Forsætisráðherra í heimsókn í Kvennaathvarfið
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Kvennaathvarfið í dag og fékk kynningu á starfsemi þess. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, tók á móti forsætisráðherra og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, skrifstofustjóra jafnréttismála, sýndi þeim húsnæðið og fór yfir þær úrbætur sem ráðist verður í á komandi mánuðum.
Þær ræddu þá vitundarvakningu í tengslum við heimilisofbeldi sem hefur átt sér stað vegna COVID-19 heimsfaraldursins, mikilvægi þess að vinna markvisst að málefnum barna sem verða fyrir heimilisofbeldi og þau úrræði sem eru í boði fyrir gerendur. Þá fór Sigþrúður yfir framtíðaráætlanir Kvennaathvarfsins sem snýr að aukinni þjónustu við konur á landsbyggðinni, konur með fötlun, konur í neyslu og börn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Kvennaathvarfið er ákaflega mikilvægt skjól fyrir konur og börn sem beitt eru ofbeldi á heimilum sínum. Vísbendingar um aukið heimilisofbeldi í tengslum við COVID-19 segja okkur að við þurfum að gefa í hvað varðar forvarnir og fræðslu því aðeins þannig upprætum við ofbeldið.“