Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2024

Uppfærsla á skipulagi URN

Fréttapóstar vegna breytinga á stofnanaskipulagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru eingöngu sendir á starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess. 

Breytingar voru kynntar nú í vikunni á skipuriti ráðuneytisins og hafa þær þegar tekið gildi. Samkvæmt uppfærðu skipuriti verður áfram unnið að umbótum og samráði, auk þess sem aðlaga þarf ráðuneytið að breyttu umhverfi og sístækkandi verkefnunum fram undan s.s. á sviði náttúruvár, orku- og loftslagsmála.

Breytingarnar fela í sér að:

  • Skrifstofa yfirstjórnar verður að Skrifstofu ráðuneytisstjóra og verður nokkuð smærri í sniðum.
  • Þverlægar skrifstofur í skipuriti ráðuneytisinsverða tvær.
    • Skrifstofa alþjóðamála flyst undan skrifstofu yfirstjórnar og verður þverlæg og sýnilegri í starfi ráðuneytisins.
    • Skrifstofa fjármála og innri þjónustu, sem heldur utan um innri rekstur og vinnu við fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun, verður einnig þverlæg.
  • Skrifstofa eftirfylgni og fjármála verður að Skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni.
  • Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar verður með óbreyttu sniði.

Samhliða breytingum á skrifstofunum skipta skrifstofustjórar og rekstrarstjóri einnig um hlutverk.

  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir verður skrifstofustjóri Skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar
  • Magnús Guðmundsson verður skrifstofustjóri Skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni
  • Ólafur Darri Andrason verður skrifstofustjóri Skrifstofu fjármála og innri þjónustu
  • Hugi Ólafsson verður áfram skrifstofustjóri Skrifstofu alþjóðamála
  • Halla Sigrún Sigurðardóttir verður skrifstofustjóri á Skrifstofu ráðuneytisstjóra, þar sem hún mun m.a. halda utan um þjónustu- og árangursráð og samstarf við stofnanir ráðuneytisins á þeim vettvangi.

 

Áform um samruna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri í samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt áform og frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda um að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði hluti af Háskólanum á Akureyri og var umsagnarfrestur vegna áformanna til 13. febrúar nk.

Stefnt er að því að hin nýja rannsóknastofnun verði vettvangur rannsókna á norðurslóðum með áherslu á þverfagleg mannvísindi og starfi í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Um 10 sérfræðingar starfa í um 6 stöðugildum hjá SVS og er stofnunin með aðalskrifstofur í Borgum á Akureyri auk þess að vera með aðstöðu á Ísafirði og Flateyri.

Í stefnu stjórnvalda í málefnum norðurslóða er lögð áhersla á uppbyggingu miðstöðvar norðurslóða á Akureyri, en þar fer fram ýmis starfsemi sem tengist rannsóknum, vöktun og miðlun þekkingar um norðurslóðir. Má þar m.a. nefna Norðurslóðanet Íslands, sem er samstarfsvettvangur innlendra aðila sem fjalla um norðurslóðir, tvær skrifstofur vinnuhópa Norðurskautsráðsins, The Conservation Arctic Fauna (CAFF) og Protection of the Marine Environment (PAME) og skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC). Með samruna Háskólans og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gefst tækifæri til að skoða og endurmeta samstarfsmöguleika við aðra norðurslóðaaðila á Akureyri, einkum Norðurslóðanetið.

Til að samruninn geti átt sér stað þarf að leggja niður Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og kallar það á brottfall laga um stofnunina og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.

Samruni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri

Mælt fyrir frumvarpi um nýja umhverfis- og orkustofnun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mælti í lok janúar  fyrir frumvarpi til laga um nýja Umhverfis- og orkustofnun. Stofnuninni er ætlað að hafa með höndum stjórnsýslu á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefna sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Gert er ráð fyrir að ný Umhverfis- og orkustofnun vinni að megináherslum um að draga úr losun og auka bindingu kolefnis, að tryggja orku til orkuskipta, orkuöryggi og jafnt aðgengi að orku á landsvísu, sem og eflingu hringrásarhagkerfis og að tryggja sjálfbæra nýtingu og heilnæmt umhverfis fyrir íbúa þessa lands. Ávinningur af samruna þessara verkefna lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu.

Einnig er lögð áhersla á að ný stofnun sinni vandaðri þjónustu með skilvirkum ferlum, skýrri upplýsingamiðlun og góðri ráðgjöf. Verði frumvarpið að lögum mun fjöldi stöðugilda í stofnuninni verða 115.

Frumvarpið felur í sér einfalda og skýra lagaumgjörð með áherslu á málefni nýrrar stofnunar og eðli verkefna. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki við þeim mörgu og fjölbreyttu verkefnum og hlutverkum sem Umhverfisstofnun og Orkustofnun sinna í dag skv. fjölda sérlaga. Má þar nefna löggjöf um verndar- og orkunýtingaráætlun, loftslagsmál, hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs, stjórn vatnamála, raforku, rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, orkusjóð o.fl.

Frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun

Verkefni um aukna skilvirkni leyfisveitinga á sviði umhverfis- og orkumála

Í undirbúningvinnu við innleiðingu á áformuðum stofnanabreytingum hafa nokkur samstarfsverkefni stofnana verið sett af stað og er eitt af þeim mikilvægu verkefnum greining og endurhönnun á leyfisveitingaferlum í umhverfis- og orkumálum og kortlagning á umbótatækifærum sem styðja við breytt stofnanaskipulag. Um er að ræða leyfisveitingar sem er ætlað að heyra undir nýja Umhverfis- og orkustofnun.

Forskoðun var framkvæmd af Expectus þar sem markmiðið var að ná fram heildstæðri mynd af leyfisferlum til að skilja umfangið og skoða umbótatækifæri. Leiðarljósið í þeirri skoðun var aukin skilvirkni með hliðsjón af forgangsröðun og nýtingu á rafrænum lausnum. Skoðunin leiddi í ljós ýmis tækifæri og áskoranir og lagði Expectus til að sett yrði af stað átaksverkefni í leyfisveitingum. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að setja slíkt verkefni af stað og verður því skipt niður í kortlagningu og endurhönnun á ferlum og starfsháttum, endurskoðun regluverks og stafræna þróun og innleiðingu nýrra ferla. Miðar verkefnið að því að auka skilvirkni og skýrleika, fækka flöskuhálsum, stytta afgreiðslutíma og auka gagnsæi og markvissa upplýsingamiðlun í tengslum við leyfisveitingar.

Verkefnið er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar og mun ráðuneytið stýra verkefninu. Sigurður Hjalti Kristjánsson, ráðgjafi hjá Intenta, hefur þá verið ráðinn til að aðstoða við átaksverkefnið. Um er að ræða viðamikið verkefni sem gert er ráð fyrir að verði unnið á þessu ári og fram í næsta ár.

Annað

Spurningum og ábendingum starfsmanna um stofnanabreytingarnar sem óskað er eftir að koma á framfæri skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnananna, sem eru í góðu sambandi við ráðuneytið. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar beint til mannauðsstjóra ráðuneytisins [email protected], sem safnar þeim saman og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks. 

Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta