Hoppa yfir valmynd
22. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu sameiginlegar varnir og Úkraínu

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins.  - mynd

Sameiginlegar varnir, áframhaldandi stuðningur við Úkraínu og aukið samstarf við Indó-Kyrrahafsríkin voru meðal helstu umræðuefna á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins, sem lauk á föstudag í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. 

Ráðherrafundurinn hófst með þátttöku varnarmálaráðherra Indó-Kyrrahafsríkjanna - Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan og Suður-Kóreu. Ráðherrarnir ræddu ástand öryggis- og varnarmála og vaxandi samstarf Atlantshafsbandalagsins og Indó-Kyrrahafsríkjanna, meðal annars á sviði varnartengdrar framleiðslu, innleiðingu á nýrri tækni og viðbragða við fjölþáttaógnum.

Þá var fundað í NATO-Úkraínuráðinu og ávarpaði forseti Úkraínu, Volodomir Zelensky, fundinn. Ráðherrar ítrekuðu skuldbindingar sínar og samstöðu með Úkraínu í samræmi við ákvarðanir leiðtogafundar bandalagsins í júlí síðastliðnum, þar með talið gagnvart nýrri aðgerð Atlantshafsbandalagsins í Wiesbaden, Þýskalandi, sem mun samræma hergagnaaðstoð og þjálfun fyrir Úkraínu. 

Á fundi aðildarríkja bandalagsins, sem nú eru 32 talsins, voru sameiginlegar varnir og stuðningur við Úkraínu aðallega til umfjöllunar.

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í fundunum í fjarveru utanríkisráðherra. 

Til hliðar við fund Atlantshafsbandalagsins funduðu varnarmálaráðherrar norðurskautsríkjanna, utan Rússlands, auk fulltrúa frá Færeyjum og Grænlandi, um fjölþjóðlega samvinnu á sviði varnar- og öryggismála á norðurslóðum. Sameiginleg yfirlýsing ríkjanna var samþykkt í kjölfar fundarins. Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Þá fór fram ráðherrafundur ríkjahóps um baráttuna við ISIS þar sem rætt var um áframhaldandi aðgerðir til að vinna bug á þeirri ógn sem stafar af hryðjuverkasamtökunum, einkum í Írak og Sýrlandi, Vestur-Afríku og Mið-Asíu. 

Í tengslum við varnarmálaráðherrafundinn undirritaði Ísland viljayfirlýsingu um fjölþjóðlegar aðgerðir til að bæta aðgengi í loftrými bandalagsríkja og viljayfirlýsingu um mögulega þátttöku Íslands í verkefni sem kallast NORTHLINK og er ætlað að byggja upp fjarskipti um gervihnetti á norðurslóðum.

 
  • Til hliðar við fund Atlantshafsbandalagsins funduðu varnarmálaráðherrar norðurskautsríkjanna, utan Rússlands, auk fulltrúa frá Færeyjum og Grænlandi, um fjölþjóðlega samvinnu á sviði varnar- og öryggismála á norðurslóðum. Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sat fundinn fyrir Íslands hönd. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta