Hoppa yfir valmynd
10. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 422/2016

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 422/2016

Miðvikudaginn 10. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 25. október 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2016 um upphafstíma örorkumats, heimilisuppbótar og barnalífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um barnalífeyri, örorkulífeyri og tengdar greiðslur, þar á meðal heimilisuppbót, frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænum umsóknum, mótteknum 28. júlí 2016, og óskaði eftir greiðslum frá 29. júlí 2014. Með örorkumati, dags. 1. september 2016, var kæranda metin 75% örorka frá 1. október 2016 til 31. júlí 2018. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 5. september 2016, var umsókn kæranda um barnalífeyri samþykkt frá 1. október 2016 til 31. júlí 2017. Þann 14. september og 7. október 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar vegna synjunar á afturvirkum örorkulífeyrisgreiðslum. Stofnunin veitti kæranda umbeðinn rökstuðning með bréfi, dags. 10. október 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. október 2016. Með bréfi, dags. 31. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. desember 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2016. Þann 9. maí 2017 bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 10. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris og barnalífeyris. Þá gerir kærandi kröfu um að Tryggingastofnun ríkisins afgreiði umsókn hans um heimilisuppbót. Kærandi fer fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 1. september 2016 verði felld úr gildi og tímabil örorkumats verði ákvarðað tvö ár frá dagsetningu umsóknar eða frá 29. júlí 2014 líkt og kærandi hafi sótt um. Vísað er til 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, læknisvottorðs B sem staðfesti tímabil óvinnufærni sem og annarra gagna málsins. Kærandi fer jafnframt fram á að barnalífeyrir verði miðaður við sömu dagsetningu.

Í kæru segir að kærandi hafi átt við langvarandi veikindi að stríða. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði sé staðfest að kærandi hafi verið óvinnufær frá haustinu 2013. Þá liggi fyrir að kærandi hafi einungis fengið greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands árið 2014 vegna óvinnufærni. Sumarið 2014 hafi kæranda verið vísað í endurhæfingu hjá VIRK eftir að hafa verið óvinnufær um talsvert skeið. Endurhæfing hafi svo hafist undir árslok 2014. Fyrri part árs 2015 hafi kærandi sótt um endurhæfingarlífeyri, samhliða endurhæfingu hjá VIRK, sem hafi ítrekað verið hafnað. Kærandi hafi jafnframt sótt um örorkulífeyri á þeim tíma, þá miðað við tímabilið frá nóvember 2013, en þeim hluta umsóknarinnar hafi ekki verið svarað. Hafi sá hluti málsins verið kærður til þáverandi kærunefndar almannatrygginga sem hafi lagt fyrir Tryggingastofnun að afgreiða umsóknina um örorkulífeyri, enda hafi réttilega verið sótt um örorkulífeyri. Tryggingastofnun hafi ekki afgreitt umsóknina um örorkulífeyri heldur samþykkt umsóknina um endurhæfingarlífeyri. Kærandi hafi því fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. maí 2015 til og með 1. september 2016. Sumarið 2016 hafi endurhæfingu lokið hjá VIRK án árangurs og hafi kærandi sótt að nýju um örorkulífeyri.

Umsókn um örorkulífeyri og fleira hafi verið send þann 28. júlí 2016, en þá hafi kærandi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í fimmtán mánuði. Kærandi hafi einnig sótt um heimilisuppbót og barnalífeyri, í öllum tilfellum tvö ár aftur í tímann eða frá 29. júlí 2014.

Í framhaldinu hafi kærandi fengið tvær ákvarðanir frá Tryggingastofnun. Önnur hafi varðað umsókn um barnalífeyri sem hafi verið samþykktur frá 1. október 2016, en ekki frá dagsetningu umsóknar líkt og lögmælt sé. Hin ákvörðunin hafi varðað örorkulífeyri og hafi sú ákvörðun einnig tekið gildi þann 1. október 2016, en hafi ekki miðast við dagsetningu umsóknar líkt og lögmælt sé. Umsókn um heimilisuppbót hafi ekki verið svarað.

Málsmeðferðin og afgreiðsla málsins hjá Tryggingastofnun hafi í besta falli verið óhefðbundin, enda hafi verið óljóst hvort nefndar ákvarðanir hafi verið formlegar ákvarðanir eða ekki og ljóst hafi verið að umsóknunum hafði ekki verið svarað að fullu, samanber umsóknina um heimilisuppbót. Kærandi hafi því ákveðið að sjá til hvort formleg og rökstudd ákvörðun yrði send en það hafi ekki verið gert. Kærandi hafi því óskað eftir rökstuðningi þann 14. september 2016. Því erindi hafi Tryggingastofnun ekki svarað en stofnunin hafi til þess fjórtán daga, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi ítrekaði erindi sitt þann 7. október 2016, enda hafi hann talið afar óheppilegt að skrifa kæru til kærunefndar velferðarmála ef hann hefði ekki rökstuðning og lagatilvísanir Tryggingastofnunar fyrir ákvörðun sinni. Tryggingastofnun hafi svarað seinni beiðni kæranda um rökstuðning.

Þá segir í kæru að rökstuðningur Tryggingastofnunar hafi verið efnislega takmarkaður og hafi ekki samræmst með nokkru móti kröfum sem gerðar séu til rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi hvorki verið vísað til réttarreglna né heldur hvort eða hvernig stofnunin hafi lagt mat á umsókn kæranda. Kærandi sé því í þeirri stöðu að vita ekki á hvaða forsendum ákvörðunin hafi verið tekin og þá jafnframt með hvaða hætti hann eigi að rökstyðja þessa kæru.

Tryggingastofnun hafi tekið fram í rökstuðningi sínum að kærandi hafi notið endurhæfingarlífeyris í samtals átján mánuði, fram til 30. september 2016 og að ekki sé heimilt að veita greiðslur aftur fyrir upphaf endurhæfingarlífeyris. Bent sé á að kærandi hafi sent umsókn sína þann 28. júlí [2016] en þá hafi hann fengið endurhæfingarlífeyri í fimmtán mánuði en ekki átján. Að öðru leyti sé afstaða Tryggingastofnunar efnislega röng og ólögmæt, enda mæli 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar fyrir um að heimilt sé að greiða örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann og ekkert lagaboð boði breytingu á þeirri reglu í tilfelli endurhæfingarlífeyris sem rekist á við það tímabil. Væri það svo þá gæti Tryggingastofnun einfaldlega skikkað umsækjendur í endurhæfingu sem væri til dæmis sex mánuðir og afgreitt umsóknir um örorkulífeyri að því loknu og sparað sér þannig átján mánaða afturvirkar greiðslur. Slík regla sé afar íþyngjandi, án lagastoðar og rekist á lagaboð líkt og rakið hafi verið og gangi því alls ekki upp, enda ólögmæt.

Eðli máls samkvæmt dragist tímabil endurhæfingarlífeyris frá tveggja ára tímabilinu, að því gefnu að umsækjandi hafi uppfyllt að öðru leyti þau skilyrði sem gerð eru vegna umsóknar um örorkulífeyri.

Enginn ágreiningur sé um hvort kærandi uppfylli skilyrðin, enda hafi Tryggingastofnun hvergi haldið því fram, það sé þvert á móti sérstaklega sannað í gögnum málsins. Þá hafi Tryggingastofnun ekki véfengt þau gögn eða óskað eftir frekari gögnum svo sem henni sé skylt, sbr. rannsóknar- og leiðbeiningareglu stjórnsýslulaga.

Örorkutímabil í tilfelli kæranda ætti að framan röktu réttilega að miðast við dagsetningu umsóknar þann 28. júlí 2016 og bætur ættu að ákvarðast tvö ár afturvirkt eða frá 29. júlí 2014, að frádregnum fimmtán mánuðum sem greiddir hafi verið sem endurhæfingarlífeyrir.

Þá er því jafnframt haldið fram í kæru að bætur ættu að miðast við 1. nóvember 2013, enda segi 4. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga orðrétt að „bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta“ en líkt og rakið hafi verið hér að framan þá hafi kærandi sent inn umsókn um örorkulífeyri í byrjun árs 2015 sem hafi ekki verið svarað af hálfu Tryggingastofnunar, þrátt fyrir að kærunefnd almannatrygginga hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði að stofnuninni bæri að svara erindinu. Umsókn hafi því legið fyrir strax í byrjun árs 2015.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærður sé upphafstími örorkumats Tryggingastofnunar, dags. 1. september 2016. 

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sækja um örorkubætur. 

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við örorkumat þann 1. september 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B dags. 29. júlí 2016, skoðunarskýrsla C læknis, dags. 22. ágúst 2016, ásamt svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar og umsókn um örorku. Einnig hafi legið fyrir greinargerð frá VIRK, ásamt starfsgetumati, dags. 19. júní 2016, og sérhæft mat, dags. 11. ágúst 2016.

Kæranda hafi verið metinn endurhæfingarlífeyrir frá 1. ágúst 2007 til 31. maí 2008 og síðan frá 1. apríl 2015 til 30. september 2016. Upphaf gildistíma örorkumats hafi því verið miðað við 1. október 2016, þá dagsetningu þar sem endurhæfingarlífeyri sleppti.

Ákvæði 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar um að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, feli ekki sjálfkrafa í sér rétt til greiðslna tvö ár aftur í tímann. 

Ákvæðið þurfi að túlka í samræmi við önnur ákvæði laganna en þar á meðal séu bæði 1. mgr. 53. gr. sem fjalli um hvenær bótaréttur stofnist og jafnframt þau ákvæði sem eigi við um þær greiðslur sem sótt sé um hverju sinni. Í þessu tilviki séu það 18., 20. og 22. gr. laga um almannatryggingar varðandi örorkulífeyri, barnalífeyri og tekjutryggingu og 7., 8., 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð varðandi endurhæfingarlífeyri, heimilisuppbót og beitingu laga um almannatryggingar við túlkun á ákvæðum laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar að miða örorkumat við lok tímabils endurhæfingarlífeyris hafi verið byggð á því að ákvæði b-liðar 1. mgr. og 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar þurfi að túlka saman með 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 18. gr. þurfi umsækjandi um örorkulífeyri að uppfylla það skilyrði að vera metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar og samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatrygginga sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð greiðist endurhæfingarlífeyrir þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Samtúlkun á þessum ákvæðum hafi í för með sér þá niðurstöðu að örorkulífeyrir greiðist eingöngu ef endurhæfing hafi verið fullreynd og endurhæfingarlífeyrir greiðist eingöngu sé endurhæfing ekki fullreynd.

Ákvörðun Tryggingastofnunar um að miða örorkulífeyrismat við lok endurhæfingarlífeyris hafi byggst þannig á því að fyrst við lok greiðslna endurhæfingarlífeyris hafi verið staðfest að endurhæfing hafi talist fullreynd.

Ekki verði séð að úrskurður í kærumáli nr. 56/2015 hafi áhrif á þessa niðurstöðu. 

Samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar greiðist barnalífeyrir með börnum örorkulífeyrisþega. Í þessu ákvæði komi fram að heimild til greiðslu barnalífeyris á grundvelli örorkulífeyris byggist annars vegar á því að foreldri sé örorkulífeyrisþegi og hins vegar að um búsetu á Íslandi síðustu þrjú árin hafi verið að ræða áður en umsókn hafi verið lögð fram. Í ákvæðinu sé á hinn bóginn ekki kveðið á um að barnalífeyrir greiðist frá umsóknardegi.

Í bréfi, dags. 5. september 2016, um samþykki á greiðslu barnalífeyris hafi komið fram að barnalífeyrir hafi verið samþykktur fyrir tímabilið 1. október 2016 til 31. júlí 2017. Þetta tímabil sé sama tímabil og gildistími örorkumatsins að öðru leyti en því að barnalífeyrir muni falla niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að barnið nái 18 ára aldri. Kærandi hafi einnig fengið greiddan barnalífeyri á meðan hann fékk greiddan endurhæfingarlífeyri sem hafi á sama hátt verið greiddur fyrir sama tímabil og endurhæfingarlífeyrir hans.

Varðandi heimilisuppbót þá greiðist hún samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, einhleypingi sem nýtur tekjutryggingar og sér einn um heimilisrekstur án þess að hann njóti fjárhagslegs hagsræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð beri þannig með sér að til þess að örorkulífeyrisþegi fái greidda heimilisuppbót þurfi hann að uppfylla þau viðbótarskilyrði að fá greidda tekjutryggingu með örorkulífeyri sínum, þ.e. að vera einhleypur og að vera einn um heimilisrekstur. Þá er bent á þær upplýsingar sem komi fram á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi sé giftur maður sem uppfylli bersýnilega ekki þetta skilyrði og eigi því ekki rétt á að fá greidda heimilisuppbót. Þótt ljóst sé að kærandi eigi ekki rétt á heimilisuppbót hefði synjun á heimilisuppbót átt að koma fram í bréfi, dags. 5. september 2016, þar sem honum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu umsóknar. Er beðist velvirðingar á því að það hafi ekki verið gert.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar upphafstíma örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2016, upphafstíma barnalífeyris og afgreiðslu á umsókn kæranda um heimilisuppbót.  

A. Örorkumat

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 1. september 2016, um upphafstíma örorkumats frá 1. október 2016. Kærandi óskar eftir afturvirkum greiðslum örorkulífeyris á tímabilinu 29. júlí 2014 til 31. mars 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, getur einstaklingur ekki fengið bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri greiddan á sama tíma. Þá kemur fram í 3. málslið 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. um félagslega aðstoð er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings, sem er á aldrinum 18 til 67 ára, verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Kærandi var talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati þann 1. september 2016. Gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá 1. október 2016 til 31. júlí 2018. Kærandi hefur áður notið endurhæfingarlífeyris eða frá 1. ágúst 2007 til 31. maí 2008 og frá 1. apríl 2015 til 30. september 2016.

Í málinu liggja fyrir læknisvottorð B, dags. 28. júlí 2016, umsókn kæranda um örorkubætur, dags. 28. júlí 2016, og starfsgetumat frá VIRK, dags. 19. júní 2016.

Í læknisvottorði B læknis, dags. 28. júlí 2016, sem fylgdi með umsókn kæranda um örorkubætur kemur fram að hún telji kæranda óvinnufæran frá 20. október 2013. Í læknisvottorði segir m.a.:

„[…]Hann leitaði til heimilislæknis í nóvember 2013 og bað um að komast að hjá VIRK en var þá vísað á geðlækni sem hann hefur verið að hitta síðan en það seinkaði öllu ferðinu hjá VIRK. Komst í raun ekki að þar fyrr en mörgum mánuðum seinna. Hefur nú verið í tengslum við VIRK og búið að reyna að endurhæfa hann með ekki svo góðum árangri vegna hans svefnvanda, mætir slitrótt. […]“

Í starfsgetumati mati VIRK, dags. 19. júní 2016, segir um stöðu kæranda og horfur:

„Staðan í dag er ekki góð. Verið í þjónustu Virk síðan í febrúar 2015 en á auk þess fyrra tímabil að baki. Þrátt fyrir meðferðarúrræði ekki að færast marktækt nær vinnumarkaði og ljóst að ennþá langt í land með það, ekki síst vegna svefnerfiðleikanna en auk þess annarra einkenna.“

Þá kemur meðal annars fram í starfsgetumatinu að starfsendurhæfing sé fullreynd og er sú niðurstaða rökstudd með eftirfarandi rökum:

„Að mati undirritaðs er starfsgeta þessa manns mikið skert. Samanber ofan hefur hann átt við langvarandi kvíða- og þunglyndiseinkenni að etja og hamlandi svefnerfiðleikar gert honum erfitt uppdráttar gagnvart vinnumarkaði. Á mjög brotna vinnu- og skólasögu að baki. Verið í D frá X en námið gengið mjög seint og einungis að ná litlum hluta af takmarki sínu. Met því starfsendurhæfingu fullreynda á þessum tímapunkti og mikilvægt að ná meiri stöðugleika, ekki síst m.t.t. svefnsins.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur farið yfir mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna og leggur úrskurðarnefndin sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Fyrir liggur að kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri á sínum tíma og hefur endurhæfing verið reynd samtals í átján mánuði. Að þeim tíma liðnum þótti ljóst að endurhæfing væri fullreynd á þeim tímapunkti.

Er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé hægt að líta fram hjá því að þegar kærandi hóf að taka endurhæfingarlífeyri þann 1. apríl 2015 hafi ekki verið tímabært að meta örorku heldur hafi endurhæfing verið álitin raunhæfur möguleiki á þeim tímapunkti. Samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Þrátt fyrir að endurhæfing hafi ekki skilað sér í starfsorku kæranda við lok endurhæfingar er ljóst að endurhæfing var sannarlega ekki fullreynd fyrr en á þeim tímapunkti þegar henni lauk og við tók 75% örorka, þ.e. þann 1. október 2016.

Kærandi vísar til þess í kæru að 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um að heimilt sé að greiða örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann og ekkert lagaboð boði breytingu á þeirri reglu í tilfelli endurhæfingarlífeyris sem rekst á það tímabil. Eins og að framan greinir þá hefur Tryggingastofnun ríkisins heimild lögum samkvæmt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur ef gögn málsins bera það með sér að raunhæfur möguleiki sé til staðar að endurhæfa viðkomandi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. september 2016, að upphafstími örorkumats skuli vera 1. október 2016.

B. Barnalífeyrir

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. september 2016, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri var samþykkt frá 1. október 2016. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri á tímabilinu 29. júlí 2014 til 31. mars 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

Eins og að framan greinir þá var kærandi á endurhæfingarlífeyri og fékk samhliða honum greiddan barnalífeyri með syni sínum á tímabilinu 1. apríl 2015 til 30. september 2016. Tryggingastofnun ríkisins hefur samþykkt umsókn kæranda um barnalífeyri frá gildistöku örorkumats, 1. október 2016, fram að 18 ára aldri barnsins eins og framangreind 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar kveður á um. Við úrlausn þessa kæruliðar lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í umfjöllun hennar varðandi kröfu kæranda um afturvirkan örorkulífeyri. Þar sem úrskurðarnefndin hefur staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að kærandi eigi ekki rétt á afturvirkum greiðslum örorkulífeyris leiðir sú niðurstaða til þess eðli máls samkvæmt að kærandi uppfyllir ekki lagaskilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris á framangreindu tímabili.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um gildistíma barnalífeyris er því staðfest.

C. Heimilisuppbót

Kærandi lagði fram umsókn til Tryggingastofnunar um heimilisuppbót þann 28. júlí 2016. Er þess krafist að Tryggingastofnun ríkisins afgreiði umsóknina.

Það er óskráð meginregla í stjórnsýslurétti að sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé augljóslega ekki vænst. Eðlileg krafa er lögð á stjórnvöld að íþyngjandi ákvarðanir séu tilkynntar skriflega.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurðarnefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.

Óumdeilt er í þessu máli að Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki afgreitt umsókn kæranda um heimilisuppbót. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins greinir frá því að farist hafi fyrir að taka formlega afstöðu til umsóknar kæranda til heimilisuppbótar. Ekki er hægt að líta svo á að með umfjöllun um umsókn kæranda um heimilisuppbót í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hafi stofnunin uppfyllt það skilyrði stjórnsýsluréttar að umsókn einstaklings um möguleg réttindi sé eðli máls samkvæmt svarað með formlegri ákvörðun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur ekki heimild til að úrskurða um framangreinda kröfu kæranda fyrr en Tryggingastofnun hefur tekið stjórnvaldsákvörðun um þetta atriði í umsókn kæranda, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er þessum hluta kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda Tryggingastofnun á að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2016 þess efnis að upphafstími örorkumats A, skuli vera 1. október 2016 er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma barnalífeyris er staðfest. Þeim hluta kæru sem varðar heimilisuppbót er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta