Þingsályktun um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna er komin út í enskri þýðingu
Alþingi samþykkti tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna í júní síðastliðnum að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Þingsályktunin sem gerð er til fjögurra ára hefur nú verði þýdd á ensku með það að markmiði að efni hennar nái til sem flestra. Þýðingin kemur að góðum notum við erlent samstarf og miðlun upplýsinga til erlendra aðila um framkvæmd barnaverndar og velferðar barna hér á landi. Þýðingin er einnig liður í þeirri viðleitni félagsmálaráðuneytis að hafa tiltækar grunnupplýsingar á erlendum málum til fólks sem búsett er hér á landi en skilur ekki íslenska tungu.
Meginatriði aðgerðaáætlunar eru að bæta afkomu barnafjölskyldna, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna, lengingu fæðingarorlofs, stuðningi við foreldra í uppeldisstarfi, eflingu forvarna og aðgerðum gegn vímuefnaneyslu. Einnig tekur áætlunin til aðgerða í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik, hegðunarerfiðleika og geðraskanir og í þágu langveikra barna og barna sem eiga við vímuefnavanda að etja. Sömuleiðis verður ráðist í aðgerðir til að vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum og til að styrkja stöðu barna innflytjenda.
Þingsályktun um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna
Parliamentary Resolution on a four-year action plan to improve the situation of children and young persons