Jenný Stefanía Jensdóttir - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar
Undirrituð hefur lesið áfangaskýrslu nefndarinnar, og sér til furðu séð að öllum nefndarmönnum er kunnugt um að það fór fram kosning um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs 20.október 2012, þar sem kjósendur tjáðu skoðun sína með lýðræðislegum hætti á helstu atriðum í nýrri stjórnarskrá.
Þrátt fyrir það má lesa spurningar og vangaveltur um lagatæknileg efni og skilgreiningar í nýrri áfangaskýrslu um mál, sem íslenskir kjósendur hafa tjáð hug sinn með afgerandi hætti.
Það er ófrávíkjanleg skoðun mín, að ný stjórnarskrá, skrifuð af kjörnum fulltrúum fólksins, fyrir fólkið, yrði sá grundvallarplanki, sem almenningur myndi sættast við að spyrna sér af og upp úr neikvæðni, vonleysi og vantrausti gagnvart stjórnvöldum, sem einkennt hefur íslenskt þjóðfélag s.l. 6 ár.
Núverandi stjórnvöld virðast staðráðin í að hundsa með ósvífnum hætti, þessa vinnu og þennan skýra vilja sem úrslit kosninganna 20.október endurspegluðu.
Svo virðist sem stjórnarskrárnefnd ætli sér að taka upp fyrri vinnubrögð sambærilegra nefnda s.l. 70 ár, með engum eða mjög litlum árangri.
Á meðan er lítil von til þess að sátt náist um grundvallaratriði.
Ég fer því fram á að niðurstöður kosninga 20.október s.l. verði lagðar til grundvallar án frekari málþófs eða málalenginga
Með vinsemd og virðingu
Jenný Stefanía Jensdóttir