Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Flugmálastjórn ítrekar tilboð um breytt vaktakerfi

Í framhaldi af dómi Félagsdóms þar sem ríkið var sýknað af kröfu Félags íslenskra flugumferðarstjóra þess efnis að hverfa frá nýju vaktkerfi til eldra kerfis í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík hefur áfram verið reynt að leita leiða til að ná sáttum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur hvatt deiluaðila til þess að reyna að ná sátt í málinu.

Fulltrúar Flugmálastjórnar og stjórnar Félags ísl. flugumferðarstjóra hittust þriðjudaginn 11. júlí þar sem fulltrúar Flugmálastjórnar kynntu breytingar á nýja kerfinu þar sem leitast var við að koma til móts við óskir flugumferðarstjóra. Stjórn stéttarfélagsins hafnaði því og óskar eftir að eldra kerfi verði tekið upp á ný.

Forsaga málsins er sú að í tengslum við gerð nýs kjarasamnings í júlí 2005 var ráðgert að taka upp nýtt vaktakerfi í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík, flugturninum á Keflavíkurflugvelli og flugturninum á Reykjavíkurflugvelli. Ágreiningur reis um túlkun samkomulags frá 8. september um bókanir sem tilheyrðu kjarasamningnum. Tilkynning um vaktkerfisbreytingu sem taka skyldi gildi 1. janúar 2006 var send út í september og í desember var send út vaktskrá í samræmi við hið nýja kerfi. Þessu mótmælti félagsfundur Félags ísl. flugumferðarstjóra og var skorað á flugmálastjóra og flugvallarstjóra í Keflavík að hverfa frá breytingunum þar sem þær væru í andstöðu við kjarasamning aðila. Í dómi Félagsdóms kemur fram að engar breytingar hafi verið gerðar á vaktakerfinu á Keflavíkurflugvelli, samkomulag hafi náðst um breytingar í flugturninum í Reykjavík en ekki í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Flugmálastjórn ákvað að nýtt vaktakerfi yrði tekið upp í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík 16. mars síðastliðinn. Þreifingar fóru fram milli málsaðila um að leysa ágreining en þar sem það bar ekki árangur taldi Félag ísl. flugumferðarstjóra óhjákvæmilegt að efna til málsóknar.

Nýja vaktakerfið gerir ráð fyrir vinnu í þrjá daga og síðan þriggja daga fríi. Einnig sex tíma vakt á 12 daga fresti. Þetta þýðir að meðaltali 4,08 vaktir á viku.

Meðal atriða sem flugumferðarstjórar hafa gagnrýnt er að svonefndar innkomur eða vaktir í viku hverri séu fleiri í nýja kerfinu en því gamla. Þær voru 3,73 að meðtalinni bakvakt á 30 daga fresti en í nýja kerfinu eru vaktirnar 4,08 á viku eins og áður segir.

Tillaga Flugmálastjórnar á fundinum 11. júlí var sú að áfram yrði unnið í þrjá daga og frí í þrjá á 9,5 til 11 tíma vöktum auk sex tíma viðbótarvaktar sem kæmi á 25 daga fresti að meðaltali og félli hún á helgi myndi slík vakt falla niður. Þetta þýðir að meðaltali 3,78 vaktir á viku.

Samgönguráðherra ítrekar þá skoðun sína að málsaðilar nái sáttum um fyrirkomulag á vaktakerfum sem báðir aðilar geti unað við til frambúðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta