Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Forsætisráðuneytið

1179/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024

Hinn 29. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1179/2024 í máli ÚNU 24010007.
 

Beiðni um endurupptöku og málsatvik

Með erindi, dags. 5. janúar 2024, fór A, f.h. B, fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál ÚNU 23110005, sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1165/2023 frá 8. desember 2023. Í beiðninni kemur fram að ekki hafi enn borist nein gögn frá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands.
 

Niðurstaða

Í máli ÚNU 23110005, sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1165/2023 frá 8. desember 2023, laut efni kærunnar að því að B hefðu ekki verið afhent öll gögn máls hennar hjá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands. Í skýringum barnaverndarþjónustunnar til úr­skurð­ar­nefndarinnar kom fram að unnið væri að því að taka saman gögnin fyrir B í samræmi við verklagsreglur um afhendingu gagna um persónuupplýsingar samstarfssveitarfélaga í barnavernd Mið-Norðurlands. Í samræmi við þær skýringar taldi úrskurðarnefndin að ekki hefði verið tekin ákvörð­un um að synja B um aðgang að gögnum sem kæranleg væri til nefndarinnar. Var kær­unni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
 
Úrskurðarnefndin leiðbeindi B um það að þótt ekki væri tekin afstaða til þess í úrskurðinum væri það svo að ef kæra hennar lyti að gögnum í stjórnsýslumáli sem hún ætti aðild að giltu upplýsinga­lögin ekki um aðgang að gögnunum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Jafnframt tiltók nefndin að um rétt aðila að barnaverndar­mál­um til aðgangs að gögnum slíks máls væri fjallað í 45. gr. barna­verndarlaga, nr. 80/2002. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga væri heimilt að skjóta úrskurðum og öðrum stjórn­valds­ákvörð­un­um barna­vernd­ar­þjón­ustu, þ.m.t. um aðgang að gögnum, til úrskurðar­nefnd­ar velferðarmála eftir því sem nánar væri kveðið á um í lögunum. Slík sérákvæði um kærurétt gengju fram­ar hinni almennu kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
 
Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er að finna ákvæði um endurupptöku stjórnsýslumáls. Þar kemur í 1. mgr. fram eftir­farandi:
 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

 
Af beiðni um endurupptöku verður ekki ráðið hvaða atriði skuli leiða til þess að málið sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1165/2023 skuli tekið upp að nýju. Að mati úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­mál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu sem breytt geta niðurstöðu nefndarinnar. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.
 
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur að slíkar vísbendingar séu ekki til staðar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 23110005 sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1165/2023 frá 8. desember 2023.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ítrekar þær leiðbeiningar sem fram komu í fyrri úrskurði nefnd­ar­inn­ar um kæruleiðir í barnaverndarmálum. Í ljósi rökstuðnings kæranda fyrir beiðni sinni um endur­upp­töku telur nefndin jafnframt tilefni til þess að benda á að í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörð­un í málinu verður kærð til. Sé ákvörðun í máli þannig kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála, verð­ur dráttur á svörum í málinu jafnframt kærður þangað.
 

Úrskurðarorð

Beiðni A, f.h. B, um endurupptöku máls ÚNU 23110005 sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1165/2023, er hafn­að.
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta