Frumvarpi til laga um happdrættismál dreift á Alþingi
Frumvarpi til laga um breytingu á lögum um happdrætti, nr. 38/2005, hefur verið dreift á Alþingi. Felur það einkum í sér aukið eftirlit með happdrættum, auknar forvarnir og takmörkun aðgengis að fjárhættuspilum á netinu sem eru óheimil hér á landi. Gera má ráð fyrir að málið komist á dagskrá Alþingis á næstunni.
,,Frumvarpið er fyrsti áfangi í þeirri stefnumörkun innanríkisráðherra sem lýtur að því að draga svo sem kostur er úr óæskilegum áhrifum af happdrættis- og spilastarfsemi hér á landi og stuðla um leið að ábyrgri spilun þar sem ágóði rennur eingöngu til innlendrar góðgerðarstarfsemi,” segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu. Þar segir einnig: ,,Áfangar á þeirri leið eru nokkrir. Í fyrsta lagi að koma á fót sérstakri stofnun sem annast faglegt og kerfisbundið eftirlit með þessari starfsemi hér á landi og er stjórnvöldum til ráðgjafar um þróun happdrættismála. Í öðru lagi að koma í veg fyrir ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum. Í þriðja lagi að fylgja eftir þróun á þessu sviði svo sem varðandi breytt fyrirkomulag við spilun innanlands sem erlendis, ekki síst hvað varðar tilkomu netsins og tölvutækni í því sambandi. Í fjórða lagi að draga úr samkeppni á þessum markaði innanlands þannig að fjármagn nýtist sem mest til góðgerðarmála. Að endingu er markmiðið að hér á landi gildi ein heildstæð eða samstæð lög um happdrættismarkaðinn sem tryggi sem best skipulag og yfirsýn yfir málaflokkinn og sem mæti þeim kröfum og þörfum sem samfélagið gerir til þessara mála. Frumvarpi þessu er ætlað að ná árangri hvað varðar fyrstu þrjá áfangana á þessari leið til bætts umhverfis á happdrættis- og spilamarkaði á Íslandi.