Öryggi og friður samfélaga á landamærum Malaví og Mósambík
Fulltrúar sendiráðs Íslands í Malaví voru viðstaddir athöfn í Mangochi héraði á dögunum þegar verkefni sem ætlað er að stuðla að friðsamlegum samfélögum á landamærum Malaví og Mósambík var ýtt úr vör. Sendiráð Íslands og Írlands í Malaví styrkja verkefnið fjárhagslega en það er unnið í samráði við héraðsyfirvöld Mangochi og stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Timothy Mtambo, ráðherra þjóðareiningar og friðar, var heiðursgestur viðburðarins.
Malaví og Mósambík deila 1.750km löngum landamærum sem lítið eftirlit er með. Að mati sérfræðinga er hætta á því að átök í norðurhluta Mósambík leiði til aukins óstöðuleika í nágrannahéruðunum í Malaví vegna aukinna flutninga yfir landamærin og bágu efnahagsástandi. Ráðherrann fagnaði verkefninu og ítrekaði að þótt Malaví væri friðsamt ríki væri vaxandi spenna og átök innan samfélaga áhyggjuefni sem bæri að fyrirbyggja og leysa.
Til að draga úr líkum á átökum vegur einna þyngst að efla grunnþjónustu og auka efnahagsleg tækifæri íbúa á landamæraþorpum. Þetta hefur Ísland gert í gegnum héraðsþróunarverkefnin í Mangochi með umfangsmiklum verkefnum á sviði uppbyggingar heilsuinnviða, bættu aðgengi að vatni og grunnskólanámi, efnahagslegri valdeflingu kvenna og ungmenna og stuðningi við héraðsskrifstofuna.
Til þess að auka viðnám í þorpum hefur Ísland stutt margvísleg verkefni í Makanjira sem er fátækt afskekkt svæði við landamæri Mósambík. „Stuðningur Íslands við þorp í Makanjira nemur um tveimur milljónum Bandaríkjadala og veitir heildstæða aðstoð við fátækt fólk, efnahagsleg tækifæri og aðgengi að grunnþjónustu. Við vitum að fátækt og atvinnuleysi ungs fólks er drifkraftur átaka,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe.
Verkefnið byggir á grunni laga um frið og samheldni (Peace and Unity Bill) sem var samþykkt í mars. Lögin fela í sér að færa sveitarfélögum/samfélögum tæki og tól sem geri þeim kleift að bera kennsl á, fyrirbyggja og leysa átök innan og milli hópa. Stuðst verður við landsáætlun um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi sem samþykkt var í fyrra. Aðgerðarætlun Malaví var unnin af skrifstofu forseta Malaví með tæknilegri aðstoð UN Women og fjárhagslegri aðstoð Íslands.