað skylduákvæðis.
  • Með 2. gr. bætist við nýr litur fyrir endurskoðunarmiða. Ártal er ekki að finna á endurskoðunarmiðum og sér Umferðarstofa sér ekki fært að setja ártal inn á miðana þar sem nánast útilokað er að áætla hversu marga endurskoðunarmiða þarf fyrir hvern mánuð ársins. Til að koma til móts við óskir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur margoft óskað eftir því við Umferðarstofu að ártöl verði sett á endurskoðunarmiða, er lagt til að endurskoðunarmiðar verði með tvennum hætti og verði notaðir sitt hvort árið. Þannig verði grænn endurskoðunarmiði notaður á sléttu ári, 2014, 2016, 2018, o.s.frv, og grænn og appelsínugulur endurskoðunarmiði, með skástriki sem aðgreinir litina, notaður á oddatöluári, árin 2013, 2015, 2017, o.s.frv. Með þessu getur lögregla, við sjónskoðun, séð hvaða ár bifreið átti að vera færð til endurskoðunar og Umferðarstofa situr ekki uppi með fjölda ónotaða endurskoðunarmiða sem aldrei verður unnt að nota á ný, eða lendir í vandræðum vegna skorts á endurskoðunarmiðum.
  • Með 3. gr. er lagt til að lagfærð verði villa í núgildandi bráðabirgðaákvæði. Skoðunarforrit ökutækjaskrár miðar við fyrstu skráningu ökutækis en ekki nýskráningu. Með því að miða við nýskráningu getur ferðavagn, s.s. 20 ára gamalt hjólhýsi, sem flutt er til landsins og nýskráð árið 2012 fengið 4 ára skoðunartíðni og á þá að mæta næst til skoðunar árið 2016. Það samræmist ekki því sem lagt var upp með og verður því að leiðrétta orðalagið.

Reglugerðardrögin má sjá hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta