Innanríkisráðherra segir mikilvægt að koma á millidómstigi
Árlegur lagadagur Lögfræðingafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands er haldinn í dag og eru fjölmörg umræðuefni í málstofum dagsins. Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp í málstofu um efnið framtíðarskipan dómsvalds þar sem Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari flutti framsögu.
Þátttakendur í umræðum um efnið voru Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari, Jónas Þór Guðmundsson, hrl. og formaður Lögmannafélags Íslands og Skúli Magnússon, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands. Umræðum stýrði Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Á myndinni eru frá vinstri: Skúli Magnússon, Jónas Þór Guðmundsson, Eiríkur Tómasson og Hervör Þorvaldsdóttir.
Innanríkisráðherra sagði það skoðun sína að það væri eitt allra mikilvægasta verkefni sitt að koma á fót nýju dómsstigi, svonefndu millidómstigi. Minnti ráðherra á að mikilvægt væri að tryggja að stoðir réttarkerfisins væru traustar og væri það megin markmið þeirra breytinga sem unnið væri að. ,,Fyrir liggja vandaðar greiningar á núverandi fyrirkomulagi og kostum þess og göllum og tillögur að úrbótum. Þá liggja fyrir tillögur að frumvörpum að nýjum dómstólalögum og breytingum á gildandi lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, sem unnin voru af nefnd sem skipuð var af innanríkisráðherra haustið 2013. Tillögurnar og umsögn réttarfarsnefndar um þær eru nú í umsagnarferli,“ sagði ráðherra.
Veikleikar í núverandi kerfi
Ráðherra sagði marga kosti við núverandi dómstig; það væri einfalt og hagkvæmt. Væri horft á kostnaðinn á hvern íbúa hér á landi væri hann aðeins um helmingur þess sem hann næmi á hinum Norðurlöndunum en öll hafi þau þriggja þrepa kerfi þótt í mismunandi mynd séu. Ráðherra sagði kerfið einnig skilvirkt og að brugðist hafi verið við auknu álagi með tímabundinni fjölgun dómara bæði í héraði og Hæstarétti og sagðist ráðherra efast um að álagið væri í raun tímabundið. Síðan sagði ráðherra:
,,Þótt kerfið sem við höfum í dag sé gott hefur verið bent á ákveðna veikleika sem nauðsynlegt sé að bæta úr. Þar standa að mínu mati nokkur atriði upp úr. Í fyrsta lagi hvort slakað sé um of á meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í öðru lagi hvort Hæstiréttur geti við núverandi aðstæður fullnægt því hlutverki sínu að vera fordæmisgefandi dómstóll, með öllu því álagi sem á réttinum er, og í þriðja lagi hvort tilefni sé til að styrkja stjórnsýslu dómstólanna.“
Styrkja þarf stjórnsýslu dómstóla
Innanríkisráðherra sagði blasa við að með nýju dómstigi væri brýnna en ella að styrkja stjórnsýslu dómstóla. ,,Eftir að hafa kynnt mér málið vel er ég þeirrar skoðunar að rétt sé í ljósi þess ávinnings fyrir réttarkerfið sem hlýst af að koma á millidómstigi í einkamálum og sakamálum, og styrkja samhliða stjórnsýslu dómstólanna. Með nýju dómstigi verður kerfið vissulega umfangsmeira en núverandi kerfi og kostnaður mun verða meiri. Þá má búast við því að málsmeðferðartími í þeim málum sem leyst verður úr á þremur dómstigum lengist. Sjónarmið um skilvirkni og hagkvæmni mega hins vegar ekki vega þyngra en sjónarmið um gæði og réttaröryggi. Mikilvægt er að halda í kosti gildandi kerfis eins og hægt er og huga sérstaklega að málsmeðferðartíma í því sambandi.“
Undir lok ávarpsins sagði ráðherra að nú væri komið að því að fullvinna tillögur að nýrri skipan dómstólanna og stjórnsýslu þeirra. ,,Mörgum kann að þykja að vinnan hafi gengið hægt og að nú verði að taka til hendinni. Það er að vissu leyti rétt. Ég hef þó mikinn skilning á því að fram komnar hugmyndir um útfærslu á millidómstigi þurfi að þroskast og er mjög mikilvægt að fá fram athugasemdir frá þeim sem gerst þekkja dómskerfið. Það verður einfaldlega að gefa þessu verkefni þann tíma sem þarf til að það megi vinna vel. Það er mikið í húfi að vel takist til.“