Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2024 Innviðaráðuneytið

Innviðaráðherra mælir fyrir frumvarpi um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti í lok janúar fyrir frumvarpi um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (tímabundnar uppbyggingarheimildir).

Með frumvarpinu er lagt til að þegar framkvæmdir við uppbyggingu í íbúðabyggð, eða á svæði þar sem íbúðabyggð er heimiluð samkvæmt deiliskipulagi, hafa ekki hafist innan fimm ára frá birtingu samþykkts deiliskipulags skuli sveitarstjórn, áður en ákvörðun er tekin um samþykkt byggingaráform, meta hvort þörf er á að skipulagið verði uppfært í heild eða að hluta. Hafi engin umsókn um byggingaráform verið lögð fram á umræddum tíma getur sveitarstjórn kallað eftir skýringum og framkvæmt áðurnefnt mat á grundvelli þeirra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra:
„Þetta er mikilvægur áfangi og felur í sér skýran hvata fyrir lóðarhafa til að hefja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eins og deiliskipulag gerir ráð fyrir. Það er von mín að lögfesting frumvarpsins muni auðvelda sveitarfélögum að fylgja eftir og knýja á um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við deiliskipulag og þar af leiðandi uppbyggingu í samræmi við húsnæðisþörf. Þetta er eitt af fjölmörgum þáttum sem geta unnið að því ásamt öðru að stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja betur framboð íbúðarhúsnæðis fyrir almenning.“

Mikill þungi hefur farið í húsnæðismálin síðastliðna mánuði og er meðal annars unnið að því að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.

Ríki og sveitarfélög hafa sammælst um verkefnið „einn ferill húsnæðis-uppbyggingar“ í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga og þar er unnið að því að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Áhersla er lögð á að sameiginlegt meginmarkmið löggjafar verði að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að öruggu húsnæði. Með því að samþætta ferla er hægt að fá betri yfirsýn, áætlanagerð verður markvissari og styður þannig við hraðari uppbyggingu húsnæðis.

Þá hefur innviðaráðherra sett af stað vinnu við gagngerar breytingar á byggingarreglugerð í þeim tilgangi að einfalda umgjörð um byggingariðnað og lækka byggingarkostnað. Markmiðið er að einfalda stjórnsýslu, auka gæði og neytendavernd með því að stíga þetta framfaraskref í bygginga- og mannvirkjagerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta