Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 23/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 23/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110059

>

Kæra […]

og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. nóvember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2022 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barns hennar, […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að umsóknir hennar og barns hennar verði teknar til efnismeðferðar aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og til vara á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 11. maí 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Hinn 2. júní 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 16. júní 2022, kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi 14. janúar 2021 og væri með gilt dvalarleyfi í Grikklandi til 13. janúar 2024. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. 26. september 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 10. nóvember 2022 að taka umsóknir kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 17. nóvember 2022 og kærði hún ákvarðanirnar 22. nóvember 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 7. desember 2022 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn 3. og 17. janúar 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hennar og barns hennar um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda og barns hennar til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi og barn hennar hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda og barns hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda og barni hennar var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Grikklands.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldri sínu til Grikklands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til viðtals hennar hjá Útlendingastofnun og greinargerðar til Útlendingastofnunar í tengslum við málavexti og frekari rökstuðning. Kærandi vísar til þingsályktunartillögu sem lögð hafi verið fram á löggjafarþingi 2019-2020 um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands. Þá vísar kærandi til skýrslu Rauða kross Íslands frá apríl 2022 um aðstæður flóttafólks í Grikklandi. Kærandi telur að hún og A séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Vegna aðstæðna kæranda og barns hennar í Grikklandi, feli endursending þeirra þangað í sér brot gegn meginreglu þjóðaréttar, um að óheimilt sé að senda fólk þangað sem líf þess og frelsi sé í hættu, sbr. 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna frá 1951, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta gegn 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærandi vísar til þess að A hafi aldrei lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Grikklandi né fengið þar alþjóðlega vernd enda hafi hann aldrei komið þangað, þar sem hann hafi fæðst á Íslandi og átt óslitna búsetu hér á landi frá fæðingu. Kærandi telur að það sé brot gegn 102. gr. laga um útlendinga að vísa barni úr landi sem hefur fæðst hér á landi og átt hér óslitna búsetu. Það sé jafnframt brot á mannréttindum A að mismuna honum á grundvelli stöðu móður sinnar en samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé óheimilt að mismuna börnum á grundvelli stöðu foreldra þeirra. Útlendingastofnun beri að taka umsókn A til efnismeðferðar hér á landi þar sem hann hafi ekki sótt um vernd í öðru landi en á Íslandi. Kærandi byggir á því að það sé A fyrir bestu að umsóknir þeirra verði teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi vísar til 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að við mat skv. 1. og 2 mgr. ákvæðisins skuli hafa að leiðarljósi það sem sé barni fyrir bestu. Það hafi ekki verið gert í máli kæranda enda sé það ekki barninu fyrir bestu að vera sent til Grikklands þar sem það hafi ekki sótt um alþjóðlega vernd. Þá vísar kærandi til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kærandi bendir á að við ákvörðun um efnismeðferð þurfi að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður þeirra og afleiðingar sem endursending geti haft í för með sér, líkamlegar og andlegar. Við ákvörðun beri að hafa meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að leiðarljósi. Í ljósi einstaklingsbundinna aðstæðna þeirra beri að taka málin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda og barns hennar

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæð kona sem er stödd hér á landi ásamt barni sínu sem fæddist hér á landi […]. Við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að hafa lagt á flótta frá heimaríki árið 2019 vegna ótta við fjölskyldu sína. Kærandi hafi farið til Grikklands sumarið 2020 og hlotið alþjóðlega vernd þar í landi 14. janúar 2021. Kærandi hafi dvalið þar þangað til hún kom hingað til lands 11. maí 2022 barnshafandi og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún ætti eiginmann sem væri staddur í Úganda og þriggja ára dóttur sem væri stödd í heimaríki kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi í heimaríki og í Grikklandi. Kærandi greindi frá því að hún hafi sofið í tjaldi í Grikklandi og að hún hafi ekki verið með leyfi til að stunda atvinnu í landinu. Kærandi hafi ekki verið með almannatrygginganúmer í Grikklandi þar sem hún hafi ekki getað greitt fyrir það og ekki með skattnúmer. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa ekki verið með aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá hafi kærandi ekki sótt um félagslega aðstoð þar sem erfitt hafi verið að nálgast hana.

Réttarstaða barns kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málanna, þ. á m. viðtöl kæranda hjá Útlendingastofnun. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið A er í fylgd móður sinnar og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Reglur stjórnsýsluréttar

Kærunefnd leggur áherslu á að viðtöl við umsækjendur eru ein mikilvægasta aðgerð stjórnvalda við rannsókn umsókna um alþjóðlega vernd. Kröfur til viðtala verður að meta með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og geta því verið misjafnar eftir því á hvaða atvik reynir hverju sinni. Í 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga kemur fram að viðtali skuli hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geti haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í slíku viðtali skuli Útlendingastofnun gæta að því hvort taka þurfi sérstakt tillit til umsækjanda vegna persónulegra aðstæðna hans. Þannig getur verið misjafnt hvort það hafi þýðingu fyrir niðurstöðu máls að fá fram t.d. nánari upplýsingar um fjölskyldumeðlimi eða skýra tímalínu fyrir röð þeirra atburða sem umsækjandi ber fyrir sig. Almennt telur kærunefnd þó að slíkar upplýsingar séu mikilvægar og að í viðtölum skuli leitast við að fá þær fram t.d. með því að fylgja eftir upplýsingum sem koma fram í viðtali eða öðrum gögnum máls. Þá er það jafnframt mat kærunefndar að við afgreiðslu mála þar sem reynir á bestu hagsmuni barna, sérstaklega ómálga barna, verði að gera nokkuð ríkari kröfur til þess að viðtöl við foreldra eða forráðamenn upplýsi aðstæður þeirra eins vel og unnt er.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar fóru fram tvö viðtöl við kæranda, móður A. Í fyrra skiptið 20. júlí 2022 á þeim grundvelli að mál kæranda yrði afgreitt efnislega og var kærandi þá spurð um ástæður flótta frá heimaríki sínu. Seinna viðtalið fór fram 26. september 2022 og var þá spurt um aðstæður kæranda í Grikklandi. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi í Grikklandi. Hún hafi verið lamin og tennur hennar verið skemmdar. Þá greindi kærandi frá því að hafa sofið í tjaldi allan þann tíma sem hún hafi verið búsett þar í landi. Þá greindi kærandi frá því að hún væri ekki með almannatrygginga- eða skattnúmer í Grikklandi. Kærandi var ekki spurð frekar út í hver hafi beitt hana ofbeldi, hver væri faðir barnsins sem hún gengi með eða hvernig sambandi þeirra væri háttað. Af samlestri viðtalanna má ráða að eiginmanni kæranda hafi verið vísað til Sómalíu frá Grikklandi en ekki liggur fyrir hvenær það á að hafa átt sér stað og ekki verður séð að kærandi hafi verið spurð nánar út í það í viðtölunum hvernig staðið hafi á því að eiginmanni kæranda hafi verið vísað frá Grikklandi. Í ljósi viðkvæmrar stöðu kæranda og barns hennar var að mati kærunefndar tilefni til að upplýsa nánar um einstaklingsbundnar aðstæður þeirra með hliðsjón af hagsmunum barnsins, þ. á m. hver sé faðir barnsins og hvort hann dveljist í viðtökuríki, í því skyni að varpa frekara ljósi á aðstæður kæranda og barns hennar í viðtökuríki.

Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar og yfirferð annarra gagna í málinu er það mat kærunefndar að eins og á háttar í þessu máli hafi ekki verið nægjanlega upplýst um einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og barns hennar til þess að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort aðstæður þeirra féllu undir 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga. Kærunefnd telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi þar sem skort hafi á að upplýsa um atriði er haft gætu áhrif á matið. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu aftur til nýrrar meðferðar.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda. Kærunefnd telur jafnframt ekki unnt að bæta úr framangreindum annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hennar til meðferðar á ný.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Gunnar Páll Baldvinsson


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta