Hoppa yfir valmynd
13. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Erindi frá Reykjavíkurakademíunni á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar 11. júní 2005

Ráðstefna stjórnarskrárnefndar
11. júní 2005

ReykjavíkurAkademían
Birgir Hermannsson

Ég vil fyrir hönd ReykajavíkurAkademíunnar fagna þessum fundi og láta í ljósi þá ósk að hér sé upphafið að víðtæku samstarfi stjórnarskrárnefndar við félagasamtök og einstaklinga um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þær hremmingar sem stjórnarskrá Evrópusambandsins hefur gengið í gegn um á síðustu vikum ætti að vera stjórnarskrárnefndinni hvatning til að opna endurskoðunarferlið sem mest og leita víðtæks samráðs um niðurstöðuna. Akademían mun gera sitt til að stuðla að umræðum um stjórnarskrána og vill gjarnan eiga gott samráð um það við stjórnarskrárnefnd. Í haust mun Akademían því í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga standa fyrir umræðufundum um stjórnarskrána. Markmið mitt hér í dag er fyrst og fremst að hvetja til umræðu um nokkrar spurningar sem mikilvægt er að ræða með skipulegum hætti.

Yfirskrift þessarar málstofu er Lýðræði á upplýsingaöld, en þessi nafngift hefur valdið nokkurri kátínu meðal sagnfræðinga sem telja upplýsingaöld enda ekki síðar en 1830. Það sem við er átt er auðvitað lýðræði í upplýsingasamfélagi, en slíkt samfélag einkennist ekki síst af mikill almennri menntun, greiðum aðgangi að upplýsingum af hvað toga sem er og nýrri tegund samskipta. Það sem hangir á spýtunni hér er hvort hefðbundin fulltrúastjórnmál, sem eiga rætur sínar í hinni eiginlegu upplýsingaöld, eigi við í upplýsingasamfélaginu. Rétt er þó að vara við of mikilli tæknihyggju í þessu efni, enda er spurningin um fulltrúalýðræði og beint lýðræði óháð tæknistigi. Mekka upplýsingasamfélagsins er líklega Kalífornía, en réttur íbúa ríkisins til almennrar atkvæðagreiðslu um mál voru bundin í stjórnarskrá Kaliforníu löngu fyrir daga tölvutækninnar. Sama má segja um Sviss.

Við getum þó sagt að í upplýsingasamfélaginu hafi vægi einstaklinga og frjálsra félagsamtaka vaxið og kröfurnar um samráð og beina þátttöku í ákvarðanatöku tekið á sig nýja mynd. Stjórnmálaflokkar og kjörnir fulltrúar munu áfram gegna lykilhlutverki, en vandinn er að finna leiðir fyrir aðra aðila að taka þátt. Það má því segja að hér hangi saman sá ferill að skrifa stjórnarskrána og innihaldið að starfinu loknu. Munu einstaklingar og frjáls félagasamtök hafa sitt að segja við vinnuna og hvaða réttur verður þeim tryggður í stjórnarskrá til aðkomu við sameiginlegar ákvarðanir? Stjórnarskrárnefndin mun væntanlega huga vel að hagsmunum stjórnmálaflokkanna og kjörinna fulltrúa, en hver verður réttur hinna? Hver stendur vörð um þá? Það er ljóst að ekki þarf að leggja breytingar á stjórnarskránni í þjóðaratkvæði, en ég vil varpa þeirri spurningu fram hvort slíkt væri ekki samt sem áður æskilegt. Hefur þessi möguleiki verið ræddur? Er stjórnarakrárnefndin tilbúinn til að leggja slíkt til?

Lögbundið samráð stjórnvalda við einstaklinga og félagasamtök geta verið með ýmsu móti, eins og þekkt er í skipulags- og umhverfismálum. Skyldu stjórnvalda til samráðs af þessu taginu þarf að festa í stjórnarskrá. En samráð er ekki sama og ákvörðun. Í því samhengi er helst litið til þjóðaratkvæðagreiðslu eða almennrar atkvæðagreiðslu, t.d. í sveitarfélagi. Hér vakna nokkrar spurningar:

  • Í fyrsta lagi: Hver getur boðað til slíkrar atkvæðagreiðslu?
  • Í öðru lagi: Hver getur verið höfundur þeirra tillagna sem greitt er atkvæði um?
  • Í þriðja lagi: Eru niðurstöður kosningarinnar bindandi eða ráðgefandi?

Mest hefur verið rætt um fyrstu spurninguna, en hinar eru ekki síður mikilvægar. Á að binda rétt almennings til að greiða atkvæði um mál sem koma frá hinum formlegu stofnunum hins opinbera, eða á að veita frjálsum félögum beinan tillögurétt? Hér er spurningin ekki um það hvort kjósendur eigi að fá að hafa síðasta orðið um löggjöf, heldur ekki síður hvort þeir mega eiga fyrsta orðið, ef svo má að orði komast. Eiga kjósendur að vera löggjafinn í almennri atkvæðagreiðslu, eða einungis til ráðgjafar við löggjafarþingið?

Hvað á að endurskoða? Við viljum ekki leggja okkur í deilur stjórnmálamanna um þetta efni, en bendum á að þegar opnað er fyrir lýðræðislegt samráð af þessu taginu verða menn að vera opnir fyrir því að þeir sem skoðanir hafa vilji ræða annað en það sem lagt var upp með. Því er stundum haldið fram að stutt sé síðan sumir kaflar stjórnarskrárinnar hafi verið endurskoðaðir og því sé rétt að einbeita sér að því sem úrelt er og brýnt sé að endurskoða. Hér gleymist þó eitt mikilvægt atriði: kaflinn um kjördæmaskipun og kosningar hefur verið endurskoðaður oft og varla er mikil ánægja með hann fyrir því. Kannski eru stjórnmálamenn ánægðir með niðurstöðuna, en ég vil efast um að það gildi um kjósendur almennt. Við endurskoðun á stjórnarskránni verður því að fara fram umræða um þetta mál, hver svo sem niðurstaðan verður. Í þessu samhengi vil ég því spyrja stjórnarskrárnefndina beint hvort að hún sé tilbúinn til að láta gera vandaða skoðanakönnun um skoðanir almennings á einstökum álitamálum í þessu efni, t.d. því hvort endurskoða eigi kjördæmaskipunina og hverju kjósendur vilja breyta í þessu efni. Í slíkri könnun mætti einnig spyrja um ýmis önnur álitaefni, t.d. viðhorf kjósenda til þjóðaratkvæðagreiðslna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta