Félags- og jafnréttismálaráðherra á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarpaði í dag Alþjóðavinnumálaþingið sem nú stendur yfir í Genf. Ráðherra átti einnig fund með Guy Ryder forstjóra ILO og afhenti honum skjal til staðfestingar á því að Ísland hafi fullgilt samþykkt stofnunarinnar nr. 187 um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu.
107. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO); Alþjóðavinnumálaþingið, var sett síðastliðinn mánudag 28. maí 2018 og stendur í tvær vikur. Þingið sækja fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Áætlað er að um fimm þúsund fulltrúar sæki þingið að þessu sinni.
Helstu málefni þingsins eru aðgerðir gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum. Einnig eru þar til umfjöllunar samskipti ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins. Mikilvægt viðfangsefni þingsins er að ræða framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum og tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
Á fundi Ásmundar Einars og Guys Ryder ræddu þeir fyrirhugaða ráðstefnu um framtíðarskipan vinnunnar sem haldin verður á Íslandi 4. og 5.april 2019. Ráðstefnan er liður í samstarfsverkefni Norðurlandanna í tilefni af 100 ára afmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á því ári.