Hoppa yfir valmynd
3. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áframhaldandi aðstoð við heimilislausa af erlendum uppruna

Frá undirritun samningsins - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu í dag undir samning ásamt Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Dorota Harembska frá Barka samtökunum um áframhaldandi þjónustu Barka samtakanna. Verkefnið lýtur að þjónustu við heimilislausa af erlendum uppruna, með búsetu á Íslandi.

Verkefnið er samstarf félagsmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Barka, pólskra samtaka sem veita stuðning og ráðgjöf við heimilislaust fólk af erlendum uppruna.

Barka-samtökin voru  upprunalega stofnuð í Póllandi árið 1989 til að hjálpa fólki í erfiðum félagslegum aðstæðum. Samtökin draga nafn sitt af fljótaprömmum sem eru vel þekktir í Póllandi og er nafnið táknrænt fyrir starfsemi Barka sem veitir fólki stuðning og hvatningu uns það nær viðspyrnu á nýjan leik.

Þjónusta Barka felst í vettvangsteymi sem fer á milli þeirra staða sem heimilislausir sækja helst. Aðstoðin byggir á jafningjafræðslu og þeir sem leiða starfið hafa sjálfir verið  heimilislausir og glímt við áfengis- og/eða vímuefnavanda. Samhliða jafningafræðslunni starfar háskólamenntaður starfsmaður, yfirleitt með menntun á sviði heilbrigðis- eða félagsvísinda.

Markmið verkefnisins er að stuðla að betri lífsgæðum heimilislausra einstaklinga, hvort sem í því felst að snúa aftur til heimalands eða vera áfram á Íslandi en tungumálaörðugleikar hamla mjög möguleikum þessa hóps til að fá meðferð við hæfi hér á landi.

Reykjavíkurborg hefur verið með samning við Barka um árabil með góðum árangri en með tilkomu styrks félags- og barnamálaráðherra mun Barka framvegis þjónusta einstaklinga óháð lögheimilissveitarfélagi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta