Ungir jafnaðarmenn - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar
Góðan dag
Hér er umsögn Ungra jafnaðarmanna vegna áfagaskýrslu stjórnarskrárnefndar.
Með kveðju
Stefán Rafn Sigurbjörnsson
Formaður Ungra jafnaðarmanna
Reykjavík
29.09.2014
Efni: Umsögn Ungra jafnaðarmanna vegna 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar
Stjórnarskrárnefnd sú er skipuð var af forsætisráðherra 6. nóvember 2013, hefur nú skilað af sér 1. áfangaskýrslu og óskað eftir athugasemdum við skýrsluna. Ungir jafnaðarmenn minna stjórnarskrárnefndina á að sú athugasemd sem mestu máli skiptir í þessu tilviki hefur nú þegar borist, og barst raunar áður en að nefndin var skipuð. Er hér átt við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012, þar sem nærri 2/3 kjósenda greiddu atkvæði með því að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.
Tillögur Stjórnlagaráðs voru afrakstur lýðræðislegs ferils þúsund manna þjóðfunda og margra mánaða starfs Stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráð vann að tillögum sínum á opnum fundum og fékk umsagnir og athugasemdir þúsunda aðila, bæði lærðra og leikna. Stjórnarskrárnefndinni ber því lýðræðisleg skylda til að vinna fyrst og fremst með tillögur Stjórnlagaráðs, sem samþykktar voru með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðaði til.
*Ungir jafnaðarmenn er nafn ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar og var hreyfingin stofnuð 11. mars 2000. Ungir jafnaðarmenn aðhyllast lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu, fyllstu mannréttindum og félagslegu réttlæti. Þessi umsögn var samþykkt af miðstjórn og framkvæmdastjórn hreyfingarinnar þann 29. september 2014.