Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

App til að auðvelda endurvinnslu hlutskarpast í nýsköpunarkeppninni Gagnaþon fyrir umhverfið

Sigurvegarar Gagnaþons fyrir umhverfið voru tilkynntir í beinni útsendingu í dag. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra afhenti verðlaunin ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands og Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík.

Tilgangur gagnaþonsins var að ýta undir sýnileika opinberra gagna og stuðla að nýsköpun með verkefnum sem ráða bót á fjölbreyttum umhverfisvandamálum.
Þátttakendur skiluðu inn lausnum í einum af þremur flokkum: Besta gagnaverkefnið, besta endurbætta lausnin og besta hugmyndin. 17 teymi skiluðu inn lausnum í keppninni.

Endurvinnsla auðvelduð með nýju appi

Sigurvegarar besta gagnaverkefnisins hlutu 750.000 kr. í verðlaun og voru það þeir Davíð Phuong Xuan Nguyen, Róbert Ingi Huldarsson, Þórður Ágústsson og Þórður Friðriksson eða Volgar pulsur. Sigurlausn þeirra Flikk flokk er snjallsímaforrit (App) sem auðveldar endurvinnslu með því að veita upplýsingar um hvernig má endurvinna vöru, þegar strikamerki hennar er skannað.

„Með því að vinna sífellt að nýsköpun skapast ný verðmæti sem tryggja hagsæld landsins, bæta lífskjör fólks og hjálpa okkur að ná markmiðum sem við höfum sett okkur í umhverfis- og loftslagsmálum. Verkefni eins og það sem við verðlaunum hér í dag hefur líka þann augljósa kost að einfalda fólki lífið, með því að gera almenningi auðveldara að leggja sitt af mörkum til umhverfismála,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sem afhenti verðlaunin fyrir besta gagnaverkefnið.

Dregið úr matarsóun veitingastaða og hjólað fyrir umhverfið

Sigurvegarar í flokkinum besta endurbætta lausnin voru þær Renata Bade Barajas og Jillian Verbeurgt með lausn sinni GreenBytes og hlutu þær 450.000 kr. í sigurlaun. Lausnin er hugbúnaður sem dregur úr matarsóun veitingastaða með því að nota gervigreind og veðurstofugögn.

Í flokknum besta hugmyndin var það teymið GreenBike sem sigraði með hugmynd sinni Hjólað fyrir umhverfið - farsímaapp sem heldur utan um sparað kolefnisspor og hvetur til hjólreiða í takt við veðurspá. Teymið samanstendur af þeim Karítas Sif Halldórsdóttur, Guðjóni Hafsteini Kristinssyni og Mörtu Björgvinsdóttur.

,,Umhverfismál eru meðal stærstu og mikilvægustu verkefna sem við fáumst við. Viðfangsefnin eru ótalmörg, en mögulegar leiðir og lausnir eru líka ótalmargar. Til að ná sem bestum árangri skiptir öllu að virkja fólk, tækni og skapandi hugsun við mótun lausna. Viðburðir eins og gagnaþonið gegna þar lykilhlutverki, með því að vekja athygli fólks á viðfangsefninu og því mikilvæga hlutverki sem úrvinnsla gagna gegnir í mótun nýrra lausna. Hugmyndaflug og vinna þátttakenda gagnaþonsins við mótun lausna er hvatning til allra að halda áfram að þróa tækni og lausnir til að ná árangri í umhverfismálum,” segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík um verkefnið.


  • Íris Huld Christersdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hélt opnunarávarp við verðlaunaafhendinguna, sem fram fór með stafrænum hætti. - mynd
  • Kynnar á verðlaunaafhendingu Gagnaþons fyrir umhverfið: Kristjana Björk Barðdal og Iðunn Andrésdóttir, verkefnastjórar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta