Fréttamolar á föstudegi
Hér fara á eftir stuttfréttir um mat á árangri einkavæðingar, um tíð umferðarlagabrot og um áhuga á fyrirhuguðu forvali vegna útboðs á þéttingu gsm-farsímanetsins.
Árangur einkavæðingar metinn
Meta á framkvæmd og árangur einkavæðingar skipaskoðunar en frá árinu 2004 hefur gilt reglugerð sem heimilar Siglingastofnun að fela öðrum að framkvæma skoðun skipa og gefa út starfsleyfi til handa slíkum skoðunarstofum. Hafa skoðunarstofur fengið fullgildingu á grundvelli reglugerðar nr. 94/2004. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir árangur af einkavæðingu skipaskoðunar með það að markmiði að einfalda framkvæmdina og gera hana enn öruggari og skilvísari. Formaður starfshópsins er Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Aðrir í starfshópnum eru: Pétur Reimarsson, samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, Jóhann Ólafsson, samkvæmt tilnefningu Neytendastofu, Geir Þór Geirsson, samkvæmt tilnefningu Siglingastofnunar Íslands, Guðfinnur G. Johnsen, samkvæmt tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna, og Örn Pálsson, samkvæmt tilnefningu Landssambands smábátaeigenda. Með hópnum starfar Svana Margrét Davíðsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu.
Flest brot vegna hraðaksturs
Langflest umferðarlagabrot landsmanna eru vegna hraðaksturs. Samkvæmt töflu í skýrslu samgönguráðherra um stöðu umferðaröryggismála hefur hlutfall hraðakstursbrota í heildarfjölda umferðarlagabrota farið hækkandi síðustu ár. Þannig voru umferðarlagabrot árið 1999 rúmlega 43.900 og af þeim voru hraðakstursbrot 18.748. Árið 2001 var heildarfjöldi brota nærri 43 þúsund og hraðakstursbrotin 23.586 og árið 2004 hafði heildarfjölda brota fækkað í 35.719 en þá voru hraðakstursbrotin 23.269.
Erlendir og innlendir aðilar sýna gsm-forvali áhuga
Bæði innlendir og erlendir aðilar hafa sótt forvalsgögn vegna kynningar á útboði varðandi þéttingu gsm farsímanetsins á hringveginum og fimm fjallvegum á þjóðvegakerfinu. Þeir sem vilja koma til greina sem tilboðsgjafar í verkefninu verða að hafa skilað ákveðnum upplýsingum til Ríkiskaupa fyrir lok ágústmánaðar. Eftir það fer fram val á verktökum fyrir lokað útboð. Gera má ráð fyrir að framkvæmdir við verkið geti hafist á næsta ári.