Hoppa yfir valmynd
8. desember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland getur deilt þekkingu sinni á orkumálum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpar gesti.  - mynd

Ísland býr yfir mikilli þekkingu á sviði orkumála sem það getur deilt með ríkjum Evrópu. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ávarpi á viðburði um orkumál og orkuskipti sem haldinn var í Brussel í tengslum við  formennsku Íslands í samstarfi EFTA-ríkja.

Viðburðurinn „EnergySteps towards the Green Transition“ var haldinn í samstarfi við Noreg og Liechtenstein, og var umfjöllunarefnið græn orkuskipti og innleiðing umhverfisvænna og orkusparandi leiða.

Í máli sínu fjallaði Guðlaugur Þór m.a. um orkukreppuna sem Evrópa stendur nú frammi fyrir og gjörólíka stöðu Íslands í þeim efnum, sem hann sagði ekki hvað síst mega þakka þeim orkuskiptum sem íslensk stjórnvöld fóru í á síðustu öldOrkuskiptum sem hafi verið umdeild á sínum tíma, en sem enginn efist um í dag.

Sagði Guðlaugur Þór að þrátt fyrir að staða Íslands sé um margt góð þá séu grænu orkuskiptin fram undan risavaxið verkefni. Íslendingar hafi sofnað á verðinum í orkumálum og metnaðarfull markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 verði stór áskorun. „Útreikningar okkar sýna að það þarf að nær tvöfalda framleiðslu á endurnýjanlegrar orku,“ sagði Guðlaugur Þór. Framkvæmdaferlið sé lengri en tíminn leyfi og því sé þörf á að gera breytingar á leyfisveitingaferlinu. „Ferlið þarf að vera einfaldara, skilvirkara og hraðvirkara svo hraða megi orkuskiptunum og sú vinna er í gangi núna.“

Ráðherra sagði Ísland búa yfir mikilli þekkingu og reynslu sem deila megi með Evrópu, til að  mynda varðandi jarðhita. Hann sé að finna í fleiri Evrópuríkjum en Íslandi og hann hafi Evrópuþjóðir möguleika á að nýta mun betur en gert er í dag og auka þannig orkuöryggi sitt. „Það er okkar sameiginlega markmið að vinna gegn loftslagsbreytingum og bæta orkuöryggi. Við þá vinnu þurfum við að nýta allar gerðir endurnýjanlegrar og hreinnar orku og jarðhiti er hluti lausnarinnar í báðum málum,“ sagði Guðlaugur Þór.

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel ásamt gestum á viðburði um orkumál og orkuskipti.  - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta