Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins styrkt um 350 milljónir króna
Fjárlaganefnd Alþingis leggur til, í samræmi við tillögu heilbrigðisráðherra sem kynnt var á fundi ríkisstjórnar í gær, að 350 milljónir króna verði veittar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins af fjáraukalögum þessa árs til undirbúnings á nýju greiðsluþátttökukerfi. Gert er ráð fyrir að í tengslum við nýtt kerfi verði fjölgað störfum í heilsugæslunni, einkum læknum og hjúkrunarfræðingum.
Alþingi samþykkti í byrjun júní síðastliðnum frumvarp heilbrigðisráðherra um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu. Lögin koma til framkvæmda 1. febrúar á næsta ári. Við umfjöllun velferðarnefndar Alþingis um lagabreytinguna var það samdóma álit heilbrigðisráðherra og nefndarmanna að nauðsynlegt væri að undirbúa heilsugæsluna fyrir breytingarnar vegna aukinna verkefna sem þeim fylgja með auknu fjármagni, strax á þessu ári.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir mikið ánægjuefni að fjárlaganefnd hafi nú tekið þessa ákvörðun: „Það er einlægur vilji minn að gera heilsugæsluna í stakk búna til að verða fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu, líkt og svo lengi hefur verið rætt um. Þetta er mikilvægt skref í þá átt og gerir meðal annars mögulegt að bæta mönnunina í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, líkt og ljóst var að þyrfti í tengslum við breytingarnar.“
Í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa verði aukin um tæplega 4,6 milljarða króna að raunvirði frá árinu 2016 sem nemur rúmlega 12% raunvexti og felst í því nokkurt svigrúm til að efla heilsugæsluna.