Flóttafólki frá Úkraínu leyft að hafa með sér gæludýr
Að fenginni umsögn Matvælastofnunar hefur Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra ákveðið að veita undanþágu frá gildandi banni við innflutningi gæludýra frá Úkraínu að uppfylltum skilyrðum. Ráðuneytið hefur leitað til þeirra einangrunarstöðva sem starfa á landinu og ríkir þar góður vilji til að finna viðeigandi lausnir.
Gert er ráð fyrir að um 1% fólks sem nú flýr stríðið í Úkraínu hafi með sér gæludýr sín á flóttanum. Til að bregðast við þeirri stöðu á mannúðlegan hátt hefur matvælaráðuneytið kannað hvort hægt sé að taka á móti þeim dýrum sem fylgja eigendum sínum til Íslands.
Á fundi yfirdýralækna á Norðurlöndum sem haldinn var nýverið var mælst til að aðildarríki ESB væru sveigjanleg við móttöku gæludýra flóttafólks frá Úkraínu. Í framhaldinu hafa mörg Norðurlandanna veitt undanþágur.
Nokkur skilyrði fyrir undanþágu
Skilyrðin eru sett meðal annars með tilliti til þess að útbreiðsla hundaæðis er talsverð í Úkraínu en hundaæði hefur aldrei greinst á Íslandi. Hundaæði er alvarlegur sjúkdómur bæði fyrir dýr og menn. Afleiðingar þess að hundaæði berist til Íslands væru mjög alvarlegar og ber því að sýna ítrustu varkárni.
Eitt af skilyrðum þessarar undanþágu er að dýr sé flutt beint á einangrunarstöð við komu til landsins og fái strax almenna heilbrigðisskoðun dýralæknis. Ef dýr er ekki örmerkt skal það merkt af dýralækni. Einnig verða óbólusett dýr bólusett gegn hundaæði og mótefni mæld 30 dögum síðar. Ef niðurstöður eru fullnægjandi skal dýr vera áfram í einangrun í 3 mánuði og það jafnframt meðhöndlað gegn innri og ytri sníkjudýrum að lágmarki tvisvar.
„Flóttafólk frá Úkraínu hefur gengið í gegnum ólýsanlegar hörmungar og því er mikilvægt að við tökum á móti þeim á mannúðlegan hátt. Það er ekki á það bætandi að þurfa að skilja við dýrin sín við þessar aðstæður,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra um þessa ákvörðun.