Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Margir hafa lagt orð í belg

Eins og kunnugt er var nýlega opnað fyrir viðbrögð á vef samgönguráðuneytisins varðandi mál sem þar eru til umfjöllunar. Var fyrst leitað álits á því hvort hækka beri ökuleyfisaldur úr 17 árum í 18. Allmörg svör hafa borist og þakkar ráðuneytið viðbrögðin.

Skoðanir eru skiptar á þessari hugmynd og telja menn ýmist eðlilegt að hækka aldurinn eða að betra sé að hafa hann óbreyttan og takmarka fremur akstur yngstu ökumannanna og herða eftirlit og refsingar við hugsanlegum brotum þeirra. Hér eru tilfærðar örfáar setningar úr nokkrum bréfanna:

,,Ökumenn á þessum aldri (17 ára) eru ekki í stakk búnir til að takast á við umferðina eins og hún gengur fyrir sig á íslenskum vegum, ósjaldan er talað um hina vanþróuðu umferðarmenningu okkar og þarf vafalítið betri undirbúning fyrir bílprófið og því upplagt að nota 18. árið í þann undirbúning.”

Annar bréfritari segir meðal annars: ,,Það sem mér þætti koma betur til greina er að takmarka þá bíla sem ungir ökumenn mega eiga við minna en ákveðið mörg hestöfl, t.d. 100 hestöfl. Þannig mætti koma í veg fyrir hluta af hraðakstri vegna ,,sportökumennsku” án þess að takmarka möguleika unglinga til að komast frá A til B.”

Þá leggur einn bréfritara til að lengja æfingaaksturstímann og að færa hluta ökukennslunnar inní grunnskólann. Annar bendir á að til að minnka álag og þörf á sífelldum snúningum og bílaeign unglinga þurfi strætisvagnasamgöngur að vera mjög greiðar við alla framhaldsskóla.

Enn einn rekur atvik úr eigin lífi þar sem ungur ökumaður var valdur að slysi: ,,Ég hefði gjarnan viljað sjá að honum hefði verið hlíft við að komast í þessa aðstöðu þar til hann var orðinn fullorðinn.” Telur hann að hækka eigi aldurinn í 18 ár, leyfa börnunum að vera börn en ekki leggja á þau þá ábyrgð sem aksturinn krefst.

Þá nefna sumir að með því að hækka aldurinn myndi ökumönnum landsins fækka um nokkur þúsund og þar með umferðarálagið léttast. Geta má þess að á síðasta ári stóðust 4.847 manns ökupróf og eru þar á ferð bæði nýliðar og þeir sem þurft hafa að taka próf á ný eftir að hafa verið án réttinda í meira en 12 mánuði.

Minna má á að unnt er til ágústloka að lýsa áliti sínu á málinu í töluvpósti til ráðuneytisins: [email protected].



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta